Þjálfaðu jákvæða hugsun

Ljósmynd/Pixabay

Við höfum öll okkar eigin leiðir til að vinna á stressi en því miður eru ekki allar þessar aðferðir okkar heilsueflandi. Þegar við verðum stressuð eða lendum í erfiðum aðstæðum eigum við það til að segja neikvæðar athugasemdir við okkur sjálf í  huganum á borð við „hvers vegna er ég alltaf svona óheppin/n“, „hvernig gat ég verið svona heimsk/ur?“ eða annað ljótt.

Ef þú vilt læra góðar aðferðir til að kljást við stress þarftu að bera kennsl á þitt eigið hugarmunstur sem sýnir hvernig þú talar við sjálfan þig í huganum og skipta því út fyrir mun jákvæðari athugasemdir.

1. Þjálfaðu þig í að hugsa jákvætt. Það sem skilgreinir jákvæða manneskju frá neikvæðri er hvernig manneskjurnar segja frá góðri og slæmri reynslu. Viðhorfið er það sem skiptir hér mestu máli. Í stað þess að kenna öðrum um skaltu gera þér grein fyrir því að allir gera mistök, í stað þess að reiðast skaltu fyrirgefa og í stað þess að vera vond/ur  við sjálfa/n þig þegar þér gengur illa skaltu gera þér grein fyrir því að þú gerðir þitt besta.

2. Talaðu góðlega við sjálfa/n þig í huganum. Stöðugt samtal á sér stað í huganum okkar og það sem við segjum við okkur sjálf hefur áhrif á undirmeðvitundina. Til að halda jákvæðum huga er nauðsynlegt að þú stoppir þig af þegar þú byrjar að tala neikvætt til þín í  huganum. Gerðu þér grein fyrir því hvernig þú talar við þig í huganum og vinndu markvisst að því að breyta samtalinu í jákvæðar athugasemdir frekar en neikvæðar. Tvær góðar leiðir til að venja sig á jákvæðar athugasemdir er að spyrja jákvæðra spurninga og svara þeim á jákvæðan hátt.

3. Spurðu betri spurninga. Öflug aðferð til að laga samtalið í huganum svo að það verði á jákvæðari nótum og þar af leiðandi geri lífið betra er að spyrja réttra spurninga eins og til dæmis „hvað get ég lært af þessum aðstæðum?“ eða „hvað get ég gert til að gera aðstæðurnar betri?“ Ef þú vilt hamingju í líf þitt er einnig nauðsynlegt að þú spyrjir þig við og við hvað geri þig hamingjusama/n í lífinu þessa dagana og hvers vegna það geri þig hamingjusama/n.

4. Endurtaktu stuttar jákvæðar setningar í huganum. Undirmeðvitund okkar er flókið fyrirbæri en það hefur sýnt sig að ef við segjum stuttar, jákvæðar setningar við okkur sjálf í huganum á borð við „ég get þetta!“, „ég er þakklát/ur fyrir allt það sem ég hef í mínu lífi“ eða annað sem er á jákvæðum nótum þá líður okkur betur og sköpum um leið betri sjálfsmynd.

5. Settu þér jákvæð markmið. Góð leið til að byggja upp jákvæðara viðhorf og betra sjálfstraust er að setja sér markmið. Okkur líður vel þegar við náum markmiðum okkar og því betur sem okkur líður með okkur sjálf, því líklegara er að við náum markmiðum okkar.

Betra er að orða markmiðið á jákvæðan máta en ekki neikvæðan, til dæmis markmiðið „ég ætla að borða hollan og næringarríkan mat“ í stað þess að hafa það að markmiði að ætla ekki að borða ís, nammi, eða annan óhollan mat. Ef þú orðar markmiðið á neikvæðan hátt ertu stöðugt að einbeita þér að því sem þú vilt ekki gera og þar af leiðandi eru meiri líkur á að þú gerir það, þar sem það var þér stöðugt efst í huga.

Settu þér raunhæf markmið og mundu að margt smátt gerir eitt stórt.

Vertu nákvæm/ur í markmiðasetningunni vegna þess að því betur sem þú útlistar markmiðið því meiri líkur eru á því að þú náir því.

Orðaðu markmiðið í nútíð, líkt og þú værir nú þegar búin/n að ná því. Til að ná markmiðinu verður þú að trúa því af öllu hjarta að þú getir náð því. Ímyndaðu þér að þú hafir nú þegar náð markmiðinu, hvernig tilfinningin er, hvar þú ert stödd/staddur og jafnvel í hvaða fötum þú ert en ef þú sérð stöðugt fyrir þér að þú hafir nú þegar náð markmiðinu nálgastu það hraðar á hverjum degi.

Brjóttu stór markmið niður í mörg minni markmið. Þannig nærðu stóra markmiðinu með mörgum minni markmiðum, hægt og rólega. Spurðu þig á hverjum morgni og hverju kvöldi „hvað verð ég að gera til að ná langtímamarkmiðinu mínu?“

6. Æfðu þig í að sjá fyrir þér hlutina. Margir trúa því að við verðum að geta séð fyrir okkur hvernig líf við viljum áður en það verður eins og við viljum að það sé. Notaði ímyndunaraflið og sjáðu fyrir þér þá hluti sem þú vilt í lífinu, hvernig þú vilt verða, hvernig þú vilt að líf þitt sé og hvar þú sért stödd/staddur í lífinu. Áður en þú veist af ertu komin/n á áfangastað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál