Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Þóra Valný segir mikilvægt að hafa jafnvægi á milli einkalífs …
Þóra Valný segir mikilvægt að hafa jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þóra Valný Yngvadóttir er vörustjóri hjá Landsbankanum. Þóra Valný vann sem fjármálaráðgjafi í Englandi en þar var lögð áhersla á jafnvægi milli einkalífs og vinnu og hefur hún haldið í þá hugsun allar götur síðan. 

Hvernig er að vera vörustjóri hjá Landsbankanum?

Það er skemmtilegt og krefjandi starf að vera vörustjóri fyrir 360° fjármálaráðgjöf. Starfið gengur að stórum hluta út á að þjálfa starfsfólk í bankanum og vera í samskiptum við fólkið í útibúunum um allt land. Það er virkilega gefandi að kynnast öllu þessu góða fólki og heimsækja útibúin um land allt og upplifa mismunandi áherslur og menningu á hverjum stað.

Hvers vegna sótt­ist þú eft­ir þessu starfi?

Ég var verkefnastjóri hjá Landsbankanum og fékk það hlutverk að stýra verkefni um að búa til fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga. Ég hef lengi haft brennandi ástríðu fyrir fjármálaráðgjöf og áhugi minn og reynsla sem ráðgjafi nýttist mér vel. Ég var mjög ánægð þegar mér bauðst að vera vörustjóri 360° ráðgjafarinnar þegar hún var kynnt fyrir viðskiptavinum í byrjun árs 2015.

Hvernig hefur þinn fer­ill verið? 

Fyrsta starfið mitt þegar ég lauk háskólanámi í Englandi var fjármálaráðgjafi. Eins og víða erlendis þá var mikið lagt upp úr þjálfunarprógrammi fyrir nýútskrifaða og þetta var eitt af þeim. Þjálfunin var í 9 vikur í sérstakri þjálfunarmiðstöð og var yfirgripsmikil og gagnleg, sem ég bý að enn þann dag í dag. Eftir 3 ár í starfi fjármálaráðgjafa bauðst mér vinna hjá Kaupþingi þannig að ég pakkaði saman og flutti heim til Íslands 1999 og var það mikið gæfuspor. Síðan hef ég að mestu unnið í fjármálageiranum fyrir utan 2 ár sem ég starfaði í millitíðinni í flutningageiranum.

Hvað gef­ur vinn­an þér?

Það er frábært að vinna við það sem ég hef lært og þjálfað mig í og við það sem ég trúi á. Stór hluti af lífinu fer í að vinna og því var það markmið mitt frá upphafi að ég vildi vera í vinnu sem ég hlakkaði til að mæta í. Þetta finn ég vel þegar ég er að koma aftur í vinnu eftir frí og fer að hugsa um hvað sé fram undan, þá er svo gott að geta hugsað með spenningi til verkefnanna stórra og smárra.

Það er alveg sérlega ánægjulegt hvernig það sem ég hef lært og unnið við áður sameinast vel í þessu starfi, þannig finnst mér að þekking mín og reynsla í fjármálaráðgjöf, stjórnun og markþjálfun nýtist að fullu.

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig og, ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

Það hefur komið fyrir þegar mikið er um að vera og “deadline” á námskeiði eða nýjungum sem þarf að koma í loftið. Í þjálfun sem ég hlaut í Englandi, í fyrsta starfinu að loknum háskóla, þá var hluti af því að hafa jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Sá hluti af námskeiðinu hét því skemmtilega nafni HAL (þau eru mikið fyrir að skammstafa allt í Englandi) = have a life. Þar var lögð áhersla á að fylgjast með vinnutíma sínum og gæta þess að brenna sig ekki út með því að ákveða heilagan tíma til að taka frí. Ég ákvað strax að einbeita mér að vinnu í miðri viku en ekki um helgar. Ég var með heimaskrifstofu þegar ég starfaði sem fjármálaráðgjafi og gekk frá öllu inn í skáp og lokaði á föstudögum og opnaði ekki aftur fyrr en á mánudagsmorgni. Það var mín leið til að fá fullkomið frí um helgar. Þessari venju hef ég haldið alla tíð, þannig að þegar mikið er um að vera þá flæðir vinnan frekar yfir á kvöldin á virkum dögum en ég loka svo alveg á hana um helgar.

Þegar ég var að byrja í Kaupþingi þá var mikið í tísku að vinna langan vinnudag. Klukkan átta á kvöldin var bílaplanið enn þá fullt og fáir farnir heim. Þetta er nú blessunarlega dottið úr tísku og gildi samfélagsins hafa færst meira á þá leið að vinna styttra og nýta vinnudaginn betur. Fólk er metið út frá árangri í vinnu frekar en hve lengi því tekst að sitja í vinnunni á hverjum degi. Fjölskyldugildin hafa líka styrkst verulega frá því sem var og nú nefna flestir það, að eiga tíma með fjölskyldunni, sem eitt af áhugamálum sínum og er það mikil framför.

Finnst þér eins og kon­ur þurfi að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar í ábyrgðarstöður í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

Það er erfitt að fullyrða um þetta. Ég held samt að þegar það er skoðað þá er komið aðeins öðruvísi fram við konur en karlmenn. Oft hefur verið sagt að konur séu dæmdar harðar út frá sínum verkum eða mistökum og það er mikið til í því. Ég hef staðið sjálfa mig að því að koma öðruvísi fram eftir því við hvort kynið ég er að tala við og áttað mig ekki á því fyrr en eftir á. Ég hef líka staðið mig að því að nota aðra tóntegund þegar ég er að ræða við karlmann á námskeiði heldur en konu. Þetta finnst mér verulega áhugavert og það er líklegt að fyrst að ég geri þetta, þá geri aðrir þetta líka, því þetta er svo ómeðvitað.

Finnur þú mun á stöðu kvenna í atvinnulífinu núna og þegar þú varst að stíga þín fyrstu skref á vinnumarkaði?

Ég get ekki sagt það. Mér finnst þetta vera mjög svipað. Þegar ég kom heim 1999 þá voru nokkrar konur í ábyrgðarstöðum í stjórnun fyrirtækja, það var mál manna þá að þetta væri að aukast og myndi aukast næstu árin. Það virðist samt ekki hafa gerst. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta var 1999 en núna eru aðeins 12% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins konur, það getur varla talist gott. Mér finnst mikilvægt að halda opinni málefnalegri umræðu um þetta og af hverju þetta sé og hvetja þannig til breytinga.

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnu­markaði?

Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að vera trú sjálfri sér á sama tíma og skiptir miklu máli að spila með. Mikilvægast er að gera sér persónulega stefnumótun og ákveða þar hvað skiptir mestu máli og forgangsraða samkvæmt því. Sá eða sú sem vill ná langt þarf að láta af fullkomnunaráráttu og læra að forgangsraða, öllum verða á mistök og þú kemst ekki alltaf yfir að gera allt sem þú vilt. Það er mikilvægt að sætta sig við það og meta sig af árangri sínum en ekki mistökum eða því sem ekki náðist.

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

Já, þær eru nokkrar, sem hafa haft mikil áhrif á mig. Þegar ég hóf störf í Kaupþingi kynntist ég Maríu Sólbergsdóttur og lærði mikið af henni. Hún er réttsýn, lausnamiðuð, hress og kom jafnt fram við alla. Ég hef einnig verið svo lánsöm að hafa nokkrar konur sem yfirmenn og þær hafa allar verið framúrskarandi færar og góðar fyrirmyndir.

Ertu með hug­mynd um hvernig hægt er að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

Nei, því miður luma ég ekki á þeirri töfrahugmynd, vildi að svo væri. Ég held að það sé búið að fullreyna allt í þessum málum. Það er lengi búið að leita að því hvar hundurinn liggi grafinn í þessu máli og hann ekki fundist. Þannig að eina leiðin sem eftir er, er lagasetning, eins leiðinleg og hallærisleg lausn sem það nú er. Allir eru sammála um að launajafnrétti ætti að nást eðlilega með markaðslögmálinu. En fyrst það gerist ekki, þá er spurning um að gefa launamisréttinu smá spark til að það komist í eðlilegan farveg.

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

Ég er svona yfirleitt með nokkur verkefni í gangi í einu og forgangsraða fyrir vikuna hvað þurfi að klárast í vikunni. Á föstudögum hreinsa ég upp eins og ég get og set í dagatalið fyrir næstu viku það sem ég ekki næ að klára. Í dagslok hreinsa ég upp tölvupósta og svör sem ég þarf að senda frá mér og undirbý næsta dag. Þetta tekst auðvitað ekki alltaf og þá er um að gera að muna að góð áætlun er góð, þótt hún standist ekki alltaf.

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

Mér finnst skemmtilegast að vera með vinum og fjölskyldu, borða góðan mat í góðra vina hópi eða með fjölskyldu er alltaf efst á listanum. Mér finnst jafngaman að vera boðið í matarboð og að halda matarboð, sérstaklega finnst mér gaman að skipuleggja matarboð og get verið tímunum saman að lesa uppskriftir og ákveða matseðilinn.

Ég er með ást-hatur samband við golf og hef verið að vinna í að læra golf undanfarin ár. Þetta gengur brösuglega og er staðan núna 1:0 fyrir golfinu en ég er staðráðin í að snúa þessu mér í hag fyrir sumarlok og finna aftur ástríðuna. Fyrir nokkrum árum plataði góður vinur minn mig í veiðiferð og fátt hefur komið mér jafnmikið á óvart í lífinu eins og hvað það var skemmtilegt. Að standa alein úti í á og sveifla stöng og horfa á línuna reka niður, það er bara eitthvað svo æðislegt, það hellist yfir mann ró og friður. Þegar fiskurinn svo tekur, þá er það svaka stuð, adrenalínið fer á fullt og spennan er í hámarki þar til annaðhvort honum er landað með miklum fagnaðarlátum eða hann nær að slíta sig lausan frá mér, við mun minni fagnaðarlæti.

Annars er mín aðalástríða ferðalög. Ég hef ferðast víða og frá því að ég flutti heim á „eyjuna“ þá hafa aldrei liðið margir mánuðir án utanferðar. Ég hef frá því að ég man eftir mér haft ævintýralöngun og finnst frábært að fara eitthvað þar sem ég þekki ekkert og engan. Koma á alveg nýjan stað og sjá hvað er þar og hvaða fólk er þar, það er skemmtilegast. Svo er líka gaman að fara í slökunarferðir á kunnugar slóðir eins og að skreppa til Spánar og njóta sólar. Ég er jafnvíg á allar tegundir af ferðalögum. Í miklu uppáhaldi er þegar blandast saman slökun og ævintýri. Eins og í vetur fór ég til Bali með góðum vinum og helminginn af tímanum vorum við að ferðast um, skoða áhugaverða staði og kynnast menningu eyjaskeggja og hinn helminginn af tímanum vorum við á ströndinni í vatnasporti og slökun.

Hvað ætl­ar þú að gera í sum­ar­frí­inu

Ferðabakterían á líka við innanlands. Mér finnst Ísland dásamlegt á sumrin, hvernig sem fer með veður og vinda, þá eru þetta bestu dagarnir sem bjóðast á hverju ári. Bjartar sumarnætur eru í sérstöku uppáhaldi, ég er upprifin og heilluð af þessum birtutíma á hverju ári. Stefnan er sett á Vesturland þetta árið, búin að leigja bústað og þar verður flakkað um og golfvellirnir á svæðinu prófaðir, nema hvað. Sumrinu lýkur svo með dekurferð með saumaklúbbnum til Varsjár sem er búin að vera lengi á kortinu og verður svakaskemmtileg. Í vetur förum verður farið  til Miami í til að fá smá hita, ferðast um og auðvitað spila smá golf.

Þóra Valný Yngvadóttir.
Þóra Valný Yngvadóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál