Hefur þurft að minna sig á að slaka á

Rakel Dögg Bragadóttir er fjármálstjóri Tjarnargötunnar.
Rakel Dögg Bragadóttir er fjármálstjóri Tjarnargötunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rakel Dögg Bragadóttir er fjármálstjóri framleiðslufyrirtækisins Tjarnagötunnar en margir þekkja hana ef til vill af handboltavellinum en hún sneri nýlega aftur í Stjörnubúninginn eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg. Rakel Dögg virðist vera með fleiri klukkutíma í sólarhringnum en margir aðrir en gott skipulag kemur henni í gegnum vikuna. 

Hvernig er að vera fjármálastjóri Tjarnargötunnar?

Það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi að vera fjármálastjóri Tjarnargötunnar. Vinnustaðurinn samanstendur af 13 strákum og mér og er meðalaldurinn rétt um 30 ár. Við fengum svo stúlku í sumarstarf svo það jafnar örlítið kynjahlutfallið en mætti þó vera miklu jafnara. Það væri gaman að sjá fleiri stúlkur í þessum bransa.

Það er yfirleitt líf og fjör á Tjarnargötunni og ræður léttleikinn för. Við vinnum í skapandi bransa og það er ótrúlega gaman að vera í kringum það umhverfi og sjá ótrúlegustu hugmyndir verða að veruleika. Þegar hugmyndaflæðið og sköpunargleðin fer svo á algjört flug hjá strákunum er það mitt hlutverk að toga aðeins í bandið svo það verði engin brotlending. Það getur verið krefjandi en þó skemmtilegt því það er fín lína á milli þess að eyðileggja snilldina við hugmyndina eða gera hana aðeins raunhæfari. Við viljum auðvitað alltaf vera að þrýsta okkur út fyrir mörkin, prófa eitthvað nýtt og skapa góða upplifun.

Hvernig hefur þinn fer­ill verið?

Ég fór til Danmerkur árið 2008 til að spila handbolta. Þá var ég byrjuð í BS-náminu mínu í hagfræði. Ég tók mér pásu meðan ég var að venjast aðstæðum og koma undir mig fótunum í nýju landi. Ég skipti svo um lið og flutti til Noregs ári síðar og byrjaði fljótlega aftur í náminu. Mér fannst mikilvægt að ná að klára námið meðan ég var úti svo þegar ég flutti heim árið 2012 gat ég farið beint á vinnumarkaðinn. Ég hóf þá störf hjá Félagi atvinnurekenda um sumarið. Þar fékk ég gríðarlega mikla og góða reynslu á góðum vinnustað. Ári síðar var ég komin með löngun í að mennta mig frekar. Þá hóf ég meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Á þessum tíma var ég einnig á fullu í handboltanum með Stjörnunni. Ég lenti svo í því að fá höfuðhögg sem hafði þau áhrif að ég þurfti að stoppa handboltaferilinn og minnka við mig í námi. Ég var í hlutastarfi hjá Tjarnargötunni meðan ég var að jafna mig og kláraði námskeiðin í Háskólanum. Þegar kom að því að skrifa ritgerðina fór ég í fæðingarorlof og bauðst nýtt starf hjá Tjarnargötunni. Ég hef verið starfandi í eitt ár, komin með góð tök á því og hef skráð mig í háskólann í haust til að klára ritgerðina.

Hvernig er fyrir íþróttakonu eins og þig að vinna skrifstofuvinnu?

Ég myndi segja að það henti rosalega vel. Stundum getur verið erfitt að sitja við skrifborðið í heilan dag en ég hoppa reglulega út í hádeginu og skelli mér jafnvel í ræktina þar sem ég reyni að æfa aukalega fyrir handboltann. Það gerir rosalega mikið fyrir mig og finnst mér ég alveg full orku þegar ég næ að fara á stutta æfingu. Ég hef líka oft þakkað fyrir að geta setið við borð í ró og næði daginn eftir erfiða leiki þegar maður er úrvinda af þreytu.

Rakel Dögg Bragadóttir hafði nóg að gera í vetur þegar …
Rakel Dögg Bragadóttir hafði nóg að gera í vetur þegar hún reimaði aftur á sig handboltaskóna. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þú snerir aftur í handboltann, hvernig gekk að samtvinna starfið, íþróttaferilinn og fjölskylduna?

Það gekk mjög vel í vetur en eingöngu vegna þess að ég er með ótrúlega gott fólk í kringum mig sem studdi mig og hjálpaði til þegar ég þurfti á því að halda. Þetta reyndi vissulega mikið á, ekki síst hugann. Það þarf mikið skipulag og skilvirkni til að láta þetta ganga og vera sáttur á öllum vígstöðum. Því ég er þannig að ef ég tek eitthvað að mér vil ég gera það eins vel og ég mögulega get og þess vegna finnst mér mikilvægt að maður sé sáttur við sjálfan sig. Það komu auðvitað stundir þar sem ég var með samviskubit, handboltinn tekur mikinn tíma frá bæði fjölskyldunni og jafnvel vinnunni á álagstímum, en ég reyndi þá að leggja mig enn frekar fram. Æfingar í handboltanum eru á hverjum degi milli 17.30 og 19 svo ég var oftast að þjóta úr vinnunni til að sækja litla strákinn minn áður en ég keyrði á æfingu. Eftir æfingu og kvöldmat reyndi ég að nýta tímann vel fram að háttatíma hjá stráknum mínum, leika við hann eða lesa bók fyrir hann. Það sem mér fannst kannski einna erfiðast er að handboltinn tók alla laugardaga frá manni því við spiluðum alla leiki þá. Það var því lítill tími eftir til að eyða með fjölskyldunni minni. En það gerði það þó að verkum að maður nýtti hverja lausa stund betur og kunni enn betur að meta tímann með þeim. Ég tók líka strákinn minn með mér á æfingu tvisvar í viku þar sem Stjarnan býður upp á barnapössun meðan við æfum. Það gerði mikið fyrir mig og okkur mæðginin. Þá lékum við okkur saman niðri á gólfi þar til æfingin byrjaði og svo aftur um leið og hún var búin.

Sem betur fer er ég líka með mjög skilningsríka yfirmenn sem sýndu mikinn skilning þegar voru álagstímar í handboltanum eins og í kringum landsliðstarnir og úrslitakeppnina. Ég gat þá frekar unnið upp það sem hafði setið á hakanum á kvöldin eða um helgar.

Hvað gef­ur vinn­an þér?

Vinnan gefur mér alveg ótrúlega margt. Mér hefur alltaf þótt gaman að takast á við krefjandi verkefni, setja mér markmið og sækjast eftir því að ná þeim. Það næ ég að gera í vinnunni. Ég er líka mikil félagsvera og finnst það gefa mér svakalega mikið að hitta skemmtilegt fólk á hverjum degi og það næ ég að gera bæði í gegnum vinnuna og handboltann.

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig og, ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

Já, ég hef allt of oft hlaðið á mig verkefnum og haldið að ég ráði við að bæta endalaust við mig. Í raun og veru var veturinn allur þannig. Ég er nefnilega ekki bara að æfa handbolta og vinna, ég er líka að þjálfa handbolta. Ég rek Handknattleiksakademíu Íslands ásamt vini mínum Ágústi Jóhannssyni. Við bjóðum upp á vikunámskeið fyrir unglinga nokkrum sinnum á ári. Einnig er ég að þjálfa unglingalandslið kvenna hjá HSÍ og eru æfingahelgar nokkrum sinnum á ári með þeim líka. Svo vill maður auðvitað alls ekki missa af öllum viðburðum í félagslífinu. Það komu því tímar í vetur þar sem þetta hitti allt saman og ég keyrði mig alveg í kaf. Ég var búin að heita sjálfri mér því eftir að ég var að vinna mig til baka eftir heilahristinginn að hugsa betur um mig. Heilt yfir hef ég gert það en hef þó nokkrum sinnum þurft að minna sjálfa mig á að staldra við og slaka á inn á milli. Oft eru dauðu stundirnar dýrmætustu stundirnar.

Rakel Dögg segir konur þurfa að hafa gott sjálfstraust og …
Rakel Dögg segir konur þurfa að hafa gott sjálfstraust og trúa á sjálfar sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnst þér eins og kon­ur þurfi að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar í ábyrgðarstöður í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

Já, ég held því miður að það sé raunin. Maður sér það einna best þegar hlutfall stjórnenda á vinnumarkaði er skoðað. Þar eru karlarnir í miklum meirihluta þrátt fyrir að konur séu að mennta sig jafnmikið ef ekki meira. Það hefur þó orðið jákvæð þróun þar sem við sjáum sífellt fleiri konur í ábyrgðarstöðum en betur má ef duga skal.

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnu­markaði?

Að hafa trú á sjálfum sér, með gott sjálfstraust og staðfastar sjálfum sér. Konur eiga það allt of oft til að vera sinn helsti gagnrýnandi og draga sjálfa sig niður af algjörum óþarfa.

Mér hefur alltaf þótt ósanngjarnt hvað konur eru fljótt stimplaðar frekjur séu þær ákveðnar og láta vel í sér heyra. Karlar eru á sama tíma kallaðir ákveðnir og jafnvel taldir vera með góða leiðtogahæfileika. Ég vil sjá þetta viðhorf breytast og ég held að við konur getum margar byrjað hjá sjálfum okkur. Við þurfum að standa saman og styðja hver aðra. Hampa þeim konum sem hafa sterkar skoðanir, ekki kalla þær frekar heldur ákveðnar eða kröftugar. Sem betur fer höfum við komist langt áleiðis hér en eigum þó enn þá langt í land.

Það er nefnilega hægt að vera ákveðinn án þess að vera frekur, með gott sjálfstraust án þess að vera hrokafullur eða góður með sig, og staðfastur án þess að vera þver og fastur inni í boxi. Þetta finnst mér vera góðir leiðtogahæfileikar hvort sem um ræðir hjá konum eða körlum. 

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

Móðir mín er án efa stærsta kvenfyrirmyndin mín í lífinu. Hún býr yfir meiri dugnaði en nokkur önnur kona sem ég þekki og hefur kennt mér ótrúlega margt í lífinu bara með því að vera hún sjálf.

Ég á mér líka fyrirmynd í handboltanum en það er hún Hrafnhildur Skúladóttir. Að mínu mati var það hún sem ruddi leiðina fyrir aðrar konur hvað varðar að elta drauminn í atvinnumennsku erlendis.

Í atvinnulífinu er ég því miður ekki með eins sterka fyrirmynd, þótt vissulega séu margar ótrúlega flottar konur sem hafa sett góð fordæmi. Mér þykir það leiðinlegt og jafnvel áhyggjuefni að þegar ég sit hér og reyni að finna fyrirmynd að mér dettur engin ein sérstök í hug sem ég horfði til á mínum uppvaxtarárum. Mér finnst nefnilega gríðarlega mikilvægt að stelpur alist upp með góðar kvenfyrirmyndir í kringum sig. Ég tel að fjölmiðlar eigi stóran þátt í því að skapa fyrirmyndir með því að fjalla um sterkar konur og þeirra afrek hvort sem um ræðir í atvinnulífinu eða í íþróttum (eða á hvaða vettvangi sem er). Það er svo að sjálfsögðu líka mikil ábyrgð foreldra að kynna börnin sín fyrir sterkum kvenfyrirmyndum. Ræða jafnt um sterka karla og sterkar konur. Fara með börnin sín á völlinn hjá kvennaliðinu líka. Ekki bara fara með dæturnar heldur einnig synina. Konur geta nefnilega verið fyrirmyndir allra, ekki bara ungra stúlkna, hvort sem um ræðir í atvinnulífinu, íþróttum, tónlist eða hvar sem er.

Ertu með hug­mynd um hvernig hægt er að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

Ég held að flestir séu sammála í grunninn um að sú tilhugsun að tvær manneskjur fái ekki sömu laun fyrir jafnmikla og -ábyrgðarfulla vinnu sé fráleit. En staðreyndin er samt sú að við búum enn við þetta ójafnvægi. Við höfum áorkað miklu á undanförnum árum og getum við glaðst yfir hversu margar sterkar og flottar ungar stelpur hafa stigið upp síðustu ár og krafist jafnréttis.

Ég tel okkur vera að stíga rétt skref með jafnlaunavottun fyrirtækja en ég held að það þurfi líka að horfa á alla litlu hlutina sem stuðla að einhvers konar ójafnrétti. Litlir hlutir sem í gegnum tíðina hafa einhvern veginn bara þótt vera eðlilegir en þegar við rýnum betur í þá áttar maður sig á því að það er bara fáránlegt að ekki sé búið að breyta og jafna þá betur. Mig langar að nefna sem dæmi þegar ég og mitt lið urðum bikarmeistarar í vetur. Sigurgleðin var mikil þar sem við fögnuðum góðri uppskeru eftir að hafa lagt mikið á okkur í aðdraganda leiksins. Þar sem ég stóð svo fyrir utan klefann og hélt á bikarnum okkar komu forsvarsmenn HSÍ inn í húsið með karlabikarinn því þeirra úrslitaleikur var að fara að hefjast fljótlega. Bikarinn þeirra var tvöfalt stærri en okkar sem ég á bara ótrúlega erfitt með að skilja. Ég veit alveg að stærð bikarsins hefur ekkert að gera með stærð sigursins þennan dag, ég veit að við erum alveg jafnmiklir sigurvegarar og strákarnir sem unnu þennan stóra bikar stuttu síðar. En ég hef áhyggjur af því hvaða skilaboð þetta sendir ungum leikmönnum, bæði stelpum og strákum. Við höfum séð þessa bikaraumræðu áður og þetta er eiginlega bara óskiljanlegt af hverju þetta er svona enn í dag. Ég þekki vel fólkið sem vinnur hjá HSÍ og ég veit að ætlunin er alls ekki að gera meira úr karlaleiknum, heldur er þetta bara eitthvað sem þótti eðlilegt á sínum tíma og hefur ekki enn verið breytt.

Þessi bikaraumræða hefur svo sem ekkert með launamun kynjanna að gera, en þetta er einn af þessum litlu hlutum sem ég tel að skipti máli þegar kemur að jafnrétti kynjanna, þar á meðal launamun kynjanna.

Við konur þurfum að láta í okkur heyra og hnýta í hvern hlut sem ekki telst vera jafnrétti. Það er töff að vera femínisti og við eigum að berjast fyrir hver aðra og fyrir dætur okkar og dætur þeirra. Á endanum verður jafnrétti á öllum vígstöðvum en við eigum ekki að stoppa fyrr en það hefur náðst.

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

Ég set allt inn í dagatalið mitt (Calendar). Ef ég set það ekki þangað þá er ekki víst að ég muni hvert ég á að mæta og hvenær. Ég nota líka póstforritið mitt mikið til að skipuleggja verkefnin mín yfir daginn. Í því get ég flokkað póstana og látið þá minna mig á ýmsa hluti. Þá get ég tikkað í box þegar ég hef lokið við tiltekið verkefni og er markmiðið að tæma innhólfið mitt. Það heppnast því miður allt of sjaldan en maður reynir alla vega. 

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

Morgnarnir eru uppáhaldstíminn minn, alla vega þeir morgnar þegar strákurinn minn vaknar hress og kátur. Sem betur fer er það nánast alltaf þannig og eru morgnarnir okkar rólegur gæðatími. En ég byrja á að knúsa strákinn minn og koma honum svo í föt og gera hann tilbúinn fyrir dagmömmuna. Ég geri mig klára fyrir vinnuna á meðan. Ég skelli í mig engiferskoti með túrmerik og sítrónublöndu og tek vítamín. Maðurinn minn fer svo með strákinn okkar til dagmömmunnar og þá fæ ég yndislegt gæðakorter með sjálfri mér þar sem ég sest niður með morgunkaffibollann minn, sem er auðvitað uppáhaldskaffibolli dagsins, og renni yfir helstu miðla og samfélagsmiðla netsins. Ég hef búið í Þingholtunum frá því ég byrjaði að vinna hjá Tjarnargötunni svo ég labba yfirleitt í vinnunna en við erum staðsett á Tryggvagötu. Það finnst mér æðislegt því það er strax komið svo mikið líf í miðbænum svona snemma dags sem er gaman að sjá og þar að auki hressir það mann svakalega að taka stutta göngu á morgnana. Maður mætir svo hress og endurnærður í vinnunna. Þegar þangað er komið hendi ég í einn hafragraut með banana, kanil og möndlumjólk og byrja að rúlla yfir tölvupóstana sem bíða mín meðan ég borða morgunmatinn minn. Nú er ég reyndar að flytja aftur í Garðabæ svo ég þarf að aðlaga rútínuna mína eitthvað að því. Ég stefni að því að hjóla þegar veður leyfir eða taka strætó í vinnunna í stað göngutúrsins.

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

Það var nú þannig í vetur að ég hafði bara ekki kost á því að vinna fram eftir út af handboltanum. Auðvitað koma álagstímar í vinnunni og þá þurfti ég einstaka sinnum að klára einhver mál heima hjá mér á kvöldin en yfirleitt tekst mér að halda þessu innan hins hefðbundna skrifstofutíma. 

Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

Það liggur í augum uppi að mér þykir gaman að spila handbolta. En ég hef reyndar gaman af flestum íþróttum og fylgist með flestum greinum.

Ég held svo að það sé alveg ljóst að ég mun verða forfallinn golfari í framtíðinni. Ég hef rosalega gaman af því að fara að spila þótt ég hafi haft lítinn tíma síðustu tvö sumur vegna barneigna.

Ég nýt þess líka að hitta vinkonur mínar hvort sem það er í heimahúsi eða á veitingastað niðri í bæ. Það gefur mér ótrúlega mikið að hitta vini, annaðhvort bara ég að hitta vinkonur mínar eða við hjónaleysin með vinafólki að spila eða með börnin okkar.

Hvað ætl­ar þú að gera í sum­ar­frí­inu?

Ég er nú þegar búin að fara með manninum mínum í frábæra ferð til London þar sem við vorum svo heppin að ná tónleikum með Adele áður en hún þurfti að aflýsa seinni tónleikunum sínum á Wembley. En í sumar ætlum við fjölskyldan að fara í ferðalag um Ísland og elta veðrið. Við endum svo það ferðalag í fallegasta firði landsins, Dýrafirði. Maðurinn minn er ættaður þaðan og á fjölskyldan sumarhús á frábærum stað rétt fyrir utan Þingeyri. Þangað förum við á hverju ári og njótum kyrrðarinnar og fegurðarinnar á milli þess sem við förum í gönguferðir eða hvers kyns útivist. Ég enda svo sumarið á að fara í vinkvennaferð til Sitges á Spáni í byrjun september. Þetta er þrítugsferðin okkar sem við urðum að fresta um eitt ár vegna barneigna og brjóstagjafa, alveg klassískt. Ég hlakka mikið til að eiga góða stund með þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál