Í hvað fara peningarnir þínir?

„Nýlega laukst upp fyrir mér nýtt lag af skilningi sem setti margt í annað samhengi en áður hafði verið. Mér finnst svo magnað að upplifa svona andartök. Næstum eins og þoku létti innra með manni,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching, í sínum nýjasta pistli: 

Í stuttu máli

Forsagan er sú að ég hafði tekið ákvarðanir sem ég var ósátt við. Þær ákvarðanir höfðu fjárhagslegar afleiðingar sem ég var enn ósáttari við en vandinn var sá að ég áttaði mig ekki á hvað var orsök og hvað afleiðing.

Ég var ósátt en ósætti mitt beindist að einhverju leyti gegn öðrum og ég hafði tilhneigingu til að skoða kringumstæður mínar frá sjónarhóli fórnarlambsins. Ég var með öðrum orðum ekki tilbúin til að taka ábyrgð á sjálfri mér.

Það er auðvitað aldrei valdeflandi staða.

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Það sem ég uppgötvaði

Þar sem ég hef atvinnu af því að greina hegðun fólks og þá sérstaklega peningahegðun, geri ég ef til vill meiri kröfur til sjálfar mín en fólk almennt. En ég er víst mannleg og þarna var ég slegin blindu á sjálfa mig.

Smám saman fór ég að gera mér grein fyrir því í hverju vandinn var fólginn. Það var misræmi á milli þess sem er mér í raun mikilvægast þegar kemur að peningum og þess sem birtist í raunveruleika mínum. Það er að segja – ég þurfti að endurskoða forgangsröðunina til að geta heiðrað kjarnagildið mitt þegar kemur að peningum. En hvernig fór ég að því?

 

Að taka stjórnina

Margir upplifa valdaleysi gagnvart peningum. Ein birtingarmynd þess er að upplifa að peningarnir fari bara í að borga reikninga eða til að standa straum af kostnaði ýmiss konar. Mjög margir eru í raun og veru lítt meðvitaðir um hvernig þessi kostnaður skiptist niður og hverjar sveiflurnar eru yfir árið.

Staðreyndin er sú að við tökum ákvarðanir um hvernig lífi við viljum lifa og þá umgjörð sem við viljum hafa. En upplifun okkar er þó ekki alltaf sú að við séum við stjórnvölinn og að daglegar ákvarðanir okkar stuðli oftar en ekki að því að viðhalda óbreyttu ástandi. Ef þetta á við um þig, gæti verið kominn tími til að stíga skref í átt til breytinga.

Ákvarðanir og peningar

Ef þú upplifir að líf þitt sé samsett úr tilviljanakenndum bútum og að peningarnir þínir fari í að borga kostnað sem þú hefur ekki sett í forgang, þá er kominn tími til að staldra við og taka stöðuna.

Ágætisleið til að gera það er að skoða lífshlaup okkar og ákvarðanatöku með peningagleraugunum. En hvernig er það gert?

Líttu yfir farinn veg og skoðaðu stóru ákvarðanirnar í lífi þínu. Hver hefur forgangsröðunin verið?

  • Gekkstu menntaveginn?
  • Tókstu námslán?
  • Áttu húsnæði?
  • Ertu með neysluskuldir? Ef svo er, hvað gerðirðu við þá peninga?
  • Ferðastu mikið?
  • Fjárfestirðu í listaverkum?
  • Kaupirðu hönnunarvöru?
  • Fjárfestirðu í verðbréfum?
  • Borðarðu lífrænan mat?
  • Drekkurðu áfengi?
  • Stundarðu líkamsrækt?
  • Ferðu á kaffihús?
  • Gefurðu til góðgerðarmála?
  • Borðarðu gjarnan á veitingastöðum?
  • Styrkirðu börnin þín eða aðra fjárhagslega?
  • Annað?

Skoðaðu neyslumunstrið

Taktu þér tíma til að skoða í hvað peningarnir þínir hafa farið síðastliðna sex mánuði. Þegar uppgjörið liggur fyrir, spurðu þig þá hvort útgjöldin séu til samræmis við peningagildin þín. Með öðrum orðum, fara peningarnir í það sem skiptir þig virkilega máli?

Mundu að við eigum það til að vera „fangar“ munstursins sem við höfum búið við. En ef þú ætlar að taka stjórnina í peningamálunum, þarftu að skipta um hugarfar. Ekki hika við að hafa samband ef þig vantar hjálp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál