„Er hann eigandinn?“

Elva Rut hefur fundið fyrir því að vera ung kona …
Elva Rut hefur fundið fyrir því að vera ung kona í atvinnurekstri.

Elva Rut Guðlaugsdóttir og Eydís Arna Kristjánsdóttir eiga og reka listdansskólann Plié. Þær vilja vekja athygli á því viðmóti sem mætir ungum konum í atvinnurekstri.

„Þið viljið ekkert skoða þetta húsnæði, það er of dýrt fyrir ykkur,“ hafa þær fengið að heyra og það hefur verið hlegið að þeim þegar þær sögðust ætla að parketleggja sjálfar. Þar að auki eru þær iðulega kallaðar stelpurnar þó svo þær séu komnar yfir þrítugt. Elva segir að þær mæti þessu viðmóti aðallega hjá karlmönnum en konur séu þó ekki alsaklausar. Þær séu til dæmis oft kallaðar skvísurnar af konum í móttökustörfum.

Karlmaður líklegri til að vera eigandi

Elva segir að þær þurfi sífellt að vera að sanna sig þegar þær mæta á fundi og sýna að þær viti hvað þær eru að gera. Margir haldi að þær séu bara dansandi í vinnunni þegar raunin er sú að þær reka 750 nemenda skóla og þurfa að sinna öllu tilheyrandi. Reksturinn hafur gengið ljómandi vel og er skólinn rekinn með hagnaði.

„Þið hafið ekki efni á þessu,“ fengu þær sent í tölvupósti þegar þær báðu um að fá að skoða rými sem þær höfðu séð auglýst á netinu. „Þetta var án þess að líta á stöðu fyrirtækisins,“ segir Elva en þær höfðu ekki gefið upp hvað þær voru tilbúnar að borga og í ljós kom að verðið á rýminu var langtum lægra en það sem þær réðu við.

Eydís Arna og Elva Rut reka og eiga saman Plié.
Eydís Arna og Elva Rut reka og eiga saman Plié.

Elva nefnir einnig sem dæmi þegar maður Eydísar, meðeiganda hennar, var með þeim þar sem þær voru að kaupa símanúmer fyrir skólann. Eydís sá um að tala en svo bendir starfsmaðurinn á mann Eydísar og spyr hvort hann sé eigandi fyrirtækisins. „Því er einhvern veginn tekið þannig að hann sé eigandinn,“ segir Elva, sem segir að þær séu oft spurðar hverjir eigi fyrirtækið. „Já er það, meira að segja þótt það sé svona stórt?“ fá þær oft að heyra þegar þær segjast eiga það. „Það er einhvern veginn þannig að fólk áttar sig ekki á að þetta sé eitthvað sem kona getur bara gert,“ segir Elva.

Algengt meðal kvenna

„Ég hef oft rætt þetta við konur í kringum mig sem eru í atvinnurekstri en þetta virðist vera ennþá verra þegar þú ert komin út í þennan kvenlæga bransa. Góð vinkona mín sem er lögfræðingur lendir í þessu sjálf en í minna mæli,“ segir Elva og telur að ástæða þess að lögfræðingurinn lendir í þessu á annan hátt sé vegna þess að lögfræði er hefðbundnari starfsgrein.

„Þegar fólk heyrir að við náðum að tvöfalda skólann á einu ári, að við byrjuðum með fjóra nemendur og erum komin með 750 nemendur fjórum árum seinna, þá svona allt í einu kikkar fólk,“ segir Elva. „Já, ókei, þið vitið alveg hvað þið eruð að gera,“ segir fólk við þær.

Elva segir að þetta eigi alls ekki við um alla sem þær eiga í samskiptum við en þetta sé algengt. „Þetta særir ekkert egóið okkar en þetta er orðið þreytandi. Þetta er gjörsamlega tengt því að við erum konur í óhefðbundnum rekstri,“ segir Elva og segir mikilvægt að umhverfið breytist. Hún segir að fæst af þessu fólki telji konur ekki hæfar til þess að reka stórt fyrirtæki en þetta sé einhvern veginn innbyggt í fólk.

Leggja áherslu á líkamsvirðingu

Þessar athugasemdir sem þær hafa fengið virðast vera tilgangslausar enda ljóst að Elva og Eydís vita hvað þær eru að gera. Plié var stofnaður 2014 og hefur stækkað ört og telur Elva það vera vegna þess að það hafi vantað skóla með þær áherslur sem þær leggja áherslu á. Elva, Eydís og hinir rúmlega fjörutíu kennarar Plié leggja áherslu á jákvæða og uppbyggilega kennslu óháð því hvað einstaklingurinn gerir í framtíðinni. „Þegar við erum með nemanda sem er ekki með allt það sem atvinnudansari hefur á hann ekki að finna fyrir því, við viljum byggja upp sterka einstaklinga sem geta tekist á við ýmiss konar verkefni í framtíðinni. Líkamsvirðing er líka nokkuð sem við leggjum áherslu á og segjum ekki „inn með magann“,“ segir Elva sem vill að börnin þrói með sér sterka og jákvæða líkamsímynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál