Hættu að flýja vandamálin

Ljósmynd/Pixabay

Vefsíðan Collective Evolution nefnir 15 atriði sem við verðum að hætta að gera sjálfum okkur. Þar á meðal eru hlutir eins og að hætta að fresta hlutunum, hætta að hafa væntingar til annarra og hætta að láta fortíðina hafa áhrif á nútíðina. 

Lífið verður mikið flóknara og erfiðara ef fólk fer ekki vel með sjálft sig og hugar vel að því hvort það sé hreinskilið við sjálft sig og aðra. Eftirtalin atriði ættir þú að forðast til að eiga betra líf.

1. Hættu að flýja vandamál þín. Þú getur ekki flúið vandamál þín endalaust og því lengra sem þú bíður með að kljást við þau því erfiðara verður það á endanum. Verkefnin koma upp af ástæðu og eins erfið og mörg þeirra geta verið gefa þau þér alltaf tækifæri til að verða sterkari og betri útgáfa af sjálfri/um þér. Frelsistilfinningin er einnig dásamleg sem því fylgir að kljást við eitthvað sem þú hefur frestað lengi eða verið hrædd/ur við að kljást við.

2. Hættu að ljúga að sjálfri/um þér og öðrum. Lygin vindur alltaf upp á sig þannig að best er að segja bara sannleikann alveg frá upphafi. Við ljúgum að öðrum en við ljúgum líka að okkur sjálfum til að vernda eigið egó. Ef þú veist að þú ert að ljúga að sjálfri/um þér veistu um leið að þú ert í afneitun. Mundu það að fortíðin skilgreinir þig ekki og hún gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert í dag.

3. Hættu að láta hræðsluna við að mistakast hindra þig í að gera eitthvað. Mistök geta verið leiðinleg reynsla en mistök eru aldrei afsökun fyrir að hindra þig í að gera eitthvað sem þig langar til að gera. Við vitum öll að við lærum af mistökunum og lærum einnig af því að stíga út fyrir þægindahringinn og gera eitthvað nýtt og öðruvísi.

4. Hættu að bera þig saman við aðra. Hvort sem það er fræg persóna, vinur, systkini eða samstarfsmaður eigum við það til að bera okkur og okkar aðstæður saman við aðra. Grasið mun alltaf virðast grænna hinum megin. Settu fókuspunktinn á þitt eigið líf - ekki líf annarra. Þá muntu finna frið í sálinni og upplifa raunverulega hamingju. 

5. Hættu að lifa í framtíðinni. Það skiptir ekki máli um hvað þú ert að hugsa sem tengist framtíðinni. Reyndu að stilla framtíðarvæntingum í hóf og reyndu að njóta nútíðarinnar. Við verðum aldrei yngri en við erum í dag og það er góð ástæða til að framkvæma hlutina núna. Ekki er endilega nauðsynlegt að hætta að gera framtíðarplön en fólk ætti að einbeita sér meira að nútíðinni og leyfa framtíðinni að verða eins og hún verður.

6. Hættu að reyna að láta annað fólk vorkenna þér. Engum líkar vel við neikvætt fólk eða bölsýnt. Hins vegar eiga mörg okkar til að deila aðeins því neikvæða. Þó að það láti okkur líða vel að kvarta við aðra og fá smásamúð mun kvart og væl ekki gera neitt til að laga vandamálið. Sættu þig við það sem er að angra þig og haltu áfram í stað þess að velta þér endalaust upp úr sögum og tilfinningum um málið.

7. Hættu að lifa í fortíðinni eða bæta fyrir það sem gerðist í fortíðinni. Fortíðin skilgreinir okkur ekki.  Eins gaman eða sársaukafullt og það er að rifja upp fortíðina skiptir hún ekki máli lengur, nútíðin skiptir aðeins máli. Reyndu að einbeita þér frekar að því sem er að gerast í þínu lífi núna frekar en einhverju gömlu.

8. Hættu að fresta hlutunum. Ekki vera löt/latur og framkvæmdu hlutina í dag. Þannig muntu verða framtakssamari og finna þannig meiri hvatningu til að gera fleira.

9. Hættu að kenna öðrum um. Ekki leika stöðugan fórnarlambsleik þar sem þú ert fórnarlamb aðstæðna, annarra manneskja eða tilfella. Taktu ábyrgð á sjálfri/um þér og ekki benda á aðra. Þannig finnurðu að þú hefur meiri stjórn í eigin lífi og munt verða sjálfsöruggari.

10. Hættu að láta fortíðina ákvarða hvernig þú hugsar um aðra. Þó að manneskja hafi verið asni í samskiptum við þig fyrir þremur árum þýðir það ekki að hún sé eins í dag. Ekki dæma fólk eftir því hvernig það var einu sinni. Notaðu eigin dómgreind um hvaða fólk þú vilt umgangast þig og ekki láta fortíðina hafa áhrif á það val.

11. Hættu að hafa væntingar til hlutanna áður en þeir gerast. Ímyndunaraflið á það til að hlaupa með okkur í gönur og stundum vilja væntingar okkar verða of miklar og óraunhæfar. Ef þú hefur miklar væntingar til einhvers muntu líklega verða vonsvikinn ef þessar væntingar verða ekki uppfylltar. Fólk hefur sagt að það besta sem hafi hent það gerist þegar þau búast síst við því. Hvernig væri að hætta að hafa væntingar yfir höfuð? Lifðu í núinu og finndu frelsið sem fylgir því að hafa engar væntingar.

12. Hættu að leita að einhverjum fullkomnum. Ekki eru aðeins skoðanir á hvað fullkomið er litaðar af skemmtanabransanum og fjölmiðlum heldur eru þær einnig síbreytilegar. Þannig er það nánast ómögulegt að standast þær kröfur sem við stundum setjum á annað fólk um að vera fullkomið. Í stað þess að leita að hinum fullkomna maka reyndu að finna hvað það er sem þú þarft til að finnast þú sjálf heil/l. Mundu að ástina er hægt að finna á ótrúlegustu stöðum.

13. Hættu að reyna að vera einhver sem þú ert ekki. Hvort sem þú ert undir áhrifum vinsællar skoðunar eða ert að reyna að heilla einhvern erum við ekki að gera neinum greiða með því að þykjast vera önnur en við erum. Ef þú öðlast eitthvað með því að vera eitthvað annað en þú ert ertu að gera það á fölskum forsendum og það mun aðeins koma í bakið á þér seinna. Einbeittu þér að því hver þú ert í raun og reyndu að finna hvað það er sem þú virkilega vilt fyrir þig.

14. Hættu að ásaka þig. Við erum okkar eigin versti óvinur. Hvað sem það var sem gerðist í fortíðinni þjónar það engum tilgangi að ásaka sjálfan sig endalaust. Það sem gerðist í fortíðinni á ekki að vera böggull að bera í framtíðinni. Reyndu að komast yfir atburðinn og haltu áfram.

15. Láttu orðin verða að veruleika. Það er ekki nóg að vera sammála öllu sem fram kom hér að ofan og segjast ætla að gera eitthvað í hlutunum. Þú verður að athafast svo að eitthvað breytist til hins betra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál