Húmorinn drífur mig áfram

Steiney Skúladóttir stýrir þættinum Framapot á RÚV.
Steiney Skúladóttir stýrir þættinum Framapot á RÚV. Ljósmynd/Móa Hjartardóttir

Steiney Skúladóttir er að slá í gegn á RÚV með þáttunum Framapot sem hún stýrir með Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur. Þær gera þó fleira en að gera sjónvarpsþætti því þær eru liðsmenn í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur. Ég spurði hana spjörunum úr. 

Hvernig kviknaði hugmyndin að Framapoti?

„Við vorum báðar mjög týndar í lífinu að gera eitthvað sem við höfðum ekki áhuga á. Það er alltaf sagt við mann að maður geti orðið allt sem mann langar en valið er svo gígantískt mikið að okkur féllust hendur. Við höfðum ekki hugmynd um hvar við ættum að byrja né hvar við myndum enda,“ segir Steiney. 

Hvernig unnuð þið þættina?

„Við komum með hugmyndina til Sagafilm sem greip hana strax og kynnti okkur fyrir Arnóri Pálma leikstjóra. Hann er algjört gull og við þrjú klikkuðum alveg strax. En ferlið var langt. Fyrsti fundurinn okkar með Sagafilm var í apríl 2014 en samþykki frá RÚV kom ekki fyrr en í júní 2016. Þá fyrst gátum við byrjað að skrifa allt sem hafði gerjast í hausnum á okkur í þá tvö og hálft ár í ágúst 2016. Tökur voru svo í október 2016.“

Nú kemur það fram í þættinum að þið vinkonurnar séuð að reyna að finna út úr því hvað þið viljið verða þegar þið verðið stórar. Ertu komin að einhverri niðurstöðu?

„Já og nei. Við erum búnar að komast að rosalega mörgu með gerð þáttanna og eitt af því er að það er ekki einhver ein niðurstaða. Það er í rauninni enginn með lífið sitt á hreinu og það eina sem maður getur gert er að fylgja hjartanu.“

Nú eru mörg ungmenni peningadrifin og fara þess vegna í lögfræði eða viðskiptafræði. Ert þú peningadrifin?

„Ég myndi ekki segja það nei. Mér finnst samt mjög þægilegt þegar ég á pening en mér finnst skipta meira máli að vinna við það sem ég hef áhuga á frekar en að fá mikið borgað fyrir það því maður eyðir mestum tíma vikunnar í vinnunni.“ 

Steiney Skúladóttir og Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir stýra þættinum Framapot. Þær …
Steiney Skúladóttir og Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir stýra þættinum Framapot. Þær eru saman í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur.

Hvað finnst þér skipta máli í lífinu?

„Vá stórt er spurt. Að elska sjálfan sig, rækta vini sína, finna jafnvægi á milli þess að vinna og kunna að vera í fríi líka. Ég er stöðugt að minna sjálfa mig á þessa dagana að lífið er stutt og ég á að gera allt sem mér þykir skemmtilegt.“

Í fyrsta þættinum fenguð þið foreldra ykkar í settið. Voru þau strax til í þetta? Vissu þau um hvað þau yrðu spurð?

„Stutta svarið er nei, þau vissu ekkert. Við gáfum þeim ekki val heldur boðuðum þau bara í viðtal og þau vissu ekkert hvernig það yrði. Við töluðum varla við þau þegar þau mættu í stúdíóið fyrr en við byrjuðum að taka upp. Þetta er að vísu mun vandræðalegra í þættinum heldur en það var í raun og veru. Úlfur klippari fer á kostum að láta vandræðalegar þagnir lifa.“

Sigríður Klingenberg og Steiney Skúladóttir.
Sigríður Klingenberg og Steiney Skúladóttir.

Nú virðist þú vera mjög opin og getur sagt allt sem þér dettur í hug. Hefur þú alltaf verið þannig eða hefur þú þurft að þjálfa þetta upp?

„Að vissu leyti hef ég alltaf verið þannig en þetta er ákveðinn gír sem ég set mig í. Ég á líka annan gír þar sem ég er mjög zenuð og róleg, fjölskyldan upplifir það meira.“ 

Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Fyrsta sem kom upp í hugann var húmor. Ætli hann haldi ekki í mér lífinu. Ég er alla vega búin að koma mér í þannig aðstæður núna að vera stöðugt í kringum húmor.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?

„Mér finnst mjög gaman að ferðast, leikhús var hluti af uppeldinu og það er best í heimi að sjá góðar leiksýningar (og verst í heimi að sjá lélegar), náttúran kallar stundum á mig og þá er gott að fara á skíði eða kíkja á foss. Svo er þessi dagskrárgerð, spuninn með Improv Ísland og að fá að umgangast Reykjavíkurdætur það skemmtilegasta sem ég veit og ég trúi því stundum ekki að ég sé að fá að gera það.“ 

Hvernig sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Vó ég veit ekki einu sinni hvar ég verð í september. Ætla að segja að ég verði enn að sýna Reykjavíkurdætrasýninguna sem við frumsýnum í maí í Borgarleikhúsinu. Hún verður svo mega mikið success!“

Steiney Skúladóttir ásamt móður sinni Halldóru Geirharðsdóttur.
Steiney Skúladóttir ásamt móður sinni Halldóru Geirharðsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál