Er eðlilegt að hafa ekki hægðir í átta daga?

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ætlar þú í einn kúrinn enn? spyr Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti í sínum nýjasta pistli. Hún segir að fólk sé komið með nóg af öllum þessum kúrum og segir það orðið mjög ráðvillt þegar kemur mataræðis-pælingum sem hafa verið í gangi.

„Mér telst svo til að kúrarnir sem voru vinsælastir síðastliðinn vetur hafi verið 5 eða 6, jafnvel fleiri og það líta alveg örugglega einhverjir nýir dagsins ljós nú á haustmánuðum. Allir hljóma þeir upp á boð og bönn eins og kúra er siður. Semsagt það má ekki borða þessa og hina fæðuna eða jafnvel heilu fæðuflokkana. Þeir miða einnig allir að því að fólk grennist og þá á öllum að líða geðveikt vel,“ segir hún og játar að hún sé svolítið búin að fá upp í kok af þessu öllu saman. 

„Í fyrsta lagi eru kúrar aldrei góðir til lengdar, það endar alltaf með því að fólk hættir á þeim og hvað þá?Þekkið þið einhvern sem byrjaði á Atkins kúrnum árið 1999 og er enn á honum með góðum árangri? Er virkilega einhver sem enn nennir að sleppa því að fá sér hrökkbrauð eða hafragraut annað slagið (bara dæmi)?

Í öðru lagi, þá er fókusinn allt of mikill á það að grenna sig, en það gleymist að huga að heilsunni. Ég hitti um daginn konu sem er á LKL. Hún trúði mér fyrir því að hún hefði ekki haft hægðir í 8 daga! Ég spurði hana hvers vegna í ósköpunum hún hætti ekki á þessu mataræði og byrjaði að borða eitthvað sem henti henni betur. Þá sagði hún orðrétt „ertu galin, ég ætla að léttast“! Það þarf varla að taka fram að þessi ágæta frú var ekkert að fara að léttast.“

Inga segir að auðvitað sé alveg til fólk sem hefur fundið sína hillu inna kúrasamfélagsins.

„Að sjálfsögðu eru auðvitað fjölmargir sem hafa fundið sitt, fara eftir einhverjum ákveðnum leiðbeiningum varðandi mataræði og líður óhemju vel. Það eru þó oftar en ekki þeir sem hafa lagt í þá vinnu að kynnast eigin líkama, hvað hann þolir og þolir ekki, hvað hentar þeim. Flestir sem náð hafa slíkum árangri, velja líka úr það sem þeim hentar best en fara ekki í blindni eftir einhverjum „má“, „má ekki“ lista.

Ég veit þó líka vel, að þeir sem hafa náð jafnvægi, hafa oft einmitt byrjað á einhverjum kúrum, til þess einmitt að kynnast sjálfum sér betur.

Í mínu námi vorum við krafin um að prófa hitt og þetta mataræði, fara í allar öfgarnar og kúrana. Það er nauðsynlegt fyrir næringarþerapista að hafa prófað þetta allt og mikið leið manni ömurlega á stundum. Ég gæti til dæmis aldrei verið hráfæðis eða grænmetisæta, það hentar mér ekki. Það hentar hins vegar mörgum vinum mínum vel.“

Hér fyrir neðan eru 5 heilsuráð sem Inga segir að virki best:

*Lærðu að þekkja eigin líkama og sál, taktu eftir hvernig þér líður. Hvernig þú ferð að þessu er þitt val, en ráðgjöf kemur sér oftast vel.

*Vertu vakandi fyrir einkennum sem geta stafað af neyslu ákveðinna fæðutegunda.

*Vertu heiðarleg/ur við sjálfan þig, flestir vita vel hvað hentar þeim illa, en hlusta ekki á það.

*Vertu góð/ur við sjálfa/n þig og veldu þér fæðu sem er hrein og óunnin og gættu hófs í neyslu á óhollustunni.

*Vertu sjálf/ur við stýrið og veldu fyrir þig, í stað þess að láta aðra gera það. Þú ert eigin framkvæmdarstjóri!

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál