Er grjóthörð og fær sér 92% súkkulaði

Ásdís Ragna Einarsdóttir.
Ásdís Ragna Einarsdóttir. Ljósmynd/Helga Erla Gunnarsdóttir.

Grasalæknirinn Ásdís Ragna Einarsdóttir telur viðhorf fólks til óhefðbundinna lækninga hafa breyst töluvert á seinustu árum. Hún segir fólk vera áhugasamt um lækningamátt jurta og náttúruefna og gera sér grein fyrir áhrifum skaðlegra aukaefna sem leynast víða.

„Að vera grasalæknir felst í því að meðhöndla einstaklinginn út frá heildrænu viðhorfi og stuðla að bættri líðan og jafnvægi líffærakerfa með áherslu á heilsusamlegt mataræði, heilbrigðar lífsvenjur og jurtalyf,“ segir Ásdís aðspurð að því hvað felst í því að vera grasalæknir.

Ásdís segir jurtir vera frábæra leið til að flýta fyrir bata og til að bæta almenna vellíðan. „Ég hvet fólk til að drekka jurtate og draga úr kaffidrykkju til að fá þessi góðu styrkjandi efni í kroppinn. Mér finnst fólk þurfa vera meðvitað um kröftug áhrif jurta en lækningajurtir innihalda fjölmörg virk efni sem hafa víðtæk heilsueflandi áhrif á líkamann og því mikilvægt fyrir fólk að vera ekki sjálft að meðhöndla sig með mörgum jurtum því þær geta vissulega haft milliverkanir við lyfseðilskyld lyf.“

Ásdís segir viðhorf fólks til óhefðbundinna lækninga vera mun jákvæðara í dag en hér áður fyrr. „Margar rannsóknir hafa litið dagsins ljós síðastliðin ár sem staðfesta virkni og áhrif náttúruefna, t.d. rannsóknir sem gerðar hafa verið við Háskóla Íslands á íslenskri ætihvönn, vallhumli og skógarkerfli sem hafa gefið áhugaverðar niðurstöður,“ útskýrir Ásdís.

Uppáhalds fegrunarráð Ásdísar er að „vökva kerfið vel“ af tæru vatni. „Og fara helst daglega út í göngu og fylla sig af hreinu súrefni, borða vel af grænu og litríku grænmeti, passa upp á að fá góðar omega-olíur í gegnum fæðuna, drekka brenninetlu te og önnur heilsueflandi jurtate sem hreinsa húðina og lifrina,“ segir Ásdís sem lærði grasalækningar í University og East London.

Húðin talar sínu máli

Ásdís segir húðina alltaf gefa til kynna ef mataræðið er ekki upp á sitt besta. „Ég reyni að sniðganga allan sykur, hveiti, glúten, sykraðar og unnar mjólkurvörur, skyndibita, transfitur, og annað sem líkami minn samþykkir ekki. Ég finn það yfirleitt strax á húðinni ef það er eitthvað sem líkaminn ekki vill,“ segir Ásdís sem notar mikið grænmeti og ávexti í matargerðina ásamt fræjum, hnetum og fisk og lambakjöti. Þannig kveðst hún halda líkamanum í jafnvægi.

Undanfarin ár hefur Ásdís eingöngu notað lífrænar snyrti- og húðvörur en hún finnur mikinn mun á húðinni eftir að hún breytti yfir í lífrænar vörur. „Ég er svo glöð með að vera ekki að smyrja á mig einhverjum óþverra efnum á húðina daglega. Húðvörur í dag eru stútfullar af eiturefnum sem trufla hormónastarfsemina og setjast að í líkamanum,“ segir Ásdís sem er afar hrifin af vörunum frá Lavera og Benecos.

Ásdís kveðst fá sér lífrænt dökkt súkkulaði þegar hún vill gera vel við sig. „Helst með 85-92% kakóinnihaldi og já, ég veit þetta er bara fyrir þá allra hörðustu! Við þurfum að næra sálina og leyfa okkur að njóta í stað þess að vera hengd upp á þráð í mataræðinu í of langan tíma, lífið er hreinlega of stutt til að neita sér um gæða súkkulaði og holl sætindi,“ segir Ásdís að lokum.

Áhugasamir geta fylgst með Ásdísi á facebook-síðu hennar, Ásdís grasalæknir.

Ásdís er hrifin af lífrænu snyrtivörunum frá Lavera.
Ásdís er hrifin af lífrænu snyrtivörunum frá Lavera.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál