Betra ef bæði konur og karlar taka þátt í að móta framtíðina

Hjördís Hugrún býr og starfar í Sviss.
Hjördís Hugrún býr og starfar í Sviss. Ljósmynd úr einkasafni

Hjördís Hugrún Sigurðardóttir, iðnaðarverkfræðingur og formaður Stuðverks, starfar hjá tæknifyrirtækinu ABB í Zürich, en hún er verkefnastjóri í umbreytingarverkefnum. Hún segir að áhuginn á verkfræði hafi kviknað þegar hún var ung að árum, en faðir hennar er einnig menntaður iðnaðarverkfræðingur.

Hvers vegna ákvaðst þú að leggja stund á verkfræði?

„Faðir minn, Sigurður Þór Ásgeirsson, er iðnaðarverkfræðingur og ég held að ég hafi verið átta ára þegar ég var ákveðin í því að mig langaði að læra iðnaðarverkfræði. Mér fannst hann vera í spennandi vinnu, en hann var alltaf að smíða og mjög framkvæmdaglaður bæði heima og í sveitinni. Hann dró fram skrifblokkina sína, teiknaði og reiknaði og næst var skófla og járnkallinn kominn á loft og við byrjuð að grafa holur fyrir undirstöðurnar fyrir sumarbústaðinn. Ég hafði ótrúlega gaman af því að fá að hjálpa og langaði að kunna allt sem pabbi gat. Ég komst nú seinna að því að maður lærir það ekki allt saman í iðnaðarverkfræði, en hún er ótrúlega góður grunnur. Verkfræðin kennir öguð vinnubrögð og aðferðafræði við að leysa verkefni og ég er mjög þakklát 19 ára Hjördísi Hugrúnu fyrir að hafa valið að fara í þetta nám.“

Hvernig kom til að Stuðverk var stofnað og hvert er hlutverk félagsins?

„Stuttu eftir að við lukum B.Sc.-gráðunni tókum ég og nokkrar stelpur sem höfðum verið í stjórn nemendafélagsins á sínum tíma okkur saman og héldum skemmtikvöldi verkfræðikvenna. Rúmlega sjötíu verkfræðistelpur á öllum aldri mættu, en það er dýrmætt að geta hist í afslöppuðu umhverfi. Kvöldið var svo skemmtilegt, hvetjandi og áhrifaríkt að við ákváðum í kjölfarið að stofna Stuðverk: skemmtifélag verkfræðikvenna. Fjörið er ávallt í fyrirrúmi og markmið félagsins er að veita innblástur til góðra verka, efla samstöðu og samstarf kvenna í verkfræði og láta gott af sér leiða.“

Er mikilvægt að konur séu sýnilegar í verkfræði og tengdum greinum?

„Já það er gríðarlega mikilvægt. Það var ein helsta ástæða þess að ég fékk móður mína, Ólöfu Rún Skúladóttur fjölmiðlakonu, Jónatan Arnar Örlygsson meistara með meiru og Evu Lind Gígju ljósmyndara með mér í lið og við skrifuðum og gáfum út bókina Tækifærin, þar sem finna má viðtöl og frábærar myndir af 50 íslenskum konum sem sinna áhugaverðum störfum á sviði verkfræði, tækni og vísinda, á Íslandi, víða í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir Hjördís Hugrún.

„Fyrirmyndir eru alltaf mikilvægar, bæði fyrir stráka og stelpur. Við tengjum almennt betur ef við getum samsamað okkur viðkomandi, og þar er kyn einn þáttur. Svo ég held að fyrir stelpur sé mikilvægt að sjá konur í verkfræði og tengdum greinum. Ef hún getur þetta, þá get ég það líka,“ bætir hún við.

„Ef við lítum á brautskráningar frá verkfræðideildum og tölvunarfræðideild HÍ frá því í fyrra voru tæp 23% brautskráðra nemenda úr grunnnámi stelpur og til dæmis í rafmagnsverkfræðinni voru þær 7%. Við erum í miðri tæknibyltingu og ég held það sé betra fyrir alla ef bæði konur og karlar taki þátt í að móta framtíðina. Að fleiri stelpur hafi grunn í tæknigreinum væri góð byrjun og ég held að það sé ákveðið þekkingargap sem hefur þarna áhrif. Þú þarft að velja hvort þú ferð á málabraut eða raunvísindabraut 15 ára, og ég er ekki viss um að ég hefði valið verkfræði ef pabbi væri ekki verkfræðingur. Þetta þyrfti að kynna betur strax á grunnskólaaldri, þessi fög eru ekki svo sýnileg. Seinna meir fannst mér rafmagnsverkfræði til dæmis mjög áhugaverð, en á sínum tíma hefði aldrei hvarflað að mér að velja hana. Ég vissi ekkert hvað rafmagnsverkfæði var og gat ekki séð það fyrir mér,“ segir Hjördís Hugrún.

„Mér fannst líka vanta upplýsingar um hvað væri hægt að gera að loknu námi. Ég hafði mikið velt fyrir mér hvernig fólk kæmist í spennandi stöður, og hafði á tímabili í mínu lífi sent út óteljandi umsóknir en ekkert svar fengið til baka. Ég hélt því að til að fá spennandi starf þyrfti að vera ofurmanneskja, og taldi að þetta hefði bara verið bein leið á toppinn hjá öllum hinum. Svo skildi ég ekkert af hverju þetta gekk ekki hjá mér. Seinna meir áttaði ég mig á því að þetta er nú ekki tilfellið, en það er mjög hvetjandi að heyra að þó að það hafi ekki alltaf allt gengið upp geti fólk á endanum fundið sína leið.“

Hvernig kom það til að þú sóttist eftir núverandi starfi og hvað gefur vinnan þér?

„Ég var áður að vinna í breytingaverkefni í vörustjórnun (e. logistics) hjá ABB en fannst áhugaverðara að fá að vinna að ólíkum umbreytingaverkefnum, eins og að vinna með vöru allt frá hönnun og koma henni á markað. Vöru sem hefur virkileg áhrif á líf fólks, það finnst mér afar spennandi og gefandi ferli. Vinnan gefur mér svo margt á hinum ýmsu sviðum, ég er stöðugt að læra og þróa mig áfram. Ég á skemmtileg samskipti við áhugavert fólk, stemmningin er oftast létt og ég hef til dæmis nokkrum sinnum grenjað úr hlátri í vinnunni síðasta árið. Vinnan gefur mér faglegar áskoranir sem gaman er að glíma við. Til dæmis sótti ég nýlega krefjandi fundi í Hollandi, þar sem 14 einstaklingar af 10 þjóðernum voru saman komnir og ég var eina konan. Slíkar aðstæður krefjast bæði faglegrar einbeitingar og samskiptafærni ef vel á að vera. Maður þarf að vera á tánum og það er mjög gaman þegar vel tekst til. Vinnan gefur mér einnig sjálfstæði.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar í stjórnunar- og ábyrgðarstöður en karlmenn?

„Satt að segja held ég það sé mjög misjafnt eftir fyrirtækjum og stofnunum hverjar áherslurnar eru, hvernig fyrirtækjamenningin er og hvaða stemmning er ríkjandi. En staðan kom mér alla vega á óvart þegar við vorum að finna viðmælendur fyrir bókina okkar. Ég skoðaði öll helstu fyrirtæki og stofnanir á Íslandi og leitaði að konu með tæknimenntun í framkvæmdastjórn. Ég vissi af þessum helstu, sem höfðu verið reglulega sýnilegar í fjölmiðlum, Rannveigu Rist og Ragnhildi Geirs, en hélt ég myndi finna mun fleiri. En það kom eiginlega í ljós að ef það var bara ein kona í framkvæmdastjórn þá voru yfirgnæfandi líkur á að hún væri mannauðsstjórinn. Þetta er eitthvað að breytast, en það er 2017 og síðastliðin átta ár hefur Ísland verið efst á lista í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins varðandi hvar mestur jöfnuður er í heiminum. Ísland best í heimi. Það er þess virði að staldra aðeins við og velta þessari staðreynd fyrir sér. Ísland er algjörlega til fyrirmyndar, en ég held við getum þó enn þá bætt okkur.“

Hjördís hefur gaman af því að hreyfa sig, en í …
Hjördís hefur gaman af því að hreyfa sig, en í fyrra hljóp hún hálft maraþon í Ölpunum. Ljósmynd / úr einkasafni

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Fjölmargar. Satt að segja held ég að ég sé meðvitað og ómeðvitað stöðugt að grípa hegðun og eiginleika sem mér þykja til fyrirmyndar í fari annarra og reyna að tileinka mér. Mamma mín og Brynja frænka eru miklir meistarar. Svo er Eva Lind Gígja vinkona mín alveg einstök fyrirmynd, hvernig ein manneskja getur geislað svona af hreysti, heilbrigði og dreift ljósi og gleði hvert sem hún fer er með ólíkindum. En hún fær mann til að trúa á sjálfan sig þegar maður gleymir því aðeins, sem er mjög aðdáunarvert. Sheryl Sandeberg er líka mjög flott fyrirmynd og mér finnst nýjasta bókin hennar áhugaverð lesning. Ég er því miður ekki svo heppin að þekkja hana persónulega.“

Ertu með hugmynd um hvernig má útrýma launamun kynjanna?

„Ég tel að tvennt skipti sköpum varðandi launamun kynjanna. Það er aðgengi að upplýsingum til að undirbúa sig fyrir samningaviðræður, að vita hvaða laun eru í boði fyrir sambærilegt starf, en þar koma kjarakannanir líkt og VFÍ stendur fyrir árlega mjög sterkar inn. Í öðru lagi vil ég nefna jafnrétti heima fyrir. Það skiptir til dæmis máli hvort báðir foreldrar hafi sömu tækifæri til að taka fæðingarorlof, það er að segja hvernig lagaramminn í landinu er. Einnig skiptir máli hvort rétturinn er nýttur og yfir höfuð hver verkaskiptingin heima fyrir er.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég skipulegg daginn í kringum fundi hvers dags, en annars er ég nokkuð óskipulögð og þrífst held ég best í ákveðinni óreiðu. Það gefur mér þó einnig færi á að bregðast skjótt við og sjá hvernig dagurinn þróast. Ef það er sól og gott veður og ég sé að ég næ að fara heim klukkan fimm, njóta sólarinnar, hitta vini mína og ná sundspretti í ánni, og vinna svo meira um kvöldið, er ég alveg vís til þess að gera það. Sem veitir mér ákveðna frelsistilfinningu.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Almennt er ég mjög lítið fyrir rútínu, stundum fæ ég mér morgunmat heima, stundum kaupi ég mér croissant á leiðinni í lestina, stundum hjóla ég eða fer á línuskautum í vinnuna og gríp eitthvað þar. Allt fer þetta eftir stuði og stemmningu og vinnudagskrá hvers dags. En eitt er þó víst, það eru alltaf tveir til þrír góðir kaffibollar innifaldir.“

Nærðu að vinna átta klukkustunda vinnudag, eða teygist hann stundum fram á kvöld?

„Það er mjög misjafnt, en ég held að það séu nánast aldrei bara átta klukkustundir. Þegar ég er á ferðalagi vegna vinnunnar er það meira og minna allur dagurinn sem fer í vinnuna, en að loknum fundarhöldum er yfirleitt farið beint út að borða með öllum hópnum og maður er áfram í hálfgerðu vinnuhlutverki. Ég gef mér þó alltaf tíma til að fara þá að hlaupa eða í hótelræktina fyrir vinnu.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig og, ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við?

„Já algjörlega, en ég held ég sé að verða miklu betri varðandi þetta. Áður fyrr tók ég lífinu kannski stundum aðeins of alvarlega, eins og þegar ég kom heim úr skiptináminu í Alaska og var svo æst í að komast í háskóla með mínum árgangi að ég fékk undanþágu til að taka síðustu tvö árin á einu ári í MR. Mér finnst mjög gaman að geta afrekað miklu og komið hugmyndum mínum í framkvæmd, en legg meiri áherslu núna á að muna að njóta og vera meðvituð um það sem virkilega skiptir máli í lífinu. Öðru hvoru koma þó upp aðstæður þar sem ég ofkeyri mig og pressan í vinnunni getur verið gríðarleg, en þá finnst mér ótrúlega gott að gefa mér tíma fyrir hreyfingu. Helst eitthvað sem tæmir algjörlega hugann, eins og að spila fótbolta eða fara út á vatn á róðrarbretti, eða synda. Að núllstilla sig einhvern veginn. Einnig er mikilvægt að slaka aðeins á og hugsa hvað er það versta sem getur gerst? Þótt ég telji starfið mitt vera mikilvægt er ég ekki að fara að bjarga heiminum þótt ég myndi strax í dag leysa öll mín verkefni með glæsibrag. Alla vega ekki enn þá. Svo þá er gott að forgangsraða verkefnum rétt, passa að taka sér frítíma, njóta með fólkinu sínu og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég hef mjög gaman af nánast allri hreyfingu og útivist og góðum félagsskap. Og mér finnst langskemmtilegast þegar ég næ að blanda þessu tvennu saman. Góð samtöl og samvera með uppáhaldsfólkinu mínu er líka best. Ég hef einnig gaman af því að ögra sjálfri mér. Til dæmis prófaði ég nýlega að hlaupa hálft maraþon í Ölpunum, sem var nett galið en mjög skemmtilegt. Ég var í handbolta og fótbolta þegar ég var yngri og hélt ég væri ekki týpan sem gæti lært dans, en ég fór á salsa dansnámskeið um daginn og það væri æðislegt. Síðan er alltaf jafngaman að ferðast, læra og prófa eitthvað nýtt.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Ýmislegt! En þar ber helst að nefna ferð á gríska eyju með grískum vinkonum mínum úr meistaranáminu hér í Zürich, frí til Íslands þar sem mig langar að komast á hestbak og eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum og undir lok sumars hitti ég æskuvinkonurnar í síðbúinni þrítugsferð í Barcelona. Svo dreymir mig um að eignast standandi róðrarbretti og róa út á Zürich-vatni og fylgjast með sólarupprásinni. Draumar eru til þess að láta þá rætast svo ég bind miklar vonir við að mér takist þetta í sumar.“

Hjördís Hugrún segir mikilvægt að njóta sín og taka lífið …
Hjördís Hugrún segir mikilvægt að njóta sín og taka lífið ekki of alvarlega. Ljósmynd í einkaeigu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál