Fimm ráð fyrir svefnlausar mæður

Erla Björnsdóttir með son sinn sem fæddist í febrúar.
Erla Björnsdóttir með son sinn sem fæddist í febrúar.

Erla Björnsdóttir sálfræðingur þekkir svefnleysi vel en hún eignaðist sitt fjórða barn í febrúar. Hún segir að það sé mikilvægt fyrir mæður að ræða opinskátt um svefnerfiðleika við maka sinn eða nannan nákominn. Í nýjasta pistli sínum inni á betrisvefn.is mælir hún með fimm ráðum sem gætu skipt sköpum:

  1. Ekki færast of mikið í fang: Þó að þú sért komin í fæðingarorlof er það alls ekki svo að nú hafir þú allan heimsins tíma til að sinna húsverkum, bakstri, áhugamálum eða öðru sem setið hefur á hakanum. Það að sinna nýfæddu barni er full vinna og mikilvægt er að þú passir upp á þig sjálfa og setjir hvíld í algjöran forgang.
  2. Reyndu að leggja þig með barninu: Jafnvel þó að þú eigir eftir að setja í þvottavél, svara tölvupóstum, fara í sturtu eða horfa á nýjasta Greys Anatomy-þáttinn getur oft verið betri hugmynd að geyma þessi verk aðeins lengur og taka smá lúr þegar barnið sefur. Það er þó skynsamlegt að sofna frekar með barninu snemma dags til þess að lúrinn hafi ekki neikvæð áhrif á þinn nætursvefn. Gott er að reyna að forðast blundi eftir kl. 15.00 á daginn.
  3. Ekki vera feimin við að þiggja hjálp: Ættingjar og vinir eru oftast reiðubúin að aðstoða okkur eftir fremsta megni en því miður viljum við gjarnan líta út fyrir að vera „ofurkonur“ og erum því oft feimnar við að þiggja eða biðja um hjálp. Þetta eru algjör mistök og við eigum að þiggja alla þá hjálp sem okkur býðst og vera ófeimnar við að biðja bestu vinkonu okkar, foreldra eða aðra nákomna um að horfa eftir barninu meðan við leggjum okkur í stutta stund, bara korter getur skipt máli!
  4. Mundu að þetta er tímabundið ástand: Langvarandi svefnskortur getur haft neikvæð áhrif á andlega líðan og okkur getur fundist sem þetta muni engan enda taka. Þess vegna er afar mikilvægt að minna sig á það að barnið mun á endanum læra að sofa alla nóttina og þá fáum við aftur samfelldan svefn. Ef við erum hins vegar í miklum vandræðum með svefninn og náum ekki að hvílast þegar barnið sefur er mikilvægt að leita sér strax hjálpar þar sem langvarandi svefnskortur eykur líkur á fæðingarþunglyndi.
  5. Ef svefninn lagast ekki skaltu fá aðstoð: Ef að barnið er farið að sofa allar nætur en þú átt enn erfitt með svefninn er mikilvægt að þú leitir þér hjálpar sem fyrst. Hugræn atferlismeðferð er árangursríkasta lausn sem í boði er við langvarandi svefnvandamálum og getur hjálpað þér að leiðrétta óreglulegan svefn, stytta sofnunartíma og fækka uppvöknunum um nætur. Inni á www.betrisvefn.is  er hægt að svara skimprófi sem metur  hvort þú glímir við langvarandi svefnleysi og hvort meðferð Betri svefns gagnist þér. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál