15 kílóum léttari og hleypur í maraþoni

Margrét Gauja Magnúsdóttir hefur sjaldan liðið betur.
Margrét Gauja Magnúsdóttir hefur sjaldan liðið betur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, er 15 kílóum léttari eftir að hún og þingmaðurinn Katrín Júlíusdóttir ákváðu snúa vörn í sókn og byrja saman í einkaþjálfun hjá Elmari Frey Elíassyni í Sporthúsinu.

„Ég og Katrín Júlíusdóttir vinkona mínum sátum tvær eitt kvöldið og drukkum rauðvín og vorum svolítið að væla yfir því hvað við værum þreyttar og ættum erfitt með að ná af okkur meðgöngukílóunum. Við vorum sammála um að okkur leiddist þetta og þetta kvöld var ákveðið að hafa samband við Elmar en Katrín hafði verið hjá honum áður og náð toppárangri,“ segir Margrét Gauja. Þessa kvöldstund í janúar var ákveðið að heilsubyltingin myndi hefjast 1. febrúar. Þegar sá dagur rann upp var Margrét Gauja ekki jafn kokhraust og með tárin í augunum smellti hún sér í íþróttaföt af manninum sínum, því hún átti engin sjálf, og dreif sig af stað.

Þær Katrín mættu tvisvar í viku til Elmars en þess á milli æfðu þær sjálfar, fóru í hóptíma og svo lét Margrét Gauja gamlan draum rætast og byrjaði að hlaupa úti. Nú er svo komið að hún er búin að skrá sig í 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. „Í vetur var markmiðið að hlaupa 10 km á 90 mínútum en nú er ég búin að skipta um skoðun og ætla að reyna að komast þessa vegalengd á 70 mínútum. Ég hef einu sinni hlaupið 10 km og það var frábært. Ég verð samt að játa að ég er ekki hraðskreiðasti hlaupari landsins,“ segir Margrét Gauja en hraðinn skiptir engu máli. Það er að komast í mark og auðvitað að safna áheitum en hún ætlar einmitt að hlaupa til styrktar Íþrótta- og afrekssjóði Hrafnkels Kristjánssonar.

Þó svo að það hafi allt gengið súpervel hjá Margréti Gauju síðan í febrúar má segja að þetta heilsuferðalag hennar hafi byrjað í október í fyrra þegar gallblaðran í henni var fjarlægð. „Gallblaðran var búin að vera að hefta mig og mér fannst ég ekki komast úr sporunum. Um leið og hún var fjarlægð opnaðist nýtt líf og ég fann í kjölfarið að mig langaði að fara að æfa og breyta öllu,“ segir hún. Þegar Margrét Gauja er spurð að því hvernig líf hennar hafi breyst eftir að hún byrjaði að æfa reglulega og hugsa betur um sig segir hún að líf hennar hafi í raun umturnast.

„Ég er miklu glaðari, orkumeiri, sef betur og höndla álag miklu betur. Auk þess breytti ég mataræðinu og stærsta breytingin er líklega sú að ég hætti að drekka. Ég prófaði að fá mér smárauðvín um daginn og þá rifjaðist það upp fyrir mér hvers vegna ég vil sleppa því. Svo er ég dugleg að búa mér til sjeika og er passasöm að borða ekki of mikið af kolvetnum. Ég er til dæmis hætt að kúffylla diskinn og borða mig aldrei pakksadda - eða þreytta,“ segir hún. Áfengisleysið, holla mataræðið og hreyfingin hefur gert það að verkum að Margrét Gauja hefur lést um 15 kíló síðan í febrúar og í raun um 20 kíló frá því fyrir ári

„Þetta er ekki búið að vera neitt töfrabragð, ég tek járn og liðamín og passa upp á mig. Fyrir mig eru æfingarnar svolítið eins og AA fundur. Þegar ég er búin á æfingu langar mig bara í salat og hollan mat og þannig hefur þetta jákvæð andleg áhrif.“

Þegar Margrét Gauja er spurð að því hvað hún hafi lært af þessu heilsuferðalagi sínu segir hún að mikilvægasta lexían hafi verið að setja sjálfa sig í forgang. Um þessar mundir er hún að pakka saman dótinu sínu því stefnan er tekin á Höfn í Hornafirði.

„Það er hlaupahópur á Hornafirði og ég er búin að skrá mig í hann og svo er stefnan sett á Sporthöllina og Elmar ætlar að halda áfram að fylgjast með mér.“

Smelltu HÉR til að styrkja Margréti Gauju í Reykjavíkurmaraþoninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál