Ætlar að þamba malt og appelsín í desember

Vöruhönnuðurinn Almar Alfreðsson.
Vöruhönnuðurinn Almar Alfreðsson.

Vöruhönnuðurinn Almar Alfreðsson er maðurinn á bakvið Jón í lit veggplattann sem slegið hefur í gegn. Almar er með mörg járn í eldinum en hann er m.a. að opna litla hönnunarverslun í listagilinu á Akureyri með eiginkonu sinni, Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur. Verslunin heitir Sjoppan Vöruhús og er lítil verslun sem selur skemmtilegar og vandaðar hönnunarvörur út um lúgu. „Sennilega eina og minnsta hönnunarsjoppan á Íslandi,“ segir Almar. Almar kveðst hlakka til að upplifa jólin með dóttur sinni sem er tveggja ára, hann hyggst svo drekka nóg af malti og appelsíni í desember.

Ert þú mikið jólabarn?

Nei, ég get ekki sagt það. Ég var það kannski meira þegar ég var yngri, en núna hef ég meira gaman af því að upplifa jólin með dóttur minni sem er tveggja ára.

Hvenær byrjar þú að skreyta heima hjá þér?

Við byrjum yfirleitt að skreyta snemma í aðventunni, þá setjum við upp seríur. Annað jólaskraut fer oftast ekki upp fyrr en rétt fyrir jól og við erum reyndar fljót að taka það niður aftur, oftast fyrir áramótin. Hingað til höfum við hjónin oftast haldið jólin hjá foreldrum okkar og ekki haft fyrir því að kaupa jólatré, en í ár verður breyting á, við höldum jólin heima og ætlum því að splæsa í tré og allt sem því fylgir.

Átt þú þér uppáhaldsjólalag?

Nei, ekki beinlínis. Þegar ég var yngri var alltaf hlustað á Willie Nelson jólaplötu, Pretty Paper, og þar af leiðandi þykir mér ávallt vænt um hana. Seinni ár höfum við hlustað á Bassajól og finnst það mjög hátíðlegt.

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Fjarstýrður bíll stendur upp úr í minningunni, brúnn Porsche sem pabbi var álíka ánægður með.

En sú versta?

Brækur í hörðum kassa, mikil vonbrigði.

Hvernig og hvenær verslar þú jólagjafirnar?

Eiginkonan sér um það, við ætlum alltaf að vera tímanlega í því en það tekst sjaldan.

Gerir þú eitthvað sérstakt í desember?

Síðustu ár hafa einkennst af endalausri vinnu í desember og þar af leiðandi lítill tími fyrir annað. Ég reyni því bara að þamba eins mikið af malti og appelsíni og ég get allan mánuðinn, ásamt stanslausu klementínuáti.

Hvað borðar þú á jólunum?

Ég hef alltaf borðað hamborgarhrygg á aðfangadag hjá foreldrum mínum en konan mín er vön að borða nýjan lambahrygg á aðfangadag með sinni fjölskyldu. Við eigum eftir að ræða þetta betur en ég held að ég og svínið hafi vinninginn á aðfangadag þetta árið.

Eftirminnilegustu jólin?

Það var þegar ég og konan mín bjuggum í Reykjavík og sú staða kom upp að ég þurfti að vinna um jólin. Við héldum því jólin bara tvö fjarri fjölskyldu og vinum. Þó svo það hafi ekki verið óskastaða á sínum tíma þá voru þetta mjög notaleg jól, engin jólaboð bara náttbuxur og konfekt.

Hvað er það besta við jólin að þínu mati?

Matur, frí og pakkar, þarf að segja eitthvað meira!

Áhugasamir geta fylgst með Almari á Facebook-síðu hans.

Sjoppan Vöruhús hefur upp á fallega og vandaða hönnun að …
Sjoppan Vöruhús hefur upp á fallega og vandaða hönnun að bjóða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál