Sjálfstraustið kemur konum langt

Ósk Heiða Sveinsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.
Ósk Heiða Sveinsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ósk Heiða Sveinsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar, segir að það skipti öllu máli að vera á tánum alla daga. Hún játar að starfsumhverfið taki stöðugum breytingum. Hún segir að sjálfstraust skipti mjög miklu máli ef konur ætli að ná langt á vinnumarkaði. 

Hvernig er að vera markaðsstjóri Krónunnar?

„Það er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Það er eitthvað nýtt á hverjum degi, hraðinn í þessum bransa er svo mikill að þú þarft að vera á tánum á hverjum degi. Starfið býður því upp á mikil tækifæri fyrir markaðsmanneskju og ég hef gaman af því að þurfa stundum að hoppa í djúpu laugina og láta virkilega reyna á menntun mína og reynslu. Að vera í starfi þar sem ég get komið  hlutunum hratt í framkvæmd og unnið að verkefnum sem geta haft áhrift til góðs finnst mér frábært. Þegar þú ert í starfi sem styður við þína ástríðu og eldmóð, þá gerast hlutirnir.

Í fyrirtækinu er mikill metnaður og mér er sýnt mikið traust. Það lýsir sér kannski best með því að þegar ég svo hóf störf fékk ég að heyra: „Við réðum þig ekki til að segja þér hvað þú átt að gera, þú átt að segja okkur hvað við eigum að gera“.“

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Festir hafði samband við mig af fyrra bragði og ég spurð hvort ég hefði áhuga á að kynna mér þetta starfstækifæri. Ég vissi ekki alveg á hverju ég átti von þegar ég mætti, en eftir fyrsta viðtal vissi ég að þetta væri eitthvað fyrir mig og ég kom út með hausinn fullan af hugmyndum að verkefnum fyrir Krónuna. Hraðinn er mikill, metnaðurinn enn meiri og tækifærin endalaus.“

Hvað varstu að gera áður?

„Ég var áður markaðsstjóri Íslandshótela.“

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Nóg af sjálfstrausti og trú á því sem þú kannt, veist og getur látið til þín taka. Ekki láta tala þig niður og ef þú hefur eitthvað til málana að leggja, tjáðu þig. Stundum þarf að hrista upp í hlutunum, en það er líka oft eina leiðin til að árangur náist. Síðast en ekki síst, þá verður þú að sækjast eftir því sem þú vilt.“

Hvernig var þinn ferill? 

„Fyrsta starf eftir mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði var hjá Ax hugbúnaðarhúsi, þar sem ég var ráðin inn sem viðskiptastjóri TOK. Í viðtalinu fyrir starfið þá var ég viss um að röng manneskja hefði verið kölluð inn í viðtal því ég kunni ekkert á hugbúnað eða bókhald þannig að ég var pollróleg í viðtalinu og ákvað bara að líta á þetta sem reynslu í því að fara í starfsviðtal. Eftir að mér var boðið starfið spurði ég framkvæmdarstjórann af hverju hún hefði eiginlega ráðið mig, nýkomna úr skóla og reynslulausa í bransanum. Svarið sem hún gaf mér var að fyrst ég hefði svona mikið sjálfstraust, gæti selt mig svona vel í viðtalinu miðað við reynsluleysi, þá gæti ég selt allt.

Ax hugbúnaðarhús sameinaðist Hug og úr varð HugurAx. Ég tók skömmu síðar við sem markaðsstjóri HugarAx og sinnti því starfi fram til þess tíma er HugurAx varð hluti af Advania. Ég lærði mjög margt hjá HugAx sem ég bý að enn þann dag í dag og hafði mikil áhrif á minn leiðtogastíl. Ég var heppin að hefja minn starfsferil hjá þessu fyrirtæki og ég lærði heilmikið. Frá Advania fór ég til Íslandshótela og starfaði sem markaðsstjóri, en ég hafði alltaf haft draum um að starfa innan hótelbransans og fundist allt sem sneri að hótelstjórnun mjög spennandi. Þannig að ég bý svo vel að búa að fjölbreyttri reynslu úr þrem mismunandi brönsum, hugbúnaðar-, hótel- og í dag smásölubransanum.“

Fannst þér þú uppskera það á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Ég hef uppskorið reglulega á mínum starfsferli og þegar einu markmiði er náð þá set ég nýtt.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Ég hef mikla ástríðu fyrir því sem ég er að gera og þetta eru spennandi tímar í smásölu. Í kringum mig hefur raðast frábær blanda af hæfileikaríku fólki, samstarfið er gott og ég læri eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Smásölumarkaðurinn er líka að taka það miklum breytingum að tækifærin eru endalaus. Það skiptir mig líka miklu máli að þau verkefni sem ég sinni geti haft áhrift til góðs, það eru þau verkefni sem skilja mest eftir sig.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig og, ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Ég hef lent í því að ganga ansi langt á sjálfa mig. Það er staða sem mikilvægt er að passa upp á að lenda ekki í. Þú verður að ná að viðhalda ástríðunni og kraftinum sem býr í þér án þess að tæma þig og ganga á alla orkuna. Sem betur fer áttaði ég mig á því sem var að gerast og endurskipulagði mig og áherslur mínar. Jafnvægi milli starfs og einkalífs skiptir öllu máli til að geta notið og sinnt öllum hlutverkum vel.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Ég hef á mínum ferli rekið mig á það að stundum gilda aðrar leikreglur fyrir konur en karla. Það er ekki í lagi en sem betur fer eru hlutirnir að breytast og það er öllum til góðs.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Í kringum mig eru frábærar konur sem eru góðar fyr­ir­mynd­ir og hafa hvatt mig áfram og gefið mér góð ráð og stuðning, bæði í vinnu og einka­lífi. Ég á kven­fyr­ir­mynd­ir víða.

Það er gríðarlega mikilvægt að fyrir ungt fólk að hafa fjölbreyttar fyrirmyndir af báðum kynjum. Við þurfum á fjölbreytileika að halda, þannig verður samfélagið betra og sterkara. Við verðum að nýta allan mannauðinn.“

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Það sem kemur fyrst upp í hugann er tengsl við fæðingarorlof og jafnvægi á milli vinnustaðar og einkalífs með jafnri þátttöku beggja kynja. Að foreldrum sé gert kleift og gert auðvelt að fara í og njóta fæðingarorlofsins og einnig hvernig er tekið á móti þeim þegar komið er til baka úr fæðingarorlofi. Það er því miður ekki alltaf staðið rétt og nógu vel að því.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Það eru alltaf ákveðin verkefni sem þarf að sinna og maður raðar deginum í kringum dagatalið. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að hafa lausan tíma fyrir þetta óvænta. Lífið í markaðsdeildum er þannig að það verður að vera tími fyrir smá hasar og breytingar, þessi óvæntu tækifæri og hugmyndir sem koma upp. Galdurinn er að dagurinn innihaldi rétta blöndu af þeim verkefnum sem hafa sem mest áhrif og skipta mestu máli en gera ráð fyrir tækifærunum sem nauðsynlegt er að grípa þegar unnið er með metnaðarfullu og hugmyndaríku fólki.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Vekja og koma börnunum í leikskólann. Fyrsti kaffibollinn er drukkinn í vinnunni, hann skiptir öllu máli.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Nei, dagurinn er oft lengri en átta tímar. Leikreglurnar hafa bara breyst með aukinni notkun samfélagasmiða, meiri hraða og sveigjanlegs vinnutíma á markaði. Ég legg mikla áherslu á að nýta vinnuvikuna sem best og á dagvinnutíma sé dagurinn þéttur og afkastamikill til þess einmitt að geta notið frítímans með fjölskyldunni og halda þar með fókus á þeim stað sem ég er stödd.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Það allra skemmtilegasta sem ég geri er að ferðast en svo bý ég svo vel að eiga mjög fjöruga fjölskyldu og vini sem passa upp á það að það sé gaman. En af því að vikan er alltaf þéttbókuð og mjög mikið að gera, þá reyni ég að hafa frístundir eins lítið skipulagðar og hægt er. Það er mjög gott að vakna um helgar með ekkert planað og láta daginn bara ráðast.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Ég ætla að ferðast eins mikið og ég get, leika við börnin mín, borða góðan mat, fara í sem flestar sundlaugar á landinu og lesa alveg heilan helling af bókum og tímaritum. Fyrst og fremst ætla ég þó bara að anda og slappa af, það er viss kúnst sem ég þarf að verða betri í.“

Ósk Heiða Sveinsdóttir segir að vinnudagarnir geti verið langir.
Ósk Heiða Sveinsdóttir segir að vinnudagarnir geti verið langir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál