Er ekki ógeðslega dýrt að vera vegan?

Eva Guðrún þriggja ára himinlifandi að hitta apana en þarna …
Eva Guðrún þriggja ára himinlifandi að hitta apana en þarna má á sama tíma sjá gott dæmi um dýr sem hafa verið tekin úr sínu náttúrulega umhverfi og gerð að tekjutengdu skemmtiefni.

„Ég hef alltaf verið rosalega mikill dýravinur og fundið fyrir mikilli þörf til að hjálpa dýrum. Þegar ég var yngri fólst það aðallega í að koma heim með ketti sem ég taldi þurfa heimili (hvort sem það var rétt eða ekki), særða fugla eða litla músarunga sem ég var harðákveðin í að bjarga, foreldrum mínum til mikillar ánægju.

Þegar ég var ekki nema nokkurra ára sagði ég við mömmu að ég ætlaði sko að vera grænmetisæta til að bjarga öllum dýrunum en í gegnum árin fylgdi ég mikilli tegundahyggju sem felst í því að gera mun á dýrum eftir tegundum. Ég neitaði t.d að borða hrossakjöt þar sem ég hef verið mikið í hestunum en tengdi einhvern veginn minna við önnur dýr,“ segir Eva Guðrún Kristjánsdóttir í pistli inni á Meniga.is: 

Ég byrjaði að kynna mér vegan lífsstíl 2015 en á sama tíma skoðaði ég umhverfisáhrif dýraiðnaðarins, kjöt- og mjólkuriðnaðinn almennilega og þá var ekki aftur snúið.

Hvað er að vera vegan?

Veganismi er stærsta og mest vaxandi réttindabarátta sem háð er í heiminum í dag.

Veganismi er lífsháttur þar sem leitast er við að útiloka og forðast — eftir fremsta megni — hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu.

Eftir að ég gerðist vegan hef ég fengið ótal spurningar/fullyrðingar um nánast allt í mínu lífi.

  • Hvaðan færðu eiginlega prótein?
  • Langar þig aldrei í beikon?
  • Er ekki ógeðslega dýrt að vera vegan?
  • Þarftu ekki að taka mikið af vítamínum?
  • Kýr vilja láta mjólka sig, við erum að gera þeim greiða.
  • Það þarf ekki að drepa nein dýr við að fá egg og mjólk, hvað er þá að því?

„Er ekki ógeðslega dýrt að vera vegan?“

Sjálf hafði ég ekki vitneskju um hvort matarreikningur fjölskyldunnar (tveir fullorðnir og einn þriggja ára gutti) væri hærri eftir að við ákváðum að skipta yfir í vegan-lífsstíl og ákvað því að leita svara í Meniga.

Í skýrslum Meniga er hægt að sjá hvernig útgjöld manns skiptast eftir flokkum. Ég valdi að skoða alla flokka sem tengjast mat: Matarinnkaup (matvöruverslanir), skyndibita, veitingastaði, sjoppur, kaffihús og bakarí.

Til að geta svarað þeirri margspurðu spurningu hvort heimilið væri að eyða meira í mat áður eða eftir að við urðum vegan valdi ég að bera saman tvö tímabil, nóvember til maí, áður og eftir að ég varð vegan.

Ég og maðurinn minn erum samtengd í Meniga þannig að öll útgjöld heimilisins endurspeglast í þessum flokkum. Heimilið hefur varið samanlagt tæpum 3 milljónum í matarútgjöld fyrir þessi 2 tímabil.

Bláu súlurnar sýna fyrra tímabilið og þær gulu sýna útgjöld eftir að við gerðumst vegan.

Matarinnkaup í matvöruverslunum eru nánast á pari en neysla okkar á skyndibita hefur hækkað töluvert. Það er þó athyglisvert að sjá að val á okkar á skyndibita hefur breyst þó nokkuð en með því að smella á súlurnar er hægt að sjá hvaða staðir eru þarna undir.

Eins og sjá má var Dominos greinilega vinsælt skyndibitaval en þegar sami flokkur var valinn eftir að vegan-lífsstílinn var tekinn upp er myndin allt önnur. Eftir að við fjölskyldan gerðumst vegan höfum við greinilega borðað vandræðalega mikið af skyndibita en það sem var áhugavert að sjá var hvað val á skyndibita breyttist algjörlega.

Vinsælasta val okkar núna er Mandy, sem er arabískur veitingastaður í miðbænum (biðjið um Vegan Falafel og þið verðið ekki fyrir vonbrigðum).

Ísbúðir og bakarí hafa dregist saman og flokkurinn kaffihús, sem var nú ekki stór fyrir hefur alveg horfið.

Meira í skyndibita, minna í allt annað

Þegar ég velti því upp hvort það sé dýrara fyrir heimilið okkar eftir að við urðum vegan þá er svarið já, eða um 100.000 kr. aukning í skyndibita á þessu 7 mánaða tímabil. Í hinum útgjaldaliðunum fimm lækkar kostnaður örlítið eftir að við gerðumst vegan. Taka þarf þó í reikninginn að við foreldrarnir höfum verið að vinna svolítið mikið og skyndibiti verið vandræðalega tíður kostur hjá okkur.

Mikilvægt er einnig að taka með í reikninginn að þessi samanburður sýnir einungis okkar útgjöld og endurspeglar ekki endilega reynslu annarra sem lifa sama lífsstíl.

Þrátt fyrir að í okkar tilfelli sé það örlítið dýrara að vera vegan matarlega séð þá er það hverrar krónu virði.

Ef við getum lifað góðu lífi án þess að valda dýrum þjáningu, því ekki að sleppa því alfarið og gerast vegan?

Húsdýr eru skyni gæddar verur sem hafa tilfinningar og mynda náin tengsl við önnur dýr þegar þau fá tækifæri til þess. Húsdýr eru föst í matvælaframleiðslu þar sem þau hafa enga rödd og geta ekki varið sig eða tjáð þarfir sínar svo að vel skiljist.
Dýr í búskap lifa við innilokun, tæknisæðingar, geldingar, skort á læknisþjónustu og það að missa afkvæmi sín reglulega í sláturhús.

Það verður gaman að geta svarað þessari spurningu þegar ég verð næst spurð um hvort það sé ekki ógeðslega dýrt að vera vegan.

Í lokin langar mig að hvetja alla sem þykir vænt um dýr, umhverfið, heilsuna og lífið að kíkja á Vegan-samtökin og kynna sér málefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál