Segir fegurðarsamkeppnir vera lífstíl

Elísa Gróa Steinþórsdóttir tekur þátt í Miss Universe í september.
Elísa Gróa Steinþórsdóttir tekur þátt í Miss Universe í september. aðsent

Elísa Gróa Steinþórsdóttir er 23 ára förðunarfræðingur og flugfreyja hjá WOW air sem er að fara að taka þátt í þriðja skiptið í fegurðarsamkeppni í ár.

Elísa tók fyrst þátt í Ungfrú Íslandi árið 2015 og tók síðan þátt í Miss Universe Iceland ári eftir þar sem hún lenti í fjórða sæti. Í ár tekur hún aftur þátt í Miss Universe Iceland sem verður haldin 25. september í Gamla bíói.

Hefur alltaf haft áhuga á fegurðarsamkeppnum

„Ég persónulega hef alltaf haft mikinn áhuga á fegurðarsamkeppnum,“ segir Elísa þegar hún var spurð af hverju hún hafi ákveðið að taka þátt í fyrsta skiptið. „Það má segja að það hafi alltaf verið í plönunum mínum að keppa.“  

Elísa ákvað svo að taka aftur þátt vegna þess að þátttakan gerði henni svo margt gott. „Fyrir mig er þetta ekki áhugamál heldur lífstíll. Ég reyni að gera mikið af því sem gerir mig glaða og setja mér stór markmið þannig að ég hikaði ekki við að taka þátt aftur í ár.“

„Ég geri þetta til að koma orði mínu á framfæri, þroskast, og læra meira um sjálfa mig og mín markmið í lífinu,“ bætti Elísa við en hún segir að hver kona taki þátt í fegurðarsamkeppnum á mismunandi forsendum.

Keppnin snýst ekki um fegurð

„Ég veit að sérstaklega á Íslandi eru margir á móti fegurðarsamkeppnum,“ segir Elísa um fólk sem gagnrýnir svona keppnir. „Þetta er ekki keppni í fegurð og ég vildi að fólk myndi afla sér meiri upplýsinga og halda opnum hug,“ segir hún og minnir á að Miss Universe Iceland sé bara að leita að heilsteyptum einstaklingi til að vera fyrirmynd Íslands út á við.

„Það er ekki nokkur maður að segja mér að grenna mig, létta mig, styrkja mig eða breyta mér á nokkurn hátt. Ég geri mitt besta til að reyna vera góð fyrirmynd,“ bætir hún við.

Elísa segir undirbúningsferlið fyrir keppnina vera stórskemmtilegt en það felur í sér æfingar með danshöfundi nokkrum sinnum í viku, myndatökur, viðtalsþjálfun, hópefli og margt fleira. Hún segir allan aukaundirbúning vera persónubundinn en hún byrjaði að undirbúa sig rétt eftir að hinni keppninni lauk, í september.

Langar að vekja athygli á geðheilsu ungs fólks

Ef Elísa vinnur keppnina langar hana að nýta stöðu sína til að auka meðvitund á sjálfsmorðum, þunglyndi og kvíða hjá ungu fólki en Elísa segir geðheilsu ungs fólk vera henni mjög kært málefni.  

Hún bætir við að hún væri til í að gerast talsmaður fyrir geðheilsu ungs fólks eins og Ungfrú Bandaríkin 2016 gerir núna.

„Þetta er það sem ég elska við þennan heim, fjölbreytileikann,“ segir Elísa að lokum. „Alls konar konur, allar þarna á alls konar forsendum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál