Hvernig verður árið hjá Trump, Guðna og Ásdísi?

Melania og Donald Trump.
Melania og Donald Trump. mbl.is/AFP

Benedikt Lafleur talnaspekingur skoðar árið 2017 út frá talnaspekinni. Hann segir að árið verði ár viðskipta og fjármála. Hann er löngu orðinn landsþekktur fyrir hæfileika sína á þessu sviði en þess má geta að hann hafnaði í þriðja sæti í alþjóðlegri skyggnikeppni í Kiev í Úkraínu 2013 og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar í faginu. 

„Þegar við skoðum árið í ár út frá talnastærðum talnaspekinnar eða númeralógíunnar,  skulum við rýna í þrjú talnagildi sem ártalið hefur að geyma: Töluna 2, eða annað árþúsundið, töluna 17 sem hefur þversummuna 8 (1 + 7 = 8) og þversummu þessara tveggja talnastærða, sem verður þá um leið ártala ársins í ár, heildarútkomutala ársins, en það er talan 1 (2 + 17/8 = 19/10 eða 1).

Talan 2 er tala kærleikans og stuðnings, móður jarðar og hinna kvenlegu gilda. Þessi gildi fela í sér nýjar áskoranir fyrir hið nýja árþúsund og munu setja mark sitt á það, æ meir, eftir því sem lengra líður á öldina. Sumir segja að öld vatnsberans sé runnin upp, þegar menn læra að vinna saman að sameiginlegum hagsmunum og betra lífi. Best að sjá hvað setur, en trúlega mun þessi draumur varla rætast að fullu í þessu lífi, þ.e. okkar sem rýnum nú í tölurnar.

Talan 8 er tala fjármagns og valds, áhrifa og samskipta.

Samanlagt mynda þessar tvær talnastærðir, 2 og 8, hinn athafnasama ás, byrjunartöluna sem ætlað er að gefa tóninn, setja niður markmið og metnað og hrinda hlutum í framkvæmd.

Í ár er sem sagt gott að byrja á einhverju nýju (1) og leitast við að fá eitthvað út úr þeim gjörningi (8) og um leið að leita stuðnings í þeirri viðleitni (2).

Þegar þessir þrír þættir, eða þrjú gildi, sem standa að baki fyrrgreindra talnastærða, vinna saman, má búast við miklum árangri á árinu.

Mikilvægt er að einangrast ekki í framkvæmdaseminni og láta ekki metnaðinn ná völdum án þess að njóta stuðnings úr breiðum hópi og kunna að miðla hugmyndum í þágu annarra. Hérna gæti alheims- og þjónustutalan 9 einnig hjálpað mikið til, sem býr yfir hæfni til að ná til mjög margra og þjónusta þá í óeigingjörnum tilgangi.

Árið í ár er með öðrum orðum mikið athafnaár og hentar sérstaklega vel þeim sem vilja byrja nýtt líf og framkvæma stóra hluti og komast til áhrifa og metorða á grundvelli árangursríkrar vinnu á liðnu ári.

Eftirfarandi þrír einstaklingar hafa verið mjög áberandi undanfarin ár. Tveir fyrstnefndu hafa náð óvæntum hæðum í vinsældum að undanförnu og sá þriðji hættir ekki að koma á óvart. Við skulum rýna í tölur þessara þriggja einstaklinga: Guðni Th. Jóhannesson, Donald Trump og Ásdís Rán Gunnarsdóttir,“ segir hann. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Ófeigur

Guðni Thorlacius Jóhannesson 26. 06. 1968

Hæstvirtur forseti Íslands hefur töluleg gildi í nafninu sínu sem ættu ekki að koma á óvart ef litið er til stöðu hans í dag. Fæðingartala hans, 11/2, er tala brautryðjandans og hins athafnasama og metnaðarfulla leiðtoga sem er ætlað að vera í sviðsljósinu. Ef við notumst við fullt skírnarnafn, þ.e. millinafnið Thorlacius, fáum við ekki aðeins talnagildið 9, bak við það nafn, heldur einnig hina stóru meistaratölu, nafnatöluna 99/9, sem er tala mikillar þjónustu í þágu heildarinnar, sú tala er óeigingjörn og fórnfús í hvívetna og ber hag heildarinnar fyrir brjósti.

Ef við notum eingöngu Th. (eins og oft er gert) fáum við meiri athafnasemi út úr nafninu og nafnatöluna 55/1, sem er tala mikillar hreinsunar og praktískrar stjórnunar, laus við allt bruðl og sem lætur gamminn geysa og leysir verkefnin hér og nú. Heildarútkoma Guðna með Th. verður þá 66/3 sem felur í sér miklar breytingar á samfélaginu og ofursamviskusamlegt starf á opinberum vettvangi, t.d. eins og hér í virðulegu embætti, í þágu samfélagsins.

Skylt er hins vegar að notast við Thorlacius samkvæmt hefðum talnaspekinnar og þá fáum við aðra heildarútkomutölu (öðru nafni líftölu), nefnilega þá sömu og lýsir köllun Guðna og lífstilgangi, fæðingartöluna 11, tölu hins ótvíræða leiðtoga sem ætlað er að hrinda í framkvæmd mikilvægu brautryðjendastarfi. Talan 11 sver sig auðvitað við ártöluna í ár, hinn framkvæmdasama og metnaðarfulla ás, sem stendur einn og sér, en hjá Guðna má segja að vægi hans margfaldist í hans tilviki vegna meistaratölunnar 11, sem kemur fram með jafnáberandi hætti í nafni hans og raun ber vitni, hefur breiðari skírskotun og kemur meiru í verk en ef meistaratölunnar nyti ekki við.

Donald Trump.
Donald Trump. mbl.is/AFP

 

Donald John Trump   14. 06. 1946   Surprise, surprise!! 

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna hættir ekki að koma okkur á óvart. Hann kom heiminum ekki aðeins á óvart með óvæntum sigri í nýafstöðnum kosningum heldur má segja að tölurnar hans komi einnig á óvart.

Eina talan sem lýsir hinum miskunnarlausa foringja og þeim metnaði sem við sáum hjá Guðna er meistaratalan 11 sem birtist þó aðeins einu sinni hjá Trump og felur sig bak við millinafnið John. Að öðru leyti lýsa útkomutölur hins nýkjörna forseta fremur hugsjónaríkum, jafnvel andlega þenkjandi, manni sem hefur pælt mikið í tilverunni og er mjög áræðinn og ákveðinn að hrinda þeim í framkvæmd (sbr. sjöurnar tvær í Donald J. og Trump og nafnatöluna 5). 

Nafnatalan 5 er ekki bara ástríðufull hugsjónatala, hún er mjög hrein og bein og þolir enga bið í framkvæmdaseminni. Þetta er öfgafull tala og er ráðlagt að beina ástríðum sínum og hugmyndafræði í heilbrigðar áttir. Henni fylgir rosalegur kraftur og brennandi ástríður og oft bráðlæti, en hún kemur einnig miklu í verk á skömmum tíma.

Fæðingartala Trumps lýsir köllun hans og tilgangi, sem er talan 22/4, tala mikillar uppbyggingar, venjulega til að hjálpa fólki, t.d. í krafti þjóðfélagslegrar samvinnu. Hún kann einnig að fela í sér stórkostlega uppbyggingu til að koma til móts við fólk með ýmsum hætti, eins og hótelkeðja Trumps ber að vissu leyti vitni um eða óskir milljóna Bandaríkjamanna um fleiri störf til að koma samfélaginu til bjargar. Heildarútkomutalan verður þá hin stóra þjónustutala 99, sem við sáum einnig í greiningu Guðna, talan sem gerði honum kleift að tísta með jafnárangursríkum hætti og raun ber vitni í veggjum samfélagsmiðlanna og kom honum endanlega til valda.

Ef við notumst hins vegar aðeins við J. ekki John, fáum við bæði kameljónstöluna 13, sem útkomutölu nafns eða meistaratöluna 22, sem er sú sama og fæðingartalan og lýsir einstaklingi sem er æði jarðbundinn og vill allt fyrir aðra gera. Heildarútkomutala Bandaríkjaforseta verður þá 44 sem er sterkasta og þrautseigasta talan, með peninga- og áhrifatöluna átta sem þversummu.

Ef við sleppum svo alveg millinafninu (sem gjarnan er gert) fáum við sömu þversummuna og hjá Guðna, eða 3, og heildarútkomutöluna 7 sem kemur oftlega fram í nafninu og lýsir aftur djúpt þenkjandi hugsjónamanni, sem er tilbúinn að færa fórnir fyrir hugmyndir sína og trú og gefst aldrei upp í leit sinni að fullkomnari heimi.

Er mögulegt að Trump hafi ekki verið aðeins stórlega vanmetinn á hinum pólitíska vígvelli, heldur einnig misskilinn sem manneskja?

 

Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

Ásdís Rán Gunnarsdóttir 12. 08. 1980

Ásdísi Rán er eins og Guðna ætlað að verða frumkvöðull og feta torsóttar brautir, þar sem fæðingartala hennar er meistaratalan 11, sem ætlað er að vera í sviðsljósinu, jafnvel stjarna. Hún hefur tvær aðrar meistaratölur til að státa sig af.

Nafnatalan hennar er hin raunsæja og varfærna 22, sem er annt um aðra og vill standa að kærleiksríkri uppbyggingu í þágu alls samfélagsins. Þar sver hún sig í ætt við þær tölur sem eru mjög áberandi hjá Trump.

Útkomutala hennar er hinn síbreytilegi og endalaust skapandi og ofurhreyfanlegi 33 sem finnur sér form í þversummunni sex. Þetta er samfélags- og fjölskylduvæn tala sem hefur þörf fyrir miklar breytingar og er í stöðugri þróun.

Ef þú vilt vita eitthvað meira getur þú sent Benedikt tölvupóst eða haft samband við hann í gegnum Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál