Fæddi andvana barn og missti tökin

Dagný Þóra Gylfadóttir er mun léttari en hún var í …
Dagný Þóra Gylfadóttir er mun léttari en hún var í mars.

Dagný Þóra Gylfadóttir er 26 ára gömul móðir í fæðingarorlofi sem hefur náð að losa sig við 45 kg síðan í mars á þessu ári. Hún byrjaði að fitna þegar hún varð fyrir fyrsta áfallinu í lífinu. Með hjálp GSA-samtakanna hefur hún náð tökum á þyngdinni.

Dagný Þóra var í ósköp venjulegum holdum þegar hún varð ólétt að frumburði sínum fyrir sjö árum. Meðgangan fór ekki vel í hana, hún fitnaði töluvert en meðgöngunni lauk skyndilega á 26. viku þegar hún fæddi andvana barn. 

„Að þurfa að jarða barnið sitt 19 ára gömul setur lífið úr skorðum. Við tóku erfiðir mánuðir og þar kom að ég fór að sækja huggun í mat. Eftir þessa erfiðu mánuði ákvað ég að snúa vörn í sókn og byrjaði að æfa. Ég komst aftur í eðlilegt horf og var svoleiðis í þrjú ár eða fram að næstu meðgöngu. Meðganga númer tvö endaði á 28. viku og við tóku 10 vikur á vökudeild. Þar hafði ég bara aðgang að skyndibita og engu öðru og því fitnaði ég mikið á því tímabili,“ segir Dagný Þóra. 

Við tók togstreita við vigtina og hún prófaði ýmsar leiðir til að reyna að grennast. Hún prófað Herbalife og ýmsa aðra kúra, náði árangri en svo fór allt á versta veg aftur. Árið 2012 fór hún í enn eitt átakið og komst á gott skrið. 

„Svo kom árið 2013 og þá verð ég aftur ólétt. Þessi meðganga byrjaði mjög vel og ég passaði sérstaklega upp á hvað ég setti ofan í mig en um miðja meðgöngu varð ég fyrir stóru áfalli og í kjölfarið missti ég tökin á mataræðinu og fór að sækja í kolvetnisríka fæðu. Þessi meðganga fór með mig upp í þriggja stafa tölu á vigtinni. Ég varð ekki bara þung á mér holdafarslega heldur einnig andlega og líkamlega,“ segir hún. 

Dagný Þóra segist hafa rýrnað aðeins eftir barnsburð en þrátt fyrir það hélt átið áfram, hún fékk sér margoft á diskinn og átti erfitt með að greina hvort hún væri södd eða svöng. 

„Ég áttaði mig á því að eitthvað var að hjá mér þegar mamma mín sagði spurði mig að því hvort þetta væri ekki orðið gott en þá var ég búin að fá mér þrjá hamborgara í kvöldmat með öllu meðlæti og sósu og drekka lítra af kóki með. Eftir það borðaði ég einn pakka af kolvetnaríku kexi og skolaði því niður með ennþá meira af kóki. Þá loksins áttaði ég mig á því að þetta væri ekki alveg eðlilegt og ég væri að borða mínar eigin tilfinningar.“

Í framhaldinu ákvað hún að mæta á fund hjá GSA-samtökunum og fékk sér sponsor. „Ég byrjaði í þessu prógrammi 1. ágúst og hef síðan þá létt mig um 28 kg en samtals hef ég lést um 45,6 kg síðan ég var hvað þyngst í mars. Í dag líður mér miklu betur en ég ákvað að fara til læknis og var látin á þunglyndis- og kvíðalyf. Ég er laus við uppþembu og óþægindi í kviðarholi,“ segir hún. 

„Mataræðið mitt gengur út á að borða þrjár máltíðir á dag og ég borða nóg svo ég verði ekki svöng inni á milli. Ég borða allt sem mig langar í en sleppir hveiti, sykri og sterkju. Ég les utan á allar umbúðir og kaupi ekkert sem inniheldur þetta. Á venjulegum degi borða ég úr öllum fæðuflokkum, bæði prótein, fitu, grænmeti og ávexti.“

Aðspurð hvort það sé ekki erfitt að vera í GSA um jólin og hvort desember sé ekki erfiður segir hún svo ekki vera. 

„Það er alls ekki erfitt að vera í GSA um jólin. Það eru til alls konar frábærar uppskriftir að hamborgarhrygg með gljáa sem passar fyrir okkur sem eru í aðhaldi, svo ég fæ alveg að njóta jafnmikils og aðrir á heimilinu. Ég passa mig á því að borða aldrei neitt sem mér finnst vont,“ segir hún.

Þegar við ræðum desember nánar og allan sykurinn sem er á borðum játar hún að þetta sé kannski búið að vera pínulítið erfitt. „Jú, jú, auðvitað hefur þetta tekið smá á. En ég hef samt staðið við mitt og í dag er ég á degi 136. Ég er búin að baka þrjár sortir af smákökum með mömmu og það var ekkert mál. Ég mun halda mínu striki og ég leyfi mér ekkert utan rammans og mun til dæmis ekki drekka neitt vín þótt það séu að koma áramót.“

Dagný Þóra er bara með eitt áramótaheit og það er að byrja í ræktinni en líkamsræktin hefur alveg setið á hakanum. 

„Ég ætla að reyna að koma mér af stað í ræktina í fyrsta skipti síðan apríl 2013. Ég hef ekkert hreyft mig síðan ég byrjaði að missa öll þessi kíló og nú er komið að því að breyta því.“

Þessi mynd var tekin áður en hún breytti um lífsstíl.
Þessi mynd var tekin áður en hún breytti um lífsstíl.
Áður en hún breytti um lífsstíl.
Áður en hún breytti um lífsstíl.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál