Er stressið að fara með þig?

Ljósmynd/Wikipedia

Stress og vinnuálag hefur verið töluvert í umræðunni en talið er að stressið sem er að hrjá fólk sé heilsuspillandi. Samkvæmt heimildum breska vefsins Daily Mail eykur stress á vinnustað líkur á að fólk fái sýkursýki tvö - jafnvel þótt fólk lifi ákaflega heilsusamlegu lífi.

Rannsóknin sýndi fram á að þeir sem eru undir hvað mestu stressi eru 45% líklegri til að fá sykursýki tvö ásamt því að áhættan á hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og blindu eykst.

Þrjár milljónir manna þjást af sykursýki og fá meðferð gegn henni í Bretlandi en 90% þeirra þjást af sykursýki tvö. Talan gæti orðið fjórar milljónir fyrir árið 2025 og fimm milljónir árið 2030 ef ekkert breytist.

Rannsóknina gerði stofnunin Institute of Epidemiology í Munich í Þýskalandi en 5.337 einstaklingar á aldrinum 29 til 66 ára tóku þátt í rannsókninni en allir þátttakendur voru í fullri vinnu.

BMI stuðullinn allra einstaklinganna var reiknaður ásamt því að sjúkrasaga fjölskyldu þeirra sem við átti hverju sinni var skoðuð. Þátttakendur voru einnig látnir svara spurningum um hversu stressandi aðstæður þeirra voru í vinnunni.

Rannsóknin stóð yfir í tólf ár en niðurstöður rannsóknarinnar segja að um 300 manns, sem áður voru heilbrigð, þróuðu með sér sykursýki tvö á þessum tólf árum.

Þegar rannsakendur báru niðurstöðurnar saman við stressið í vinnunni komust þeir að því að þeir sem voru undir mestu álagi voru 45% líklegri til að þróa með sér sykursýki.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Psychosomatic Medicine en einn rannsakendanna, prófessor Karl-Heinz Ladwig sagði að samkvæmt þeirra skrám segðu tölurnar fyrir um að einn af hverjum fimm finni fyrir miklu stressi í vinnunni.

Þrátt fyrir að þátttakendur voru með eðlilegan BMI stuðul var stress stór áhættuþáttur í því að fólk þróaði með sér sykursýki.

Þá er talið líklegt að stresshormón geti komið glúkósaforða líkamans í ójafnvægi en hár blóðsykur getur raskað eðlilegu blóðflæði líkamans og skaðað helstu líffæri hans.

Einnig er talið að um 600.000 Bretar þjáist af sykursýki án þess að vita það, hugsanlega vegna þess að þeir þekki ekki einkennin en helstu einkenni sykursýki eru þreyta, þorsti, tíð þvaglát og sár sem eru lengi að gróa.

Sykursýki tvö var áður fyrr aðallega greind hjá miðaldra fólki en sést nú hjá fólki á tvítugs- og þrítugsaldri.

Dr. Alasdair Rankin, forstjóri rannsóknardeildar hjá góðgerðarsamtökunum Diabetes UK í Bretlandi, segir að vísindamenn séu byrjaðir að rannsaka tengsl vinnuálags og langra vinnutíma við sykursýki en að þörf sé á frekari rannsóknum tengdum vinnuálagi og sykursýki tvö.

Hann segir mikilvægt að halda stressinu í lágmarki á vinnustaðnum og að besta leiðin til að minnka líkur á sykursýki tvö sé að halda sér í kjörþyngd, borða hollt og hreyfa sig reglulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál