Hægt að smita sjálfan sig af kynfæraherpes

„Það er vel hægt að færa hana frá vörunum og …
„Það er vel hægt að færa hana frá vörunum og niður, bara með snertingunni.“ Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á meðan frunsur eru ekkert feimnismál eru færri sem tala um kynfæraáblástur, en það eru einfaldlega frunsur sem koma á kynfærin og það sem í daglegu tali er kallað frunsur heitir á læknamálinu Herpes. 

Stór hluti þjóðarinnar fær frunsur og talið er að um 20-30% Evrópubúa sé smitaður en það er gróflega ályktað. 

„Fólk skammast sín og þorir ekki að tala um það - þetta orsakast af gömlum fordómum sem gera að verkum að fólki finnst það niðurlægjandi að tala um þetta,“ segir Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir. 

Áður var talið að tíðni kynfæraáblásturs væri eitthvað minni hér á Íslandi en í öðrum löndum en raunin er önnur.

„Uppgefnar tölur sýna bara allt annað en raunin er,“ segir Arnar en samkvæmt Landlækni er Herpes ekki tilkynningaskyldur eða skráningarskyldur sjúkdómur (öðru gildir þó um sjúkdóm með skylt nafn, Herpes Zoster, eða ristill). 

En hvernig smitast fólk af kynfæraáblæstri?

„Hér áður var yfirleitt talað um Herpes simplex I sem var á vörunum og Herpes simplex II á kynfærum. Í seinni tíð virðist veiran hafa dreift sér og nú sjást tilfelli þar sem bæði eitt og tvö hafa dreift sér á milli staða,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir hjá Landlæknisembættinu og nefnir í því samhengi að mögulega tengist þetta breyttri kynhegðun fólks, að nú séu munnmök meira stunduð en áður. 

Arnar Hauksson segir það sama en bætir við að einnig sé hægt að smita sjálfan sig af kynfæraherpes. 

„Það er vel hægt að færa hana frá vörunum og niður, bara með snertingunni,“ segir Arnar. 

Í bæklingi sem GlaxoSmithKline gaf út fyrir nokkrum árum er þessu lýst með þeim orðum að veiran berist í líkamann um lítil húðfleiður eða sár og um húð og slímhúð og að mjög oft viti fólk ekki af því að það er smitað.

„Kynfæraáblástur smitast við náið kynferðislegt samband, svo sem samfarir um leggöng, endaþarm eða við munnmök. Sjúkdómurinn getur smitast þótt sýkti einstaklingurinn sé einkennalaus. Athugið að varaáblástur (frunsur) orsakast einnig af áblástursveiru, því getur veiran borist frá áblæstri á vörum til kynfæra rekkjunautarins. Smit berst ekki með sæði eða blóði, né heldur með hnífapörum, glösum, handklæðum, af salernissetum eða úr sundlaugum.“

Kynfæraáblástur er talin hvimleiður en ekki alvarlegur sjúkdómur nema þegar sú hætta myndast að börn smitist í fæðingarvegi.

Sjúkdóminn er ekki hægt að lækna en hægt er að fá lyf sem bæla niður einkenninn og koma í veg fyrir að þau versni eða dreifi úr sér. Meira um kynfæraáblástur má lesa hér á vef landlæknis

Guðrún Sigmundsdóttir hjá Landlæknisembættinu
Guðrún Sigmundsdóttir hjá Landlæknisembættinu Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál