Framtíðin er full af tækifærum

Sigríður Ásdís Snævarr ætlar að fara yfir feril sinn, í …
Sigríður Ásdís Snævarr ætlar að fara yfir feril sinn, í tilefni þess að í ár eru 25 ár liðin síðan hún var skipuð sendiherra. mbl.is / Árni Sæberg

Í kvöld mun Sigríður Ásdís Snævarr, sem var fyrst kvenna til að vera skipuð sendiherra fyrir Íslands hönd, taka á móti gestum í Hannesarholti. Þar mun hún fara yfir feril sinn, og spjalla við gesti í tilefni þess að 25 ár eru liðin síðan hún hóf störf sem sendiherra.

Sigríður hefur starfað víða erlendis sem diplómat, en hún hóf starfsferil sinn í Sovétríkjunum á áttunda áratugnum. Í dag er hún þó búsett á Íslandi og vinnur með diplómötum framtíðarinnar.

„Ég er fyrsta konan á Íslandi sem er skipuð sendiherra, og það 71 ári eftir að fyrsti karlmaðurinn var skipaður. Hann hét Sveinn Björnsson, og var fyrsti forsetinn okkar. Ég er ennþá sendiherra, raunar starfandi á Íslandi, og nýt þess innilega að hugsa um framtíðina með fólki sem ýmist er að byrja hjá okkur í utanríkisþjónustunni eða er að koma heim að utan,“ segir Sigríður sem hefur starfað hjá utanríkisþjónustunni í 38 ár.

„Ég er búin að vera í utanríkisþjónustunni síðan 1978 og ég byrjaði minn feril í Sovétríkjunum. Þar var ég frá 1979, svo ég er búin að eiga mjög langan, farsælan og yndislegan feril og er ennþá að,“ bætir Sigríður við, sem segist aldrei hafa séð eftir því að hafa valið sér þessa leið í lífinu.

„Ég hef aldrei í lífinu séð eftir því að velja mér þennan vettvang. Eftir fall Berlínarmúrsins finnst mér hver dagur vera öðrum skemmtilegri,“ játar Sigríður og bætir við að framtíðin sé full af tækifærum.

Sigríður hefur komið víða við á ferli sínum, hér má …
Sigríður hefur komið víða við á ferli sínum, hér má sjá þegar hún afhenti Svíakonungi trúnaðarbréf. Sænska sjónvarpið sýndi frá athöfninni, en Sigríði var ekið í hestvagni til konungshallarinnar. mbl.is

Sonurinn passar upp á jólahefðirnar

Diplómatar dveljast jafnan mikið erlendis og kynnast þar með erlendum hefðum. Sjálf segir Sigríður þessar hefðir ekki hafa haft mikil áhrif á jólahald hennar og fjölskyldunnar, sem hefur tekið litlum breytingum undanfarin ár. En hvað gerir sendiherrann á aðventunni?

„Mér finnst dásamlegt að kveikja á kertum, en við eigum einnig lítinn níu ára strák sem passar upp á allar hefðir. Hann er nú búinn að vera með skó úti í glugga ansi lengi, því það er aldrei að vita hvort eitthvað slysist þarna ofan í skóinn,“ segir Sigríður, kát í bragði.

„Við systkinin hittumst einnig alltaf og gerum laufabrauð saman, en það er siður frá því við vorum í Svíþjóð. Þá fórum við að gera íslenskt laufabrauð saman. Svo finnst mér æðislegt að horfa á afhendingu Nóbelsverðlaunanna 10. desember. Mér finnst það ótrúlega falleg uppskeruhátíð heimsins á öllum þessum sviðum lista, menningar og vísinda. Mér finnst það alveg geggjað,“ segir Sigríður að endingu.

Frekari upplýsingar um viðburð Hannesarholts má finna hér.  

Sigríður sá til þess að 22 tonna ísjaki var hífður …
Sigríður sá til þess að 22 tonna ísjaki var hífður upp úr Jökulsárlóni og fluttur til Parísar, þar sem hann var til sýnis fyrir utan vísindahöllina Palais de la Découverte. mbl.is: Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál