10 atriði sem bæta líf Lindu Pé

Linda Pétursdóttir eigandi Baðhússins.
Linda Pétursdóttir eigandi Baðhússins.

Linda Pétursdóttir eigandi Baðhússins er oft spurð hvað hún geri til að hugsa um sjálfa sig.

„Mér finnst ég líta best út þegar ég er vel nærð bæði andlega og líkamlega. Fyrir mér snýst fegurð um vellíðan og útgeislun. 
Hér að neðan eru nokkrar venjur sem ég hef tileinkað mér og eru hluti af minni daglegu rútínu, en mér finnst mikilvægt að hreinsa reglulega jafnt sál sem líkama.

Einn fullkominn
Til að bæta heilsuna og fyrirbyggja sjúkdóma er ráðlagt að borða meira af ávöxtum og grænmeti. Embætti Landlæknis ráðleggur fimm á dag, en það er hægara sagt en gert. Ég vil gera allt til að fyrirbyggja lífsstílstengda sjúkdóma og hef á undanförnum árum verið dugleg að bæta þekkingu mína um mikilvægi þess að nærast vel og bæta lífsstíl minn. Til þess að líkaminn starfi rétt er nauðsynlegt að góð vítamín og steinefni séu í mat og drykk. Mín byrjun á góðum degi er að fá mér einn grænan og góðan heilsudrykk sem er fullur af grænmeti og ávöxtum. Til að missa ekki trefjarnar úr drykknum set ég allt í blandara og fæ því einn með öllu, þar sem ekkert fer til spillis. Varla er hægt að hugsa sér það betra! Eins og oft í byrjun sambands var ég efins í byrjun. Mér fannst bragðið af þeim græna ekkert sérlega gott og bragðlaukarnir brostu ekki. Þetta breyttist hins vegar fljótt með bættu mataræði og í dag er ég alsæl með drykkinn minn og sólgin í græna bragðið. Ég byrja flesta daga á því að fá mér grænan heilsudrykk, og leyfi þeim sem mér finnst vænt um að njóta þess með mér, enda er fátt betra en að byrja daginn á fullkominni næringu. 
HÉR er uppskrift að græna drykknum.

Tvisvar í viku
 
Bætt húð og minna mittismál er fórnarinnar virði. Galdurinn er sá að sleppa sykuráti tvo daga í viku og þannig minnka smátt og smátt sykurinn.  Hann leynist víða, jafnt í mat og drykkjarvörum. Sykurinn er skaðlegur á margan hátt, getur veikt ónæmiskerfið og aukið líkur á sjúkdómum eins og sykursýki II. Þetta á einnig við um einföld kolvetni en gott er að byrja á sykrinum. Þú munt sjá mun á húðinni við það eitt að minnka sykurneysluna og ávinningurinn er m.a. minna mittismál. Bættu síðan smám saman matarvalið með því að velja gróft korn, t.d. gróft brauð, grófa hafra og góð fræ.

Vökvaðu þig 
Forvörn er besta leiðin til að detoxa daglega. Komdu hreyfingu á kerfið og losaðu þig við óæskilega málma og eiturefni úr líkamanum. Ég er alltaf með vatnsbrúsa við höndina, jafnt á skrifborðinu sem í bílnum. Ég mæli með a.m.k. tveimur lítrum af vatni á dag, en auk þess er ég dugleg að drekka grænt te, fyrripart dags. Gott er að drekka heitt vatn með nýkreistum sítrónusafa á morgnana.

Slökun í saltlegi 
Saltbað er sérlega gott fyrir heilsuna. Það er góð slökun að fara í heitt bað en að bæta epsonsalti út í er dásemd ein. Saltið hjálpar líkamanum að losna hraðar við eiturefni. Ég er frekar sólgin í salt og eftir að ég fór að setja salt í baðið finn ég að ég að það hefur minnkað saltþörfina, þar sem húðin dregur það í sig. Í epsonsalti er magnesíumsúlfat, sem hjálpar líkamanum að losna við eiturefni. Mæli með að liggja í epsonsaltbaði í a.m.k. 30 mínútur og ekki sakar að hafa góða bók til að kíkja í á meðan.

Loftháð þjálfun
 
Veldu loftháða þjálfun svo sem hlaupabretti, hjól eða crosstrainer, minnst 20 mínútur á dag.  Einnig er upplagt að fara í svokallað detoxjóga sem byggist á djúpöndun og teygjum með jógaæfingum.

Sauna - líka fyrir ferfætlinga
 
Að svitna er ein aðalleið líkamans til að losa sig við úrgangsefni. Mjög gott er fyrir húðina, sem er stærsta líffærið okkar, að þurrbursta hana, byrja neðst og fara í átt að hjartanu, þannig örvast flæðið um blóðrásina og hjálpar til við losun eiturefna. Nauðsynlegt er að huga vel að húðinni, en margir veita henni ekki nægjanlega athygli. Að burstun lokinni er tilvalið að slaka á í einar 10-15 mínútur eða eftir því sem hentar hverjum og einum. Í Baðhúsinu eru þrenns konar gufur; vatnsgufa, þurrgufa og innrauð sána. Allt er þetta kjörið til að slaka á og detoxa. Ég hef það mikla trú á sauna að ég hef eina slíka heima hjá mér og nota hana flesta daga. Ekki nóg með að mér þyki unaðslegt að fara í saunabað heldur er hundurinn minn hún Stjarna ekki síður hrifinn og fer oftast með mér. Hún slakar reyndar svo vel á þar sem hún liggur á gólfinu að ég þarf oftar en ekki að vekja hana þegar tíminn er búinn.

Hugsaðu um ekki neitt
 
Það getur tekið á að byrja að hugleiða, að setjast niður og ætla að hugsa um ekki neitt, þá fer hugurinn fyrst af stað. En það er hið eðlilegasta mál og smám saman nærðu betri tökum á þessu. Mér finnst gott að loka mig af, vera ein með sjálfri mér, þar sem ég sit, kem mér notalega fyrir og hugleiði í 20-30 mínútur. Stundum jafnvel bara í fimmtán ef þannig stendur á. Ég hef enn ekki náð því að hugsa um ekki neitt. Engu að síður er einhver ólýsanleg ró sem færist yfir mig og vellíðanin sem fylgir þess virði. Máttur bænarinnar er líka öflugt tæki til að heila hugann og ná sátt við sjálfan sig og aðra.

Regluleg endurnýjun
 
Á meðan við sofum gerist ótrúlega margt í líkamanum, frumur endurnýja sig og líkaminn er á fullu við að brenna og gera við það sem betur má fara. Ef þú sleppir nauðsynlegum svefni kemurðu í veg fyrir að líkaminn nái að endurstilla sig, þannig að vertu viss um að ná reglulegum svefni. Mælt er með 6-8 klst. fyrir flesta. Mér finnst best að fara að sofa sem oftast á svipuðum tíma, því ég vakna hvort eð er alltaf á sama tíma, sem er upp úr sex á morgnana. 

Orkan í náttúrunni
Rannsóknir hafa sýnt að loftið innandyra er fimm sinnum mengaðra en ferska loftið utandyra.  Opnaðu glugga og fáðu ferskt loft inn til þín eða verðu meiri tíma utandyra og reyndu að komast í færi við náttúruna sem oftast og andaðu að þér orkunni sem þar býr.

Traustir vinir
 
Líkamlegt eitur er ekki það eina sem eykur stressið í líkama okkar. Til að losa sig við vonda líðan, pirring og erfiðar tilfinningar er upplagt að koma þeim frá sér á blað - eða tala við traustan vin. Heilbrigt kynlíf virkar líka vel í þessu samhengi. Rólegt og jákvætt hugarfar er því mikilvægt, ásamt heilbrigðu mataræði og góðri hreyfingu, þegar lifa á heilbrigðu lífi.  


HÉR er hægt að lesa pistla Lindu Pé.

Linda Pétursdóttir.
Linda Pétursdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál