Heldur fyrirlestra um sjálfsfróun

Indíana Rós heldur fyrirlestra um sjálfsfróun.
Indíana Rós heldur fyrirlestra um sjálfsfróun. ljósmynd/Facebook

Indíana Rós Ægisdóttir hefur vakið athygli að undanförnu fyrir fyrirlestra um sjálfsfróun. Fyrirlestrarnir sem eru bæði fyrir foreldra og unglinga eru hressir og opinskáir. Hún leggur áherslu á að sjálfsfróun er eðlilegur hlutur sem fólk byrjar á að gera sem fóstur í maga móður.

Skrifaði lokaritgerð um sjálfsfróun kvenna

„Ég skrifaði lokaverkefnið mitt í sálfræði um sjálfsfróun kvenna. Þegar ég var að segja fólki frá verkefninu fór fólk að segja mér að það hefði aldrei fengið fræðslu um sjálfsfróun. Eftir á að hyggja hefði ég sjálf alveg viljað frá fræðslu um það sem allir eru að gera en enginn talar um,“ segir Indíana og bendir á að það sé mikilvægt að svara spurningum eins og af hverju fólk stundar sjálfsfróun og hversu algengt það er.

Eftir að Indíana kláraði ritgerðina hélt hún fyrirlestur hjá Hinu húsinu um sjálfsfróun og eftir það byrjaði boltinn að rúlla. Nú fer hún í félagsmiðstöðvar og talar við ungmenni en hún hefur einnig haldið fyrirlestur á vegum Fróðra foreldra.

„Ég nálgast þetta opinskátt og er hreinskilin og þó svo að það komi fliss og eitthvað fyndið þá bara tækla ég það og segi krökkunum sannleikann,“ segir Indíana, spurð hvernig það sé að halda fyrirlestur um sjálfróun fyrir unglinga. Fyrirlesturinn sem hún heldur fyrir foreldra er aðeins öðruvísi og snýr að hlutum eins og hvernig eigi að bregðast við og hvernig eigi að tala við börn um sjálfsfróun.

Stefnir á nám í kynfræði

Indíönu Rós hefur aldrei fundist það mikið mál að standa fyrir framan fólk og tala um sjálfsfróun. „Fjölskyldan mín er mjög opin og fræðslan sem ég fékk heima var mjög góð. Svo er ég ekki feimin að eðlisfari og hef til dæmis unnið við það að selja kynlífstæki sem auðveldar mér að tala um málefnið opinskátt.“

Viðtökurnar við fyrirlestrunum hafa verið ótrúlega góðar og hefur Indíana Rós fengið mörg skilaboð frá fólki þar sem það þakkar henni fyrir.  Fólk hefur lýst því fyrir henni að hafa kannski áður verið að segja við börnin sín „nei þetta er bannað“, eitthvað sem á alls ekki að segja að sögn Indíönu Rósar.

Það lítur út fyrir að Indíana Rós hafi fundið sína hillu í lífinu en næsta haust er hún á leið til Bandaríkjanna í mastersnám í kynfræði.

Fyrirlesturinn sem Indíana Rós hélt á vegum Fróðra foreldra má finna hér og þarf að spóla áfram á 1:28:00. Indíana heldur einnig út Facebook-síðu þar sem hægt er að fylgjast með næstu fyrirlestrum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál