Mæður upplifa að vera dæmdar er börn þeirra gráta

Það er ekkert grín að vera nýbökuð móðir með grátandi …
Það er ekkert grín að vera nýbökuð móðir með grátandi barn í fanginu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar. mbl.is/AFP

Meirihluti breskra mæðra hefur upplifað allavega einu sinni í lífinu að almenningur virðist hafa litla þolinmæði fyrir baráttu nýbakaðra mæðra og grátandi barna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar.

Könnunin leiddi í ljós að 64 prósent nýbakaðra mæðra sögðust upplifa það að almenningur fyrirliti börnin þeirra er þau grétu og sumir gengu meira segja svo langt að láta nýbökuðu mæðurnar heyra það á almannafæri.

Svo virðist einnig sem almenningur sé ekki mikið að fela hvað honum finnst um grátandi börn, en 41 prósent nýbakaðra mæðra sagðist upplifa að það væri starað á þær, 36 prósent fengu á sig gagnrýnandi augnaráð, 27 prósent fengu í andlitið á sér hljóð sem gæfu í skyn gremju og 19 prósent höfðu upplifað að heyra neikvæðar athugasemdir.

Samkvæmt heimildum Daily Mail sagðist ein af hverjum tuttugu mæðrum einnig hafa fengið skammir frá ókunnugum út af grátandi barni þeirra.

Í könnuninni kom einnig í ljós að eldra fólk brygðist verst við barnsgráti og þar á eftir væri fólk á miðjum aldri, að sögn mæðranna.

Þrátt fyrir að konurnar væru gagnrýndar sögðu 90 prósent að þær hefðu ekki fengið aðstoð frá almenningi. Það kemur því ekki á óvart að 42 prósent sögðu að þær hefðu aldrei verið eins einmana og eftir að þær áttu börn.

Næstum tvær mæður af hverjum þremur sögðu að þær ættu erfitt með að heyra barnsgráturinn, en um 38 prósent fannst þær skorta allan kraft og 34 prósent upplifðu sig sem vanhæfa móður. Næstum ein af hverjum fjórum konum eða 24 prósent sögðust finna fyrir skelfingu og 28 prósent höfðu miklar áhyggjur ef barnið grét.

Næstum ein móðir af hverjum fimm viðurkenndu að hafa upplifað einkenni þunglyndis og 32 prósent sögðu að þær skömmuðust sín fyrir það hvernig þær stæðu sig í hlutverkinu.

Eins og það sé ekki nógu erfitt að þurfa að eiga við grátandi barn sögðu 79 prósent nýbakaðra mæðra að þær ættu erfitt með svefn, og að þær misstu um þrjár klukkustundir af svefni að meðaltali hverja nótt.

„Engum líður eins og þeir séu 100 prósent með allt á hreinu er barnið kemur í heiminn. Það tekur tíma að læra inn á foreldrahlutverkið og nýbakaðar mæður ættu ekki að dæma sig of harkalega fyrir að gera ekki allt rétt,“ sagði Alison Knights foreldrasálfræðingur og bætti við: „Sum börn gráta meira en önnur. Mundu bara að það að eignast barn er mikil umbreyting sem krefst mikillar tilfinningarlegrar vinnu fyrir móðurina og aðra sem standa barninu nærri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál