Íslenskir vöruhönnuðir eru duglegt fólk

Sigríður Sigurjónsdóttir.
Sigríður Sigurjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Sigurjónsdóttir hefur lengi verið viðriðin hönnunarsenuna hér á landi, en hún er menntaður vöruhönnuður. Sigríður, sem hefur komið víða við, er sýningarstjóri sýningarinnar Dæmisögur: Vöruhönnun á 21. öldinni, sem stendur yfir í vestursal Kjarvalsstaða. 

Þetta eru sex vöruhönnunarverkefni, en þar sýna ýmist stakir hönnuðir, hópar eða fyrirtæki. Hugmyndin kemur frá Ólöfu K. Sigurðardóttur, safnstjóra listasafns Reykjavíkur, en hún hefur fylgst með vöruhönnun frá því að nemendur fóru að útskrifast úr faginu hérlendis,“ segir Sigríður.

„Okkur langaði að sýna mismunandi vinkla vegna þess að verkefnin sem hafa verið að koma frá þessu fólki eru svo mismunandi, en eru þó öll undir sama hatti. Ég ákvað því að velja nokkur verkefni sem hafa mjög skýran útgangspunkt og eru afar ólík. Til að mynda valdi ég Brynjar Sigurðarson, en hann er vöruhönnuður sem vinnur út frá handverki. Svo eru þarna verk eftir Sigríði Heimisdóttur, eða Siggu Heimis, en hún er fulltrúi vöruhönnuða sem vinna fyrir fjöldaframleiðslu. Annar hönnuður sem á verk á sýningunni er Tinna Gunnarsdóttir, en allt sem hún gerir er framleitt af íslenskum fyrirtækjum eða handverksfólki. Eins er þarna eitt upplifunarhönnunarverkefni, flothettan sem Unnur Valdís Kristjánsdóttir hannaði, svo eitthvað sé nefnt.“

Áherslurnar að breytast

Augljóst er að gróskan í vöruhönnun er ansi mikil um þessar mundir, en hefur mikið breyst á þessum örfáu árum sem liðin eru af 21. öldinni?

„Það sem hefur breyst er að vöruhönnun hefur verið kennd á Íslandi undanfarin 16 ár. Það eru því 12-13 ár frá því fyrstu hönnuðirnir útskrifuðust hér á landi. Það sem gerist þegar þetta er kennt hér heima er að við fáum verkefni, eins og flothettuna, sem er unnin út frá íslenskum menningarheimi. Einnig fær maður fólk eins og Brynjar, sem er að vinna með handverk sem hann kynnist í gegnum íslenska sjómenn. Hann hefur einnig verið búsettur í Frakklandi og hefur greint frá því að sjómennirnir þar noti sömu aðferðir við að búa til net, þó þeir notist til að mynda við allt aðra liti og annarskonar bönd. Það verður til eitthvað svona íslenskt þegar fólk lærir fagið hér heima og auðvitað leggja fleiri stund á fagið þegar það er kennt hérlendis,“ segir Sigríður og bætir við að áherslurnar í vöruhönnun séu einnig að breytast.

„Vöruhönnuðir eru farnir að vinna meira í upplifunarhönnun og þjónustu, en ég hef einnig tekið eftir því að þeir eru mikið farnir að leggja stund á rannsóknir. Það er nýr vinkill. Á sýningunni má finna tvö verkefni sem sýna þessa nýju stefnu, sem er þó ekki séríslensk. Þetta er að gerast alls staðar í heiminum,“ segir Sigríður.

Flothetta Unnar Valdísar er á sýningunni.
Flothetta Unnar Valdísar er á sýningunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skilin milli hönnunar og listar oft óljós

Vöruhönnun er ansi vítt hugtak sem getur náð til allskyns verkefna, en hver eru skilin á milli vöruhönnunar annarsvegar og listsköpunar hinsvegar?

„Mörkin eru oft mjög óskýr. Ef við skoðum verk Brynjars á þessari sýningu má sjá að hann er gjarnan á mörkunum. Hann gerir húsgögn sem hafa oft mjög óræða notkun. Maður veit ekki alveg til hvers hluturinn er ætlaður, en getur kannski bæði notað hann sem fatahengi eða hirslu. Hann er oft ansi nálægt myndlistinni. Svo eru mörkin mjög skýr hjá öðrum, ef við tökum til dæmis verkin sem stoðtækjafyrirtækið Össur er með á sýningunni þá eru þau mjög verkfræðileg,“ segir Sigríður og bætir við að íslenskir vöruhönnuðir standi sig ákaflega vel í hinu stóra samhengi, og séu algerlega samkeppnishæfir.

„Listaháskólinn hefur verið mjög duglegur að fá erlenda gestakennara til liðs við sig, sem hefur haft sitt að segja. Svo er þetta bara duglegt og klárt fólk. Þessir einstaklingar eru algerlega samkeppnishæfir, og hafa komist inn í bestu skóla í heiminum í meistaranám sem hefur sitthvað að segja um grunninn hér,“ bætir Sigríður við.

Góðir hlutir taka tíma

Hönnunarmars hefur vaxið og dafnað mikið á undanförnum árum, en hvert er mikilvægi hátíða sem þessara fyrir listamenn og hönnuði á Íslandi?

„Það mikilvægasta fyrir þessa listamenn og hönnuði er að þeir geti komið sér á framfæri. Að það sé til vettvangur þar sem almenningur og fyrirtæki, sem mögulega gætu unnið með þessum hönnuðum, hafi aðgang að því sem er að gerast í senunni. Vonandi verða til einhverjar tengingar sem hafa í för með samstarf,“ segir Sigríður og bætir við að viðburðirnir séu einnig áhugaverðir fyrir leikmenn. „Það eru þarna ótrúlega skemmtilegir fyrirlestrar sem eru ekki bara áhugaverðir fyrir þá sem hafa áhuga á hönnun, heldur einfaldlega fyrir þá sem hafa áhuga á lífinu,“ bætir Sigríður við hress í bragði.

„Það er oft svolítil pressa á Hönnunarmars að sýna einungis það nýjasta. Á Kjarvalsstöðum er ég þó ekki að sýna nýjasta nýtt,“ segir Sigríður um hina yfirstandandi sýningu. „Ég valdi verkefni sem fólk hefur verið að vinna að í mörg ár, og hefur þess vegna öðlast skilning á því sem það er að gera og ákveðna dýpt sem kemur bara með tímanum. Þetta er ekki eitthvað sem gerist einn, tveir og þrír. Mér finnst mikilvægt að þessi verkefni fái líka pláss, því það skiptir miklu máli að fylgja hlutunum eftir. Góðir hlutir taka nefnilega tíma,“ segir Sigríður að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál