10 slæmir ávanar sem fara illa með þig

Of mikið af ruslfæði á okkar yngri árum hefur slæm …
Of mikið af ruslfæði á okkar yngri árum hefur slæm áhrif á heilsuna til frambúðar. Ljósmynd/Pixabay

Líf fólks á þrítugsaldri er yfirleitt ævintýri líkast. Fólk er að stíga sín fyrstu skref og æfa sig í að vera fullorðið. Fólk á þrítugsaldri fer í nám, stígur sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum, flytur að heiman og finnur ástina svo eitthvað sé nefnt. Stundum er svo margt í gangi hjá þessum markhópi að hann hefur bara engan tíma í að hugsa um heilsuna. Þegar horft er til framtíðar gefur það augaleið að fólk getur ekki haldið sama lífsstílnum út ævina nema illa fari á einhverjum tímapunkti. 

1. Reykingar. Margt ungt fólk byrjar að reykja vegna félagsskaparins sem því fylgir en reykingar hafa mjög slæm áhrif á heilsu okkar til lengdar. Afleiðingar reykinga eru meðal annars lungnasjúkdómar, hjartasjúkdómar og krabbamein. Reykingar geta einnig flýtt fyrir hrukkumyndun og gráum hárum. Jafnvel þeir sem reykja stöku sinnum, svo sem bara á djamminu, eiga einnig á hættu að fá þessa sjúkdóma.

2. Of mikið af sólböðum. Áhrif sólarinnar á húðina eru ekki öll góð og geta sum hver verið hættuleg. Til dæmis færðu fleiri hrukkur og húðbletti á andlit og líkama ef þú notar ekki sólarvörn. Húðkrabbamein er afleiðing of mikilla sólbaða eða of mikilla ferða á sólbaðsstofur en mikilvægt er að hafa alltaf sólarvörn. Þeir sem telja hættuleg efni vera í sólarvörn geta keypt náttúrulegri og lífrænni sólarvörn sem til er á markaðnum.

3. Ofdrykkja. Of mikil drykkja áfengis getur valdið lifrarskemmdum seinna meir. Þegar fólk drekkur mikið af áfengi á föstudegi eða laugardegi þarf lifrin að vinna meira en aðra daga og getur ekki unnið eins og hún á að gera. Lifrin sér um að hreinsa líkamann en þegar konur fá sér meira en þrjá drykki og karlmenn meira en fimm drykki er álagið á lifrina orðið of mikið. Mundu að þú átt bara eina lifur og þú verður að fara vel með hana.

4. Að stunda óvarið kynlíf. Óvarið kynlíf einu sinni gæti hljómað saklaust og freistandi en er í raun hættulegra en margir gera sér grein fyrir. Kynsjúkdómar eins og HIV, herpes og klamydía eru meðal þess sem þú gætir smitast af. Þegar þú finnur fyrir lönguninni að stunda óvarið kynlíf minntu þig þá á að þú átt eftir að lifa lengi og vilt ekki hætta á neitt.

5. Að sleppa svefni. Sumt ungt fólk á það til að sofa lítið eða sleppa því að sofa. Margir drekka jafnvel orkudrykki til að halda sér lengur vakandi en án nægs svefns byrjar líkaminn að hrörna og ónæmiskerfið og heilastarfsemin bíður hnekki. Passaðu að svefnmunstrið sé eðlilegt en það mun fyrirbyggja sjúkdóma seinna á ævinni.

6. Að hreyfa sig ekki nóg. Ef þú lifir kyrrsetulífi eru meiri líkur á að þú þróir með þér sykursýki, fáir hjartasjúkdóma eða þjáist af of háum blóðþrýsting. Stundaðu heilbrigða hreyfingu strax á þrítugsaldrinum, ef ekki fyrr, og þá eru minni líkur á því að þú fáir hjartasjúkdóma eða aðra kvilla. Þrjátíu mínútur af hreyfingu, til dæmis göngu eða skokki, þrisvar í viku er góð byrjun.

7. Að leyfa stressi að yfirtaka líf þitt. Gerðu það að markmiði þínu að læra aðferðir sem virka fyrir þig til að minnka stress. Krónískt stress getur valdið kvíða, þunglyndi, meltingarvandamálum og fleiri kvillum. Þú getur haldið stressinu í skefjum með því að stunda jóga, hugleiðslu eða gera öndunaræfingar. Lífið er alltaf stressandi inn á milli en aðalmálið er að kunna að eiga við stressið.

8. Að forðast læknisheimsóknir. Hvers vegna ætti heilbrigð ung manneskja að fara til læknis? Við vitum aldrei fullkomlega hvort við erum heilbrigð eða ekki nema við kíkjum til læknis við og við. Kíktu reglulega til heimilislæknisins, farðu í blóðprufu, farðu í krabbameinsskoðun, til augnlæknis og tannlæknis reglulega. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum.

9. Að borða ruslfæði. Þegar lífið er fullt af skemmtilegum viðburðum er auðveldara að grípa með sér tilbúinn mat en að elda sjálfur eða hugsa almennilega út í það sem maður lætur ofan í sig. Ruslfæði er oftast fullt af mettaðri fitu sem byggir upp kólesterólvegg í hjartanu. Snakk er til dæmis mjög ávanabindandi og fullt af óhollum og stundum eitruðum innihaldsefnum. Ef þú stundar óheilbrigðan lífsstíl á yngri árum eykurðu hættuna á að fá hjartasjúkdóma seinna á ævinni. Lykillinn er að borða nóg af ávöxtum, grænmeti og hollum próteinum.

10. Að halda að maður viti allt. Enginn getur vitað allt en ungt fólk á það til að halda að það viti allt vegna þess að það er búið að mennta sig vel og telur að það geti vitað allt í öllum mögulegum aðstæðum. Ungt fólk skapar framtíðina, svo mikið er víst, en það er óhugsandi að einn einstaklingur geti vitað allt. Hugsaðu um þá sem ruddu brautina og fáðu ráðleggingar hjá þeim. Passaðu að halda ekki að þú vitir alltaf betur en þeir sem eldri eru.

Heimild: Mind Body Green.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál