„Eitthvað í umhverfinu sem lokar á framgang kvenna“

Elín Helga Sveinbjörnsdóttir formaður SÍA.
Elín Helga Sveinbjörnsdóttir formaður SÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó að skammt sé til 40. afmælisdags SÍA, Samtaka íslenskra auglýsingastofa, þá gerðist það fyrst á liðnu hausti að kona tók að sér embætti formanns stjórnar SÍA. Elín Helga Sveinbjörnsdóttir hefur sannarlega ekki setið auðum höndum í embætti.

„Mér finnst bara dálítið gaman að vera sú fyrsta og er bara mjög stolt af því. Fljótlega í kjölfarið fannst mér ég verða að grípa tækifærið og vekja athygli á ójafnvæginu sem er til staðar milli kynjanna í auglýsingabransanum hérlendis,“ segir Elín Helga, en í febrúar skipulagði hún sameiginlegan fund SÍA og ÍMARK sem tók á umræddu kynjaójafnvægi í auglýsingagerð og markaðsmálum. Óhætt er að segja að það hafi ýmislegt athyglisvert komið á daginn, og það í geira atvinnulífsins sem margir telja eflaust góðan vettvang fyrir konur til að láta að sér kveða. Ekki reyndist það alveg svo. En fyrst er að taka upp léttara hjal.

Stemningin í bransanum góð

„Stemningin í bransanum er bara ágæt,“ segir Elín Helga þegar hún er innt eftir andrúmsloftinu í auglýsingageiranum, nú í uppsveiflunni. „Mér skilst að innsendingar í ÍMARK hafi ekki verið fleiri í fjöldamörg ár. Það er fullt að gerast og mikið í gangi, við finnum alveg fyrir því. Heilt yfir held ég að stemningin sé góð.“

Þar með er „léttara hjal“ afgreitt og við vindum okkur óðara í mál málanna.

Undirritaður býr að þeirri góðu reynslu að hafa starfað á auglýsingastofu fyrir nokkrum árum, stofu sem hafði nóg af fjölbreyttum og stórum verkefnum, töluverðan hóp starfsmanna og mikil umsvif almennt séð. Meðal starfsmanna var hópur aðsópsmikilla kvenna sem hikuðu ekki við að láta til sín taka og fyrir bragðið hvarflaði aldrei annað að mér en að konur væru almennt á góðum stað hvað starf sitt varðaði í auglýsingabransanum enda væru þær að minnsta kosti jafn skapandi og gaurarnir á stofunni. Ekki reynist nú staða mála alveg svo góð þegar Elín Helga kynnti niðurstöður könnunar sem hún lét vinna fyrir áðurnefndan sameiginlegan fund. Konur eru í miklum minnihluta þegar kemur að „kreatífum“ störfum á stofunum innan SÍA. Hvernig getur staðið á því? Elín Helga veltir þessu fyrir sér um stund.

Eitthvað í umverfinu hamlar

„Ég ætla svo sem ekki að gerast einhver dómari um þetta atriði en sumir hafa haldið því fram að það geti verið vinnuálag, yfirvinna og þess háttar, gömlu góðu „all-nighter“ vaktirnar. Mín tilfinning er sú að „all-nighterar“ séu ekki jafn algengir og þeir voru, þannig upplifi ég það allavega. Það er eitthvað í umhverfinu sem lokar á framgang kvenna. Hvað það er held ég að hver og einn verði svolítið að skoða hjá sér. Það var líka markmiðið með því að við fórum út í það að skipuleggja þennan fund um daginn, að hver og ein stofa fari í svolitla naflaskoðun og finni það út hvað það er í þeirra umhverfi sem má breyta svo konur eigi greiðari leið í hærri stöður.“

Því ofar, því færri konur

Elín Helga bætir því við að stöður grafískra hönnuða innan SÍA séu að 60% skipaðar körlum á móti 40% konum. Það er ekki alslæm staða út af fyrir sig en þegar ofar dregur innan stofanna dökknar myndin heldur.

„Hvað „art director“-stöður varðar, sem er næsta staða fyrir ofan, þá hefur heldur syrt í álinn með um það bil 70/30, körlum í vil. Þegar við erum svo farin að skoða stöðu „creative director“ sem er æðsta hönnunarstaðan, þá er hlutfallið orðið hátt í 80% körlum í vil. Þannig hefur það bara verið ógeðslega lengi; því ofar sem þú ferð í virðingarstiganum innan bransans þeim mun færri dömur eru í hverju þrepi.“

Elín Helga ítrekar þó að hún líti ekki á það sem sitt hlutverk að leggja til almenn viðmið eða reglur hvað þetta varðar, heldur verði hver og einn að skoða sín mál út af fyrir sig og taka svo vel valin skref í rétta átt í kjölfarið.

„Ég held hins vegar að slík skoðun og breytingar í kjölfarið yrðu öllum til framdráttar, bæði stofunum og að sjálfsögðu líka viðskiptavinunum að hlutföllin séu sem jöfnust í hópunum sem vinna fyrir viðskiptavinina. Það er líka svo sjálfsagt, einfaldlega af því markhópurinn þarna úti – neytendur – er jú skipaður konum og körlum.“

Máli sínu til stuðnings telur Elín Helga upp stórfyrirtæki sem hafa einfaldlega sett það sem kröfu á sínar auglýsingastofur að teymin að baki hugmynda- og útfærsluvinnunni séu skipuð konum til jafns við karla. Þar á meðal eru Hewlett-Packard, PepsiCo, AirBnB, Intel og fleiri.

Karllægur hugsunarháttur

Í framhaldi af umræðu okkar Elínar Helgu um að eitthvað í umhverfinu hamli að einhverju leyti framgöngu kvenna tekur hún skýrt fram að ekki sé þar meiningin með því að skella skuldinni alfarið á blessaða karlana – það sé öðru nær.

„Konur geta nefnilega verið alveg jafn fastar í þessum gamla hugsunarhætti og karlar, ef út í það er farið. Þetta er bara karllægur hugsunarháttur, en ekki bara karlar að hugsa. Við konur þurfum að vera jafn vakandi fyrir þessu og karlarnir því þessi hugsunarháttur hleypir konunum einfaldlega ekki að.“

En hvað skyldi hafa knúið Elínu Helgu til að taka slaginn hvað þetta atriði varðar? Rakst hún ef til vill á veggi í starfi sínu?

„Nei, í rauninni ekki. Ég var persónulega ekkert að pæla í þessu, þetta stoppaði mig aldrei neitt í því sem ég var að gera. Ég fann aldrei sérstaklega fyrir þessu karllæga umhverfi. Svo fór ég að veita þessu athygli nýlega og þá varð ekki aftur snúið; mér fannst ég verða að gera eitthvað, sérstaklega af því ég var komin í þessa stöðu. Ég gat ekki gert þetta sem starfsmaður á Hvíta húsinu, en komin í þetta hlutverk fannst mér ég einfaldlega knúin til að veita þessu athygli.“ Hún bætir því við að bæði hafi hana persónulega langað að sjá samræðu kvikna um þetta brýna mál, en ekki síður hafi henni runnið blóðið til skyldunnar stöðu sinnar vegna sem formaður stjórnar SÍA. „Þegar allt kemur til alls þá er það hlutverk SÍA að gæta hagsmuna aðildarfyrirtækjanna og efla faglega hæfni þeirra. Þessi umræða er bara hluti af því því málið er mjög mikilvægt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál