„Finndu þér þinn eigin stíl kona“

Pétur Gautur segir mikil líkindi á milli eigin verka og …
Pétur Gautur segir mikil líkindi á milli eigin verka og þeirra sem sýnd eru í Smáralind um þessar mundir. mbl.is: Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Verk myndlistamannsins Péturs Gauts eru Íslendingum vel kunn, en hann er helst þekktur fyrir uppstillingar sínar þar sem jafnan koma við sögu blóm eða ávextir. Á dögunum opnaði málverkasýning á kaffihúsinu Energia, sem staðsett er í Smáralind, en myndirnar sem þar hanga eru ansi keimlíkar verkum Péturs Gauts. Sýningin stóð yfir á kaffihúsinu til 2. desember. 

„Þetta er mjög kunnuglegt myndefni og rosalega líkt því sem ég er þekktur fyrir. Bæði myndefni, bakgrunnur og hvernig þetta er borið fram,“ segir Pétur Gautur, en bætir þó við að málverkin séu afar illa unnin og ekki mikið augnayndi.

Pétur Gautur segir að því miður sé það engin nýlunda að fólk eigni sér hugmyndir annarra og bendir á aðra yfirstandandi sýningu máli sínu til stuðnings.

„Þar er Pétur Þór, maðurinn sem er þekktur úr málverkafölsunarmálinu, að sýna smáar myndir. Maður sér alveg í hvaða fótspor hann er að máta sig. Hann er að taka málverkin hans Jóns Reykdal og gera þau að sínum. En það er mjög illa gert. Maður sér að þetta er ekki Jón Reykdal, en þetta er myndefnið hans og litirnir hans. Það eru rosalega mikil líkindi á milli Jóns og Péturs, eins og er á milli þessarar konu sem sýnir í Smáralindinni og mín.“

„Mér finnst leiðinlegt að fólk skuli vera að apa eftir, í stað þess að reyna að finna sjálft sig fyrst að það er að fara út á þennan sýningarmarkað. Það er allt í lagi að fólk sé undir áhrifum, en það gegnir öðru máli þegar myndirnar eru komnar upp á vegg á fjölförnum stöðum og eru til sölu,“ segir Pétur Gautur, en hvað er líkt með verkum hans og þeim sem sýnd eru í Energiu um þessar mundir, og hvað greinir málverkin að?

„Þetta er bara illa málað. Myndefnið er þó mjög svipað, þetta eru skálar og ávextir og þetta borið fram á hátt sem ég er búinn að vera að þróa undanfarin 30 ár. Þarna er einfaldlega verið að stela,“ segir Pétur Gautur, og bætir við að lítið sé við þessu gera.

„Eins og einhver sagði nú við mig, maður er fyrst búinn að „meika“ það þegar það er farið að stæla mann. En þá vil ég helst fá betri stælingar. Finndu þér bara þinn eigin stíl kona,“ segir Pétur Gautur að lokum.

Pétur Gautur á vinnustofu sinni, á veggnum fyrir aftan glittir …
Pétur Gautur á vinnustofu sinni, á veggnum fyrir aftan glittir í verk hans. Eggert Jóhannesson
Hér má sjá verkin sem hanga uppi á Energia, en …
Hér má sjá verkin sem hanga uppi á Energia, en þau eru ansi keimlík þeim sem Pétur Gautur er þekktur fyrir. Ljósmynd / Pétur Gautur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál