Ferðu nógu vel með þig?

Ljósmynd/Pixabay

Til að líða vel þarf að huga að heilsunni og borða hollan og næringarríkan mat. Þegar fólk er ekki upp á sitt besta er mikilvægt að hvíla sig frá neikvæðum fréttum í fjölmiðlum og gera bara það sem gerir manni gott. Hér fyrir neðan eru talin upp nokkur atriði sem ættu að hressa þá við sem eru orðnir leiðir á tilverunni og þurfa aðeins að hugsa sinn gang. 

Hugleiðsla. Hugleiðsla lækkar blóðþrýstinginn, minnkar kvíða og eykur heilastarfsemi í vinstra heilahveli sem tengist jákvæðum tilfinningum og hamingjutilfinningu, að því er fram kemur í rannsókn sem gerð var á vegum University of Wisconsin. Hugleiddu í nokkrar mínútur á dag og það mun gefa þér skýrari hugsun auk þess að veita þér hugarró og meiri jákvæðni.

Jóga. Rannsóknir hafa sýnt fram á að jógaástundun eykur framleiðslu serótóníns í heilanum en það veldur hamingjutilfinningum og almennri andlegri velferð. Jógateygjur og -styrktaræfingar valda því að líkami þinn slakar betur á og þér líður betur í eigin skinni. Frábær leið til að losa um stress á kvöldin eða byrja daginn er að gera nokkrar teygjur eða jógastellingar.

Félagsstörf. Þeir sem eiga í miklum samskiptum við fólkið í lífi sínu eru langtum líklegri til að líða vel andlega en þeir sem eiga í litlum samskiptum við þá sem skipta máli í þeirra lífi. Ef við höfum góðan stuðning á bak við okkur hjálpar það okkur að eiga við stress og erfið viðfangsefni í lífinu og veitir okkur þá tilfinningu að við eigum heima einhvers staðar og gefur okkur tilgang ásamt því að bæta sjálfstraust. Einnig hefur snerting mikið að segja um andlega heilsu okkar en þegar við föðmum einhvern flæðir oxítósín um líkamann sem vekur tilfinningu um öryggi.

Áhugamál. Það er mikilvægt og nauðsynlegt fyrir okkur að sinna áhugamálum okkar en oft líður okkur illa ef við sinnum ekki áhugamálunum sökum anna eða annarra ástæðna. Passaðu að eiga þér áhugamál og sinna því en það róar hugann auk þess sem þú getur sett þér markmið sem snúa að áhugamálinu þínu.

Hreyfing. Regluleg hreyfing losar um endorfín sem veitir okkur aukna orku, bætir skapið og eykur sjálfstraustið og á ekki einungis við um hreyfingu á borð við skokk eða líkamsrækt heldur er þar með talin hreyfingin í því til dæmis að þrífa húsið, sinna garðinum, dansa á heimilinu eða hvað sem þér dettur í hug. Það sem hreyfingin gerir er að hún bætir skapið. Einnig er gott að hreyfa sig úti en þá færðu auk þess D-vítamín frá sólinni og ferskt loft á meðan þú hreyfir þig.

Lokaðu á neikvæða umfjöllun fjölmiðla. Fréttir umlykja okkur hvar sem við erum; á netinu, í sjónvarpinu og í blöðunum, en fréttir geta haft mikil áhrif á skapið, sérstaklega á fólk sem er viðkvæmt. Ef þú veist að fréttir munu hafa þessi áhrif á þig og þig langar ekki að komast í vont skap, lokaðu þá blaðinu eða skiptu um stöð á sjónvarpinu. Einnig er gott að taka sér hlé frá netinu í ákveðinn tíma við og við.

Sjálfsást. Sýndu þér ást og umhyggju með því að vera góð/ur við sjálfa/n þig. Pantaðu tíma í nudd, handsnyrtingu, kauptu þér ný föt, farðu í freyðibað, borðaðu á uppáhaldsveitingastaðnum þínum eða hvað annað sem þig langar til að gera til að vera góð/ur við sjálfa/n þig. Einnig getur verið uppbyggjandi að skrifa litla miða með jákvæðum athugasemdum um þig og hengja þá á ísskápinn, í herberginu þínu eða jafnvel á spegilinn á baðherberginu.

Heimild: Mind Body Green

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál