Fátækasti forseti heims gefur 10 ráð

Jose Mujica eða Pepe eins og hann er kallaður hefur snert hjörtu margra. Þessi sannfærandi fyrrum forseti Úrúgvæ lifir óhefðbundnu lífi að margra mati. Hann hefur haldið í sannfæringu sína og auðmýkt þrátt fyrir mikla velgengni sem stjórnmála-aðgerðasinni.

Saga hans er mögnuð. Hann var skotinn níu sinnum og fangelsaður af stjórnvöldum í heimalandi sínu á áttunda áratugnum. Hann slapp tvívegis úr fangelsinu en náðist í bæði skiptin. Hann sat lengi í einangrun en var sleppt úr fangelsinu árið 1985, eða þegar lýðræði komst aftur á í landinu. 

Pepe var forseti Úrúgvæ á árunum 2010 – 2015 og er margt í sögu landsins eignað þessum mikla hugsjónamanni. Pepe hefur löngum þótt róttækur í hugsun og skoðunum. Í dag, líkt og þegar hann var forseti, gefur hann 90% af laununum sínum til góðgerðarmála. Þessi vani veitti honum titilinn „fátækasti forseti heims“.

Við gefum Pepe orðið:

1. Neysla

„Ef hver einasti aðili með völd í heiminum á þrjá til fimm bíla, þarf stórt landsvæði og hús við strönd, ferðast um á flugvél og fleira í þeim dúr þá verður ekki til nóg fyrir alla.

Ef við ætlum öll að lifa eins og meðal Bandaríkjamaðurinn þá þurfum við þrjár jarðarplánetur en ekki eina.“

2. Forsetinn/ leiðtoginn

„Forseti er valdamikill aðili sem er kosinn af almenningi til að fara fram með ákveðnar aðgerðir. Hann er ekki konungur, og svo sannarlega ekki Guð almáttugur. Hann er ekki læknir gæddur ofurkröftum, og alvitur er hann svo sannarlega ekki. Þar af leiðandi tel ég að besta leiðin til að lifa sem forseti sé að lifa eins og almenningur í landinu gerir, hvers hönd við forsetar erum kosnir til að koma fram fyrir og þjóna.“

3. Samfélagsleg ábyrgð

„Ég hef ákveðin lífsgildi sem breytast ekki þótt ég sé forseti. Ég bý til meiri peninga en ég þarf á að halda, jafnvel þótt þetta sé upphæð sem myndi ekki duga fyrir alla. Fyrir mig er því það að gefa hluta af laununum mínum ekki fórn, heldur skylda mín sem manneskju.“

4. Umhverfissjónarmið 

„Í dag er hægt að endurvinna nánast allt. Ef við lifum innan eðlilegra marka, og erum skynsöm í neysluvenjum okkar, þá ættu allir heimsbúar, eða 7 milljarðar, að eiga nóg.

Stjórnmálaleiðtogar í heiminum ættu að vera að færa sig í átt að þessari hugsun, en við hugsum enn þá sem einstaklingar og lönd, í stað þess að hugsa sem eitt mannkyn.“

5. Samkynhneigð og fóstureyðingar

„Fóstureyðingar eru jafngamlar heiminum, og samkynhneigð jafnvel eldri. Munið Júlíus Caesar og Alexander mikla. Talað er um þessi mál eins og þau séu ný af nálinni, en svo er ekki. Þetta er hlutlaus staðreynd. Að leiða ekki þessi réttindi í lög er sambærilegt því að kvelja fólk án tilefnis.“

 6. Fátækt

„Ég er ekki fátækasti forseti í heiminum. Þeir fátækustu eru þeir sem þurfa mikið til að lifa. Lífstíll minn á sér uppruna í sárum fortíðar minnar. Ég er sonur sögu minnar. Á ákveðnum tíma í mínu lífi hefði ég verið ánægður með að eiga rúmdýnu til að sofa á.“

7. Jöfnuður

„Að mínu mati ættu þeir sem eiga mestu peningana að borga til þess að eyða fátækt heimsins. Það gengur ekki upp fyrir mér að við hendum frá okkur svona miklu magni af hlutum, og þurfum ávallt allt það nýjasta á meðan það eru konur sem þurfa að ganga 5 km daglega til að sækja vatn fyrir börnin sín að drekka.“

8. Áskoranir

„Ég var alltaf viss um að ég fengi frelsi úr fangelsinu. Þið hafið án efa tekið eftir því að ég er mjög þrjóskur maður með mikla sannfæringu. Ég vissi að ég myndi fá frelsið mitt að lokum og halda áfram sem stjórnmála-aðgerðasinni. Og það hef ég hef gert allar göngur síðan. Frá því ég kom úr fangelsi og mun halda því áfram á meðan tíminn leyfir.“ 

9. Nýtt upphaf

„Ég gefst ekki upp á að segja við ungt fólk í dag að þeir sem bera ósigur úr býtum eru þeir sem hætta að berjast, það er alltaf þess virði að hefja nýtt upphaf í lífinu, ekki bara í stjórnmálum heldur í hverju sem er.

Ég trúi því að lífið sé einstakt ferðalag. Og alveg þess virði að hefja nýtt upphaf í lífinu, í það minnsta 20 sinnum. Erfiðustu ár lífs míns gáfu mér mikið. Til dæmis bar ég ekki hatur í brjósti á þessum tíma. Ímyndið ykkur hversu mikil blessun og gæði það fól í sér að vera án haturs á tíma sem þessum fyrir mig.“

10. Fíknivandi

„Eina góða fíknin sem ég þekki er ást. Gleymið eða gefist upp á öllu öðru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál