Tendraðu ljósið innra með þér

Jóga og létt mataræði og ekki síst hugleiðsla ætti að …
Jóga og létt mataræði og ekki síst hugleiðsla ætti að gera mikið fyrir okkur á þessum árstíma.

„Á hverju ári þurfum við að mæta myrkrinu og á hverju ári fylgjumst við með því hvernig ljósið fæðist á ný um leið og sólin fer aftur að hækka á lofti. Vetrarsólstöður eru 21. desember og þá er lengsta nótt ársins.  Orðið sólstöður vísar til þess að sólin stendur í stað. Hún hættir að lækka á lofti, fer síðan að hækka aftur hægt og bítandi og ljósið sigrar myrkrið,“ segir jógakennarinn og hómópatinn Guðrún Darshan Arnalds í sínum nýjasta pistli

Vetrarsólstöður eru á kaldasta tíma ársins.

„Í gegnum söguna hefur veturinn verið tími til að leggjast inn í hýði, tími kyrrðar, depurðar, hungurs, svefns, myrkurs og kulda. Á vetrarsólstöðum fögnuðu mennirnir endurkomu sólarinnar sem lífgjafa  og vonargjafa mitt í öllum kuldanum og myrkrinu. Í dag fögnum við fæðingu frelsarans og ljóssins í hjartanu. Í heiðni var þessi hátíð líka kölluð jól. Freyr var guð kærleika og frjósemi, guð árs og friðar. Óðinn átti sér mörg nöfn, þeirra á meðal voru jólafaðir og jólnir. Óðinn stendur fyrir visku og innri styrk, en hann var líka meistari hinna dauðu- drauganna.

Á vetrarsólstöðum og jólum erum við að takast á við myrkrið og tendra ljósið innra með okkur. Til þess þurfum við að horfast í augu við skuggahliðarnar okkar og draugana í lífi okkar. Mér finnst þessi tími ytra myrkurs kalla mig inn á við. Ég hugleiði daglega flesta daga ársins en á þessum árstíma verður það enn auðveldara og mér finnst ég vera nær kyrrðinni. En líka einmitt vegna alls annríkisins í lífi mínu og í kringum mig á þessum tíma þá finnst mér það alveg nauðsynlegt að hugleiða til að halda einbeitingu í verkefnunum og til að halda sjálfri mér í jafnvægi.“

Guðrún bendir á að þetta sé góður tími til að gera upp árið. 

„Þetta er góður tími til að skoða árið sem er að líða, velta upp hvað við eigum eftir óklárað – verkefni, samskipti, áramótaheit síðustu áramóta og einnig til að undirbúa nýja árið. Þetta er líka tími til að njóta þess góða sem myrkrið færir okkur – kyrrð, frið og endurnýjun.

Á þessum árstíma getum við byggt upp styrk, hreysti og lífsorku. En þetta er líka tími sem er gott að fara sér hægt, njóta þess að vera heima – taka til og gera fallegt í kringum sig. Þetta er góður tími til að taka til í huganum, vinna úr tilfinningum og málum sem við höfum ekki gert upp. Tími til að taka á móti vinum og fjölskyldu, njóta þess að gleðjast og vera saman. Góður tími til að dansa, eiga skemmtilegar stundir – og til þess að fara í jóga og hugleiða. Hugleiðsla hreinsar hugann og hjálpar okkur að vinna úr hlutum.“

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna kenna okkur að á þessum árstíma sé  líkaminn að endurnýja sig og byggja sig upp.

„Góð næring er því mjög mikilvæg og hreyfing hjálpar líka til við að byggja upp heilbrigðan vef í líkamanum.  Létt mataræði er best, en eins og við vitum þá er jólamáltíðin stundum dálítið þung í maga. Þá getur til dæmis verið gott að nota krydd eins og engifer og fennel til að hjálpa meltingunni. Það má t.d. skera þunna sneið af engiferi fyrir matinn –  setja á hana nokkra sítrónudropa og smá salt. Og tyggja svo vel.  Fennelte eða að tyggja fennelfræ eftir matinn hjálpar líka meltingunni. Meltingarensím er hægt að fá í heilsubúðunum. 

Vetrarsólstöður og það að lifa með myrkrinu hefur haft áhrif á líf fólks í gegnum aldirnar og hefur fengið fólk til að búa sér til helgisiði sem snérust um að fagna sigri ljóssins og lífsins yfir myrkrinu og kuldanum. Ferðalagið úr dái gleymskunnar yfir í allsnægtir, úr meðvitundarleysi yfir í meðvitund, úr myrkri yfir í ljós sækist seint og krefst þolinmæði. Okkur er boðið að leita inn á við, að leita eftir ljósinu innra með okkur til að lifa af. Við sofum meira, hægjum á okkur og bíðum.“

Shakespeare sagði; ,,Myrkrið á sínar góðu hliðar”.

„Þegar skýin hörfa og stjörnurnar og norðurljósin lýsa upp himininn, þá vaknar hugurinn og við finnum vakna innra með okkur þessa þrá eftir einhverju stærra og meira. Við finnum til smæðar okkar sem einstaklingar og skynjum víddirnar innra með okkur. Megum við öll finna það hugrekki og traust sem við þurfum til að takast á við myrkrið, tengja við ljósið innra með okkur og finna leiðina heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál