Ætlar að vera með stúdentshúfuna út árið

Elsa Yeoman útskrifaðist sem stúdent frá Tækniskólanum um helgina.
Elsa Yeoman útskrifaðist sem stúdent frá Tækniskólanum um helgina.

Húsmóðirin og nýstúdentinn Elsa Yeoman útskrifaðist með glæsibrag frá Tækniskólanum um liðna helgi. Elsa hafði lengi verið í basli vegna þess að hún var ekki með stúdentspróf en eftir að hún kannaði málið, kom í ljós að hún þurfti aðeins að sitja einn áfanga í íslensku til að mega setja upp hvíta kollinn.

„Það hefur komið upp öðru hverju síðastliðin ár, jafnvel áratugi, að skoða hvað ég á mikið eftir og hvað ég þarf að taka marga áfanga til að klára stúdentinn. Svo bara hitti ég konu sem er búin að vera ótrúlega fá ár á Íslandi og er ekki íslensk. Hún flutti til Íslands, lærði íslensku og tók gráðu. Ég hugsaði bara hey kommon, það er engin afsökun fyrir mig. Ef fólk sem kann ekki tungumálið getur komið hingað, lært íslensku og útskrifast, þá hlýt ég að geta gert þetta,“ segir Elsa í samtali við mbl.is. 

Elsu þekkja eflaust einhverjir af vettvangi stjórnmálanna en hún var borgarfulltrúi Besta flokksins og síðar Bjartrar framtíðar og um tíma var hún forseti borgarstjórnar. 

„Það var bara enginn búinn að nenna, eða enginn sem settist niður með mér og skoða hvað ég væri búin að gera. Ég var búin með tvær gráður í Iðnskólanum, húsgagnasmíði og tækniteiknun og hafði tekið ýmis námskeið hingað og þangað,“ segir Elsa og í ljós kom, sem fyrr segir, að hún átti eftir einn áfanga sem hún kláraði með stæl núna í vor. 

„Ég verð bara með þessa húfu út árið allavega. Ég er búin að vera með hana á mér í allan dag,“ segir Elsa sem keypti húfuna strax í janúar þegar hún byrjaði í íslenskuáfanganum.

Elsa með húfuna góðu.
Elsa með húfuna góðu.

Ætlar að reyna við tannlækninn

Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Elsu þótt ekki sé hún lengur í Bjartri framtíð. Aðspurð hvað taki næst við, sagðist hún ætla að reyna að komast inn í tannlækningar. 

„Ég er spennt fyrir því að sjá hvað er í boði. Ég er allavega búin að ná þessum áfanga og er ótrúlega stolt af því. Það gefur mér rosalega mikið að hafa loksins náð að klára þetta,“ segir Elsa sem hefur reglulega skoðað háskólanám í gegnum árin en alltaf komið að lokuðum dyrum vegna þess að hún var ekki með stúdentspróf. 

„Ég mátti ekki gera neitt af því ég var ekki með stúdentspróf. Núna má ég gera allt af því ég er með stúdentspróf,“ segir Elsa. 

Hún ætlar að fagna áfanganum með heljarinnar veislu næstu helgi og er búin að ráða plötusnúð, harmonikkuleikara, veislustjóra, láta sauma á sig kjól og bjóða hundrað manns. „Það verður virkilega haldið upp á húfuna.“

Elsa á útskriftardaginn.
Elsa á útskriftardaginn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál