Guðni lokar Rope Yoga-setrinu

Guðni Gunnarsson, lífsráðgjafi og eigandi Rope Yoga-setrið í Listhúsinu í Laugardal, mun söðla um á næstunni og loka Rope Yoga-setrinu. Bók hans, Máttur viljans, mun koma út í Bandaríkjunum í byrjun apríl og svo víðar um heiminn m.a. í Japan í haust.

„Ég mun fylgja bókinni eftir með fyrirlestrum og annarri vinnu erlendis á næstu mánuðum. Því verð ég að að loka Rope Yoga-setrinu á Íslandi 1. júní. Ég mun samt halda nokkur námskeið þangað til,“ segir Guðni sem hefur mikla reynslu af hug- og heilsurækt eftir að hafa starfað sem lífsráðgjafi í rúmlega 20 ár.

Hann er meðal annars fyrsti einkaþjálfarinn á Íslandi og stofnandi og upphafsmaður GlóMotion og Rope Yoga-hugmyndafræðinnar, sem nýtur vaxandi vinsælda bæði hérlendis og vestanhafs.

„Bókin Máttur viljans fjallar um velsæmdarhugmyndafræði. Fólk gerir sér oft litla grein fyrir að þegar það er að hugsa það sem það vill ekki þá er það í raun að vilja það. Athyglin er orka og helsta auðlindin. Öll tækifæri snúast um að breyta um viðhorf. Flest okkar eru föst í venjum eða álögum eins og ég kalla það. Álögin eru af okkar eigin völdum af því að við þrætum fyrir vanmátt okkar og höfnum okkur frá morgni til kvölds. Við erum að verja megninu af orkunni okkar að hugsa um það sem við hugsuðum í gær. Einhverra hluta vegna þá gerum við allt til að skilgreina það sem við viljum og búa til áætlanir. Þegar er engin áætlun þá er það áætlunin. Alveg eins og það er ekki til valkvíði nema maður velji að vera kvíðinn,“ segir Guðni og bætir við að bókin fjalli um að losna við álögin og frelsa orkuna.

Sú hugmyndafræði sem Guðni hefur hannað og þróað er einkum afrakstur dvalar hans í Los Angeles á tímabilinu 1990–2006. „Ég starfaði í LA við heildræna þjálfun líkama og sálar og við lífsráðgjöf fyrir einstaklinga og hópa. Samhliða vann ég að þróun og hönnun Rope Yoga-kerfisins og æfingastöðvarinnar, en kerfið tengir hugrækt, líkamsrækt, næringarfræði og orkuumsýslu í eitt heildrænt velsældarkerfi,“ segir Guðni. Hann þjálfaði m.a. sjálfan Superman, Brandon Rough og Kim Basinger auk fleiri þekktra leikara úr Hollywood. Guðni vann einnig með Disney og starfaði með ýmsum yfirmönnum þar.

„Þetta var mjög skemmtilegur og áhugaverður tími í LA og Hollywood. Árið 2006 flutti ég aftur til Íslands, stofnaði Rope Yoga-setrið og hóf að þróa Rope Yoga-kerfið yfir í GlóMotion. GlóMotion býr yfir fleiri tegundum æfinga og þar er lögð aukin áhersla á það hvað við nærum og á hvaða forsendum. GlóMotion-námskeið hafa verið kennd í Rope Yoga-setrinu við góðar undirtektir frá árinu 2008. Það verður skrítið að segja skilið við Rope Yoga-setrið en það eru spennandi tímar framundan. Ég hlakka til að fylgja bókinni eftir og ferðast um heiminn til að kynna hana með ýmsum hætti,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál