Of lítið prótein getur valdið bjúgsöfnun

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Inga Kristjánsdóttir svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð út í bjúgsöfnun og hvað sé til ráða til að stöðva hana.

Sæl.

Ég er með spurningu varðandi bjúgsöfnun. Þannig er að ég hef safnað bjúg í nokkur ár og hef af því þónokkrar áhyggjur. Ég hreyfi mig reglulega, má segja að ég hafi hlaupið 10-15 km að jafnaði á viku síðustu fjögur árin, auk þess sem önnur hreyfing hefur verið stunduð eitthvað með (sund, ganga, hjól). Ég borða hollt, er lítið í sykrinum, hef t.d. verið 95% sykurlaus frá áramótum, drekk 1-2 lítra af vatni á dag. Ég tek inn fjölvítamín, D-vítamín, járn og magnesíum (hef verið lág í járni í nokkur ár). Hvað er til ráða? Ég ætti kannski að fara til læknis en æiii kannski er eitthvað sem er svo augljóst að?

Kær kveðja, Bjúghildur.

Sæl og blessuð Bjúghildur!

Takk fyrir spurninguna. Þú ert greinilega að gera góða hluti með heilsuna þína, en það er nú þannig að þegar kemur að mannslíkamanum og starfsemi hans er flækjustigið oft dálítið hátt og erfitt að átta sig á hvað er í gangi. Það á svo sannarlega við með bjúgsöfnun. Það er ekki spurning að þú ættir að kíkja við hjá lækni og biðja hann að athuga þetta. Svo eru nokkrir þættir sem þú gætir skoðað. Að borða hollt getur þýtt ýmislegt og stundum getum við jafnvel verið að borða fæðu sem er guðdómlega góð en jafnvel ekki rétt samsett. Borðar þú til dæmis nóg af gæðapróteini? Við konurnar erum stundum latar við það og of lítið prótein getur valdið bjúgsöfnun. Einnig vantar okkur oft góða fitu. Svo myndi ég skoða meltinguna, er hún í lagi? Nærð þú að skila frá þér á hverjum degi? Ef meltingin er eitthvað hikstandi, þá getur það valdið bjúgsöfnun. Drekkurðu mikið kaffi? Það getur haft slæm áhrif á vökvajafnvægið. Svo kannski síðast en ekki síst getur aukin bjúgsöfnun bent til þess að þú hafir óþol fyrir einhverri fæðu sem þú borðar. Það er mjög vel þekkt. Það getur borgað sig að skoða þetta vel og prófa að kippa út þeim fæðutegundum sem þú gætir grunað um græsku. Algengir óþolsvaldar eru mjólkurvörur, hveiti og glúten. Það er hægt að kaupa fæðuóþolspróf sem geta létt leitina, en svo geturðu auðvitað bara prófað þig áfram með þetta.

Kveðja,

Inga næringarþerapisti. Liggur þér eitthvað á hjarta? HÉR getur þú sent Ingu spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál