Gott sjálfstraust fleytir þér lengra

Pixabay

Gott sjálfstraust er lykillinn að góðri andlegri líðan og er hlutur sem þarf að vinna stöðugt í. Að stíga út úr þægindahringnum, eða að þora að gera það sem maður hræðist, hjálpar okkur að öðlast meira sjálfstraust.

Sjálfsöruggt fólk á nokkra hluti sameiginlega varðandi hvernig það hagar lífi sínu en vefsíða The Mind Unleashed nefnir 15 atriði sem fólk með sjálfstraustið í lagi gerir ekki.

1. Búa til afsakanir. Fólk með gott sjálfstraust stendur með eigin hugsunum og gjörðum. Því finnst það ekki þurfa að koma með afsakanir fyrir hinu og þessu. Það kennir umferðinni ekki um að það mætti seint í vinnuna en segist heldur einungis hafa orðið seint. Fólk með gott sjálfstraust afsakar sig ekki með að það hafi ekki tíma eða sé ekki nógu gott til að geta gert eitthvað heldur býr til tíma og gerir sig nógu gott til að ná markmiðinu.

2. Forðast hluti. Sjálfsöruggt fólk lætur ekki hræðslu stjórna lífi sínu. Það veit að hlutirnir sem það er hrætt við eru þeir hlutir sem það þarf að kljást við til að þroskast sem manneskjur.

3. Lifa í þægindakúlu. Fólk með mikið sjálfsálit heldur sig ekki inni í þægindahringnum heldur sækir í óþægindi vegna þess að það veit að stækka verður þægindahringinn til að ná árangri.

4. Fresta hlutunum. Fólk með gott sjálfstraust veit að það borgar sig að skipuleggja sig og nýta tímann vel. Það bíður ekki eftir réttri tímasetningu eða réttum kringumstæðum vegna þess að það veit að þannig viðhorf er byggt á hræðslu við breytingar. Taktu af skarið, hér og nú, í dag og þá nærðu árangri.

5. Fá skoðanir annarra á heilann. Fólk með gott sjálfsálit fær ekki skoðanir annarra á heilann og veltir sér ekki upp úr neikvæðni annarra. Sjálfsöruggt fólk veit hverjir raunverulegir vinir þess eru og að þeir muni taka því eins og það er og því er sama hvað öðrum finnst.

6. Dæma annað fólk. Fólk með gott sjálfstraust dæmir ekki annað fólk, það finnur ekki þörfina til að baktala aðra til að láta sér líða betur og tekur ekki þátt í slúðri um samstarfsfélagana né talar illa um annað fólk vegna skoðana þess. Sjálfsöruggu fólki líður vel í eigin skinni og finnur enga þörf fyrir að líta niður á annað fólk.

7. Láta efnisskort stoppa sig. Sjálfsöruggt fólk getur notað það sem til er til að klára verkefnin. Það veit að allt er mögulegt með sköpunargáfu og ef það neitar að gefast upp. Sjálfsöruggt fólk veltir sér ekki upp úr mistökum heldur einbeitir sér að því að finna lausn.

8. Gera samanburð. Sjálfsöruggt fólk ber sig ekki við aðra og veit að það er ekki að keppa við annað fólk. Fólk með gott sjálfsálit keppir aðeins við sjálft sig og einbeitir sér að því að bæta sig.

9. Reyna að gera fólki til geðs. Fólk með gott sjálfsálit reynir ekki að gera öðru fólki til geðs. Það veit að það kemur ekki öllum vel saman og að þannig er lífið einfaldlega. Sjálfsöruggt fólk einbeitir sér að því að styrkja þau sambönd sem eru þess virði í stað þess að reyna að stofna til eins margra sambanda og hægt er.

10. Þurfa stöðuga hvatningu. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki stöðuga hvatningu og getur staðið á eigin fótum. Það veit að lífið er ekki alltaf sanngjarnt og að hlutirnir munu ekki alltaf fara eins og það hefði viljað. Þar sem það veia að það getur ekki stjórnað lífinu einbeitir það sér að eigin viðbrögðum við hlutunum.

11. Forðast óþægilegan sannleik. Fólk með gott sjálfstraust tæklar vandamál lífsins strax áður en þau verða stærri. Það veit að vandamálin sem liggja óleyst verða stærri með tímanum ef ekki er tekist á við þau. Þannig tæklar það vandamálin um leið og þau koma upp.

12. Gefast upp. Sjálfsöruggt fólk gefst ekki upp vegna smávægilegra mistaka. Það stendur upp þegar það dettur og heldur áfram. Það veit að mistök eru hluti af þroskaferlinum og reynir aftur ef því mistekst og leitar betri lausna.

13. Þurfa leyfi til að athafast. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki leyfi frá öðrum til að gera það sem það vill gera án þess að hika. Það veit að það þarf ekki að biðja stöðugt um leyfi til að geta gert hitt og þetta.

14. Takmarka sig við lítinn verkfærakassa. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki að skuldbinda sig við fyrstu áætlunina sem það gerði. Það notar fyrstu áætlunina en notar einnig öll vopn sem verða á vegi þess til að ná settu marki og lætur reyna á virkni þeirra þar til það kann öll herkænskubrögðin sem þarf til að klára verkefnið.

15. Efast ekki um það sem það les. Sjálfsöruggt fólk tekur ekki allt sem heilagan sannleik, sérstaklega ekki það sem það les á netinu. Sjálföruggt fólk les greinar og trúir þeim ekki endilega einungis vegna þess að einhver höfundur segir þær sannleik. Sjálfsöruggt fólk skoðar lesefnið út frá eigin sjónarhorni og efast skynsamlega um það sem greinin segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál