Hefði verið auðveldara að selja blómavasa

Gerður Huld Arinbjarnardóttir.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Gerður Huld Arinbjarnardóttir var tvítug þegar hún fékk þá hugmynd að stofna fyrirtæki sem biði upp á fríar heimakynningar á kynlífstækjum. Hún segir að það hafi gengið illa fyrstu árin, erfitt hafi verið að fá fólk til að taka hana alvarlega. Í dag gengur vel og er Blush.is með 11 starfsmenn. 

„Ég og Rakel vinkona mín fengum hugmyndina saman að stofna fyrirtæki sem biði upp á fríar heimakynningar á kynlífstækjum. Við vorum báðar atvinnulausar að koma úr fæðingarorlofi, 20 ára og ómenntaðar svo það var ekki mjög spennandi atvinnutilboð að bíða okkar. 

Við að sjálfsögðu héldum að við myndum bara stofna fyrirtækið og fara að vinna við það, en eins og með allt þá tók óra tíma að komast af stað og við vorum báðar komnar i fullt starf annarstaðar til að halda okkur uppi og til að fjármagna Blush. Árið 2011 var ennþá rosalega rólegt að gera hjá Blush og Rakel fékk atvinnutilboð sem krafðist þess að hún myndi hætta hjá Blush. Ég vildi þó ekki gefast upp og hélt áfram að vinna fullt starf ásamt aukastarfi á kvöldin og svo var ég í Blush heimakynningum um helgar.  Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki af hverju ég gafst ekki upp því fyrstu 3 árin voru alveg rosalega erfið,“ segir Gerður. 

Hvernig var Blush fjármagnað?

„Þegar maður hefur enga þekkingu á rekstri eða hvernig það er að stofna fyrirtæki þá eru margir veggir sem maður rekst á í upphafi og ein af þeim var að fjármagna fyrirtækið. Í sakleysi mínu hélt ég að þetta virkaði bara þannig að ég kaupi vörur sel þær og þá fæ ég meiri pening og get keypt meiri vörur og svona héldi þetta áfram. En það sem ég gleymdi að hugsa um var allt í kringum auglýsingar, heimasíðu, posa og aðra greiðsluleiðir, bókhald og já bara allt annað sem fylgir því að reka fyrirtæki og kostar peninga. Kostnaðurinn við það að reka og stofna fyrirtækið var því miklu meiri en það sem við vorum að skaffa fyrst til að byrja með sem gerði þetta svolítið flókið. Þegar ég byrjaði þá áttum við engan pening. Bókstaflega engan. 

Ég fór því til pabba með „viðskipta“ planið mitt og spurði hvort hann vildi aðstoða mig að láta þetta verða að veruleika. Ég man ennþá í dag hvernig mér leið að segja pabba frá því að dóttir hans sem var varla orðin kynþroska ætlaði að fara að selja kynlífstæki. Hann tók þó vel í hugmyndina og sagði að það væri margt heimskulegra en það að selja kynlífstæki, og þetta snérist ekki um hvað ég ætlaði að selja heldur hvernig ég ætlaði að selja það. Upphæðin var ekki há. 200.000 kr. sem ég lofaði að borga til baka á næstu mánuðum.“

Gerður var staðráðin í að gera hlutina öðruvísi en tíðkast hafði í þessum bransa á Íslandi. 

„Við bjóðum upp á fríar heimakynningar, sem var frábrugðið því sem var áður hér á landi. Einnig markaðssettum við fyrirtækið fyrir konur og einbeittum okkur að því að bjóða upp á kynlífsvörur en ekki klámvörur. Einnig fórum við í það að setja andlit við reksturinn og það var líka eitthvað sem hafði ekki verið gert áður. Við vildum sýna hverjir stæðu á bak við fyrirtækið, og það var held ég besta ákvörðun sem við höfum tekið.“

Aðspurð að því hvað hún haldi að hafi hjálpað fyrirtækinu að vaxa segir hún að það hafi án efa verið hvað hún var duglega að pota sér áfram.  

„Ég var alveg óþolandi til að byrja með að troða mér allstaðar að í fjölmiðla og fá vinkonur mínar til að halda heimakynningar. Ég held að það hafi hjálpað. Þetta var ekki þannig að við opnuðum fyrir bókanir á heimakynningum og allt varð fullbókað. 

Ég gleymi því aldrei þegar ég og Rakel fórum á okkar allra fyrstu heimakynningu. Við vorum svo spenntar, búnar að leggja rosa vinnu i að undirbúa okkur. Þegar við komum á kynninguna þá gekk allt eins og í sögu að okkur fannst, en enginn verslaði neitt. Það var því rosa skellur því við höfðum i raun ekki hugsað út í það að það gæti gerst að við værum búnar að standa í þessu öllu saman og svo myndi ekkert seljast. Við fórum því heim og krossuðum fingur að það mundi ganga betur næst. Það tók þó smá tíma að fá fólk til að fara að versla á heimakynningum og við þurftum líka að læra hvernig væri best að byggja upp kynningarnar okkar, en það kom svo fljótlega og í dag er það ekki vandamál.“ 

Hefur þig aldrei langað að hætta? 

„Nei ég hef ekki fundið fyrir því. Ég hef þó oft hugsað þegar að það gengur vel, vá hvað ég er glöð að ég gafst ekki upp. Um daginn fór ég til mömmu og pabba og þakkaði þeim fyrir að hafa ekki stoppað mig af þegar ég byrjaði að tala um að selja kynlífstæki. Ég held að það hefði ekki hvaða foreldri sem er tekið svona vel í þetta. Þau hlógu bara bæði og sögðu að þau hefðu lært það fyrir löngu að þau gætu ekki stoppað mig ef ég ætlaði mér eitthvað.“

Hvað hefur verið erfiðast?

„Í upphafi þótti mér erfiðast að fá fólk til að taka mig alvara, ég man til dæmis að þegar ég var að reyna að finna mér auglýsingastofu til að aðstoða mig við markaðssetningu og hönnun á logo-i, þá hringdi ég á milli staða og allstaðar þar sem ég hringdi var hlegið af mér. Enginn trúði því að ung stelpa væri að fara stofna kynlífstækja fyrirtæki. Fólk hélt í alvöru að það væri verið að gera símaat. 

Það kom þó að lokum að ég fékk fund með Pipar auglýsingarstofu og þeir Valgeir Magnússon og Sigurður Hlöðversson tóku vel á móti okkur. Valgeir hefur svo reynst mér ótrúlega vel og hjálpað okkur mikið. Í dag finnst mér erfiðast að eiga að vera yfir öðrum, að þurfa að stjórna starfsfólki. Ég er yngsti starfsmaðurinn i mínu eigin fyrirtæki, og hef enga reynslu af stjórnun í fyrri störfum, en ég er heppin að vera með starfsfólk sem er þolinmótt og ég hef fulla trú á því að þetta lærist eins og allt hitt sem ég hef tekist á við síðustu árin.“

Þegar ég spyr hana hvort hún hafi gott bakland þegar á móti blási segir hún svo vera. 

„Ég held að það sé alveg nauðsynlegt. Foreldrar mínir og kærastinn minn eru klárlega númer eitt. Foreldrar mínir mæta bæði nánast daglega í búðina til að kanna stöðuna og heilsa upp á stelpurnar sem eru að vinna, og hjálpa til. Pabbi er síðan svona eins og minn sálfræðingur þegar kemur að rekstrinum, maður þarf að hafa einhvern sem maður getur treyst og rætt við bæði þegar gengur vel og illa. Þegar allt er í volli þá peppar hann mig áfram og þegar gengur vel gleðst hann með mér. Ég er síðan ótrúlega heppin að nælt mér í kærasta sem er einmitt i sama geira og ég. Hann selur kynlífstæki í Evrópu og er algjör viskubrunnur þegar kemur að rekstri. Hann er búin að vera í þessu miklu lengur en ég og þekkir meira til, sem hefur hjálpað mér rosalega mikið. Við erum svo dugleg að skiptast á hugmyndum og hjálpa hvort öðru.“ 

Varstu aldrei hrædd um að verða fyrir fordómu að selja kynlífstæki? 

„Jú, mjög og ég hef heyrt allskonar síðustu 6 ár sem ég hefði líklega ekki fengið að heyra frá fólki ef ég væri að selja blómavasa eða eitthvað annað. En ég held að vinnan sem við hjá Blush höfum lagt í að létta á fordómum og opna umræðuna síðustu árin sé að skila sér rosalega mikið. Ég finn það líka að allt í einu eftir 6 ár eru til dæmis fjölskyldumeðlimir og vinir að átta sig á því hvað ég er búinn að byggja upp flott fyrirtæki. Það starfa 11 starfsmenn hjá Blush, við erum með litla búð, öfluga netverslun og heimakynningarnar okkar eru en þá gríðarlega vinsælar.“

Hvað hefðirðu gert öðruvísi ef þú værir að stofna fyrirtæki í dag ? 

„Ég hugsa að ég hefði reynt að fá einhverja fjárfesta til að hjálpa mér að koma fyrirtækinu hraðar af stað. Það er þó ekkert víst að það hefði gengið betur, en það sem var erfiðast var að vera með fullt af hugmyndum og langa að framkvæma allskonar fyrir fyrirtækið en hafa ekki tök á því af því það var ekki til fjármagn. En kosturinn við að hafa gert þetta svona frá núlli er líklega það að maður fer rosalega varlega og passar upp á hverja krónu og mér þykir alveg óendanlega vænt um fyrirtækið mitt. Þetta er bara eins og annað barnið manns.“

Hvar sérðu þig eftir 10 ár ? 

„Ég stefni á að halda áfram með Blush, en ég er þó nú þegar að reka 2 önnur fyrirtæki með Blush og hef átt alls 4 fyrirtæki svo ég hugsa að ég muni alltaf vera í einhverskonar viðskiptatengdu umhverfi. Það er það sem mér þykir gaman og það er það sem ég er góð í. Ég er alltaf að fá einhverjar nýjar hugmyndir svo það er aldrei að vita hvað ég tek upp á. Það er bara partur af því að vera frumkvöðull er að prófa sig áfram og þreifa fyrir sér hvað gæti virkað hér á landi.“

Gerður Huld Arinbjarnardóttir.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál