Sagði upp í bankanum og elti drauminn

Anna Bergljót stofnaði leikhópinn Lottu þegar hún var verðbréfamiðlari.
Anna Bergljót stofnaði leikhópinn Lottu þegar hún var verðbréfamiðlari.

Anna Bergljót Thorarensen stofnandi leikhópsins Lottu elti drauminn þegar hún sagði upp starfi sínu hjá Glitni ári fyrir hrun og keypti lénið jólasveinar.is.

Anna Bergljót ákvað með þeim Dýrleifu Jónsdóttur og Ármanni Gunnarssyni að ferðast um landið með barnaleiksýningu sumarið 2007. „Við vorum stórhuga og ákváðum strax að ferðast um landið. Við höfðum tekið eftir því að það var skortur á góðu efni fyrir börn á þessum tíma, sérstaklega á landsbyggðinni og reyndar ennþá. Þannig að strax fyrsta sumarið keyptum við okkur níu manna druslu og pínulitla kerru fyrir leikmynd og farangur og á þessum bíl skröltum við um landið fyrsta sumarið,“ segir Anna Bergljót. En þau fengu sex aðra áhugaleikara í lið með sér og öll voru þau í annarri vinnu með.

Sjálf stefndi viðskiptafræðingurinn og verðbréfamiðlarinn Anna Bergljót ekki á að helga sig listinni nema kannski bara eftir vinu sem áhugaleikari. „Ég ætlaði alltaf að verða tölugúru, hugsaði mikið um endurskoðun. Viðskiptafræðin heillaði mig af því að mér fannst það vera svo opið ég gæti þá ennþá verið að ákveða mig. Svo fannst mér ég bara hafa fundið draumadjobbið þegar ég labbaði inn í verðbréfaþjónustu Glitnis. Mér fannst ég ógeðslega kúl og svo með þetta. Þetta hentaði mér ógeðslega vel, ég  stóð mig vel í starfi og allt en það var einhvern veginn alltaf eitthvað annað að kitla,“ segir Anna Bergljót.

Tók skyndiákvörðun og sagði upp starfinu

„En þegar við fórum af stað með Lottu þá gekk bara svo ógeðslega vel og það mættu svo  margir á fyrstu sýningarnar. Þá fór það að kitla mig svolítið að gefa mér meiri tíma í listina,“ segir Anna Bergljót sem stóð sjálfan sig að því að googla jólasveinaþjónustur þegar hún átti að vera að færa verðbréf. Henni til mikillar lukku hafði lénið jolasveinar.is losnað nýlega. „Ég hringdi í Isnik á núll einni og festi mér lénið og labbaði inn til yfirmannsins míns og sagði upp, enda komin með jólasveinaþjónustu og Lottu í vasann.“

Leikhópurinn Lotta sýnir undir berum himni á sumrin.
Leikhópurinn Lotta sýnir undir berum himni á sumrin.

Anna Bergljót segir að mörgum hafi fundist þetta skrítið enda var þetta árið 2007 og þótti þá ekkert flottara en að vinna í banka. Tveimur árum seinna þegar stór hluti bankastarfsmanna var orðinn atvinnulaus þótti Anna Bergljót ansi töff. Móðir hennar var hinsvegar ánægð með áhættuna sem Anna Bergljót tók enda fannst henni dóttir sín ekki eiga heima bak við tölvuskjáinn þó svo að það hafi tekið Önnu Bergljótu lengri tíma að uppgötva það sjálf.

Viðskiptafræðin nýtist í leiklistinni

Síðan haustið örlagaríka hefur Anna Bergljót starfað við fyrirtækið sitt Kraðak sem sér um bæði jólasveinaþjónustuna og Leikhópinn Lottu. Hún hefur líka fengið tækifæri hjá stóru atvinnuleikhúsunum á borð við Þjóðleikhúsið og Leikfélagi Akureyrar. Viðskiptafræðimenntunin gagnast Önnu Bergljótu mjög vel í leiklistinni en þegar blaðamaður náði á hana sat hún einmitt við Exel-skjalið. Útsjónarsemi hennar í fjármálum hefur reynst leikhópnum vel enda er leikhópurinn ekki á neinum ríkisstyrkjum. Anna Bergljót sér þó ekki bara um skipulagið og peningana heldur skrifar hún handritið, leikstýrir og hoppar inn í hlutverk leikaranna þegar þeir fara í sumarfrí.

Lífið er of stutt fyrir leiðinlega vinnu

„Við eyðum að minnsta kosti einum fjórða af lífinu okkar í vinnunni, ef það er ekki gaman í vinnu þá er ofboðslega erfitt að hafa gaman í lífinu. Ef fólki leiðist í vinnunni þá á það að leita eitthvað annað, það er nóg í boði og alveg endalaust sem maður getur gert. Stundum er bara allt í lagi að eiga minna hús og færri bíla og líða vel heldur en að vera með allt tipp topp og líta vel út en líða illa í sálinni,“ segir Anna Bergljót og bætir því við að henni líði miklu betur með fimm manna fjölskylduna sína í aðeins of lítilli íbúð en ef hún byggi í stóru einbýlishúsi og væri að vinna við eitthvað sem hún tryði ekki á.  

Lokasýningin á sýningu sumarsins, Ljóta andarunganum, verður sýnd í dag, miðvikudag klukkan 18.00 á Lottutúni í Elliðaárdal. 

Anna Bergljót skrifar handritið, leikstýrir og leikur með leikhópnum Lottu.
Anna Bergljót skrifar handritið, leikstýrir og leikur með leikhópnum Lottu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál