„Hvenær ætlar þú að hætta þessari vitleysu?“

Hrönn Sigurðardóttir er afrekskona í ólympíufitness.
Hrönn Sigurðardóttir er afrekskona í ólympíufitness. Ljósmyndari / Mummi Lú

Hrönn Sigurðardóttir byrjaði að lyfta lóðum árið 2005, og í kjölfarið færði hún sig yfir í fitness. Hún var þó ekki að renna blint í sjóinn, enda hafði systir hennar Heiðrún Sigurðardóttir verið viðloðandi greinina í mörg ár.

„Síðan þá hef ég unnið níu Íslandsmeistaratitla og í mars var ég úti á stærsta fitness-móti heims, Arnold Classic, þar sem ég varð í þriðja sæti sem er svakalega góður árangur á okkar litla, íslenska mælikvarða. Fyrir nokkrum vikum tók ég síðan þátt í heimsmeistaramóti í Póllandi, þar sem ég varð í sjöunda sæti,“ segir Hrönn, en hún keppir í svokölluðu ólympíufitness. En hvað er ólympíufitness?

„Þetta er stærsti flokkurinn, vöðvalega séð. Skurðurinn er mestur, eða dýpstur, og oft þarf maður að fara lægra í fituprósentu í þessum flokki heldur en öðrum. Svo þarf ég að dansa rútínu, þar sem maður þarf að sýna vöðvana í fimm skyldustöðum við tónlist og skila því fallega frá sér. Við erum líka berfættar, en ekki í háhæluðum skóm eins og aðrir fitnessflokkar.

Hrönn segir að það sé mikilvægt að vera með hugarfarið í lagi ef maður ætli sér að ná árangri í ólympíufitness, auk þess sem hún kann þjálfaranum sínum, Konráð Gíslasyni, bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Eins og sjá má er Hrönn afar vöðvastælt.
Eins og sjá má er Hrönn afar vöðvastælt. Ljósmyndari / Mummi Lú

„Þetta er ofboðsleg vinna. Maður þarf að vera agaður og að hafa markmiðin á hreinu. Mataræðið er ofboðslega strangt en maður getur ekki leyft sér að borða pítsu og nammi í tíma og ótíma,“ segir Hrönn, sem einnig æfir af kappi.

„Ég æfi einu sinni á dag, og hvíli yfirleitt á sunnudögum. Þegar kemur að þessu 12 vikna niðurskurðartímabili æfi ég tvisvar á dag, og lyfti þá um miðjan daginn. Svo borða ég ofboðslega hreinan mat, og mikið af honum,“ segir Hrönn og bætir við að mikil vinna sé fólgin í því að undirbúa matinn sem hún lætur ofan í sig.

„Margir halda að fólk í fitness borði lítið og sé alltaf svangt, en það er alls ekki þannig. Við borðum á tveggja tíma fresti, þetta eru jafnvel sjö máltíðir á dag eða meira. Það þarf síðan að undirbúa allar þessar máltíðir, svo maður lendi ekki í því að þurfa að grípa sér eitthvað óhollt.“

Jólin eru á næsta leiti, en Hrönn segir að fólk sem stundar fitness borði góðan mat yfir hátíðirnar eins og aðrir.

„Jólin eru mjög venjuleg. Ég borða bara mína steik og ég baka. Þetta er meira spurning um að klára ekki piparkökurnar, heldur fá sér bara tvær til þrjár. Ég er alltaf með hamborgarhrygg og villisveppasósu, brúnaðar kartöflur, fullt af ís og alls konar gúmmelaði í eftirrétt,“ segir Hrönn og þvertekur fyrir að hún neiti sér um góðan mat.

Hvenær ætlar þú að hætta þessari vitleysu?

„Fólk spyr mig reglulega hvenær ég ætli eiginlega að hætta þessari vitleysu, en fyrir mér er þetta bara lífstíll. Ég borða alltaf hollt, og ég æfi alltaf og mér líður þar af leiðandi alltaf mjög vel. Ég er glöð og sátt og geri það sem mér finnst gaman og sé ekki af hverju ég ætti að hætta því,“ segir Hrönn að lokum hress í bragði.

Hrönn er ekki einungis liðtæk í ræktinni, því hún saumar einnig keppnisbikiní og æfingaföt undir merkinu Kusk Collection.

Hrönn hefur bæði keppt hér heima, sem og erlendis.
Hrönn hefur bæði keppt hér heima, sem og erlendis. Ljósmyndari / Mummi Lú
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál