Er eðlilegt að fá það ekki með nýja elskhuganum?

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur.
Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ragga Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur sem er með vefinn raggaeiríks.com svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er spurning frá rúmlega fimmtugri konu sem á erfitt með að fá fullnægingu með nýlegum elskhuga. 

Sæl Ragga.

Ég er rúmleg fimmtug og var í sambandi við sama manninn í mörg ár. Því lauk fyrir um ári. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á kynlífi og með mínum ex þá voru engin vandamál með fullnægingu þrátt fyrir að oft hafi kynlífið verið í daufara lagi. Nú, eftir að því sambandi lauk kom ég mér upp nýjum elskhuga. Hann er bæði fallegur og frábær elskhugi. En mér finnst eins og næmni mín sé ekki eins og áður. Ég er full áhuga, finn fyrir losta í meira lagi og langar í hann en fullnægingu fæ ég ekki fyrr en ein með sjálfri mér þegar hann er farinn. Ég vil ekki hafa þetta sem vandamál þar sem bólfarirnar eru í meira lagi skemmtilegar, þannig að hann heldur að allt sé í himnalagi og er glaður að hafa hitt konu sem er meira en til í tuskið. Hvað er til ráða? Er þetta tengt aldri? Minnkar næmni sníps þegar árin færast yfir? Ef svo er, hvað er til ráða? Eru til lyf við því?

Kær kveðja, 

Síðbúna fullnægingarkonan

Kæra SF

Þú stundar gott kynlíf með elskhuga sem er þér að skapi og færð fullnægingar, það er frábært. Tölum fyrst aðeins um fullnæginguna. Þig langar að færa tímasetningu fullnæginganna þannig að þú fáir það þegar gaurinn er á svæðinu. Sko, fólk er sjúklega vanafast þegar kemur að fullnægingum. Við getum búið okkur til allskonar munstur og vana og skapað þannig taugasálfræðilegar tengingar sem geta valdið því að við fáum fullnægingu aðeins að mjög ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef þú ert til dæmis vön því að fá það ALLTAF með sjálfri þér liggjandi á baki með vinstra hné í 128°boga, þrjá fingur á sníp og veðurfréttir í útvarpinu og ALDREI öðruvísi, getur verið hunderfitt að breyta út af vananum. Ótalmargt sem varðar ytri aðstæður getur haft áhrif á fullnæginguna og til að breyta þessu þarf æfingu. Það er kannski óþægileg tilhugsun að segja við gaurinn að þú hafir verið að feika það hingað til (ef það er málið) - en samt er það líklega betra en að halda áfram að feika. Ef hann er ástfanginn eða a.m.k. lostfanginn af þér og almennilegur gaur, verður hann örugglega til í að vinna í málinu með þér. Mundu líka (og minntu hann á) að 74% kvenna þurfa öfluga örvun á sníp til að fá fullnægingu og það er þess vegna óeðlilegra að konur fái það í inn-út-inn-út samförum einum saman. Leyfðu honum að vera með þegar þú fróar þér - ef það gengur ekki að hafa hann nálægt gætirðu prófað að byrja með hann frammi í stofu… svo smám saman leyft honum að fikra sig nær þar til hann er kominn upp í til þín og tekur þátt. Þá er ég að tala um nokkur skipti… ekki að hann læðist úr stofunni eins upp í til þín eins og graður Mikki refur. 

Tölum þá aðeins um næmnina. Það er dásamlegt að eldast en örfáir fylgifiskar eru pirrandi, til dæmis ógeðslegu hörðu kerlingahárin sem sumar konur fá á hökuna og svo rýrnun slímhúða í kynfærum sem getur haft neikvæð áhrif á næmni. Þetta gerist oft um og eftir tíðahvörf og er orsakað af lækkun á magni kvenhormóna í líkamanum. Þú getur unnið gegn þessum breytingum og stuðlað að heilbrigði slímhúðanna með því að vera dugleg að stunda kynlíf - með sjálfri þér eða lovernum. Þetta er í raun dálítið „use it or lose it” fyrirbæri. Blóðflæði til kynfæranna sem fylgir greddu hefur nefnilega örvandi áhrif á slímhúðir og er mikilvægur þáttur í að viðhalda þeim. Ef þér finnst núningur óþægilegur gætir þú prófað að nota sleipiefni, ef þig vantar öflugri örvun eru titrarar fyrirtak og ef þetta er að gera þig brjálaða hvet ég þig til að leita aðstoðar heimilis- eða kvensjúkdómalæknis sem geta t.d. skrifað upp á krem sem innihalda hormón og hjálpa sumum. 

Góðar stundir,

Ragga

Ragnheiður Eiríksdóttir

www.raggaeiriks.com

www.raggaknits.com

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Röggu spurningu HÉR. 

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur.
Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál