10 hlutir sem ég vildi að ég hefði vitað

Christina Meyers missti kærastann sinn aðeins 27 ára gamlan fyrir …
Christina Meyers missti kærastann sinn aðeins 27 ára gamlan fyrir þremur mánuðum. Hún heldur úti dagbók um sorgarferlið og mælir með að aðrir syrgjendur skrifi niður hugsanir sínar. Skjáskot, Aftenposten.no

„Það eru að verða þrír mánuðir frá því ég missti yndislega kærastann minn, besta vin minn sem var mér allt. Anders lést skyndilega, hjartað hans hætti bara að slá. Hann var 27 ára.“

Þetta skrifar ung kona að nafni Christina Meyer á bloggið sitt sem hún kallar Sorgdagbogken en Aftenposten í Noregi hefur fylgt Christinu og skrifum hennar eftir. 

„Kærastinn minn var dáinn, allt lífið rakið upp á einum og hálfum tíma. Ég sat hjálparlaus og óskaði þess að einhver gæti sagt mér hvað biði mín. Sagt mér frá áskorununum sem áttu eftir að mæta mér. Óskaði þess að einhver færði mér lista sem myndi greiða úr þessari tilfinningalegu óreiðu og gera hana ögn viðráðanlegri.“

„Ég vona að þú eigir aldrei eftir að lenda í sömu stöðu, en ef þú gerir það þá áttu mína dýpstu samúð og ég vona að þessi orð mín komi þér eitthvað áleiðis,“ skrifar hún en hér er samantektin hennar Christinu. 10 atriði sem auðvelda þér að greiða úr sorginni. 

1. Gerðu lista

Hugur þinn á eftir að fara í „sorgarstýringu“. Þetta er mjög eðlilegt. Þetta er einskonar sjálfsvarnarkerfi sem ver þig fyrir því að taka of mikið inn í einu. Daglegar athafnir og einfaldir hlutir geta gleymst og þú þarft að skjóta mörgu á frest og takast á við það síðar. Reyndu að koma þér upp kerfi eða lista sem virkar fyrir þig.

2. Nærðu þig

Þú átt ekki eftir að hafa neina matarlyst og maginn verður ekki með þér í liði. Þér verður líklega oft flökurt og illt í maganum. Ef þú passar ekki að næra þig þá verður þetta jafnvel enn erfiðara svo reyndu þitt besta og passaðu upp á líkamann. Borðaðu það sem gefur þér orku og mundu eftir því að drekka vatn. Þú grætur enda eflaust mikið. 

3. Svefninn er mikilvægur

Margir geta ekkert sofið meðan aðrir reyna að sofa sig í gegnum sorgina og óreiðuna. Stundum líður þér eins og þú sért ekki einu sinni til staðar í eigin líkama. Skortur á svefni, lágmarks matur og drykkur og óendanleg sorg eru ekki góð blanda. Skyndilausnin hjá mér var að fá svefnlyf. Það er mikilvægt samt að muna að þau verða aldrei varanleg lausn og mundu líka að það ætti enginn að þurfa að sofa einn.

4. Talaðu við heimilislækninn þinn

Heimilislæknirinn þinn ætti að geta gefið þér ráð og leiðsögn. Þú átt eflaust rétt á veikindafríi og þú getur fengið lyf og meðul ef þú þarft þeirra með. Hann gæti líka vísað þér á aðra sérfræðinga. 

5. Öll viðbrögð eru fullkomlega eðlileg

Reiði, sorg, kvíði, ótti og jafnvel hlátur. Öll viðbrögð sem kunna að koma fram eru alveg eðlileg. Það er ekkert einfalt svar til við því hvernig maður á að bregðast við slíkum ástvinamissi. Þú mátt reikna með öllum tilfinningaskalanum. 

6. Skrifaðu niður hvernig þér líður

Vertu alveg heiðarleg/ur þegar þú skrifar hvernig þér líður. Fáðu útrás fyrir hugsanirnar með því að skrifa þær á blað. Með þessu móti færðu þær úr kollinum og í fast form á blaðinu. 

7. Settu mörk

Þú ákveður hvenær þig langar að tala og hvenær ekki. Þú ákveður hvenær fólk má koma í heimsókn og hvenær ekki. Það er ekki til nein formúla fyrir þetta, þú verður að finna út úr þessu sjálf/ur. Ég fékk eina heimsókn á dag og eitt símtal frá mínum allra nánustu. Ég gat ekki hleypt öðrum að. Þetta er undir þér sjálfri/um komið. Ef þú getur heldur ekki staðið í því að setja hjörtu við samúðaróskir á Facebook þá þarftu ekki að gera það. Þú þarft ekkert að útskýra fyrir öðrum.

8. Vertu ábyrg á samskiptamiðlum

Flest erum við að nota samskiptamiðlana. Það er spurning hvernig þú vilt segja frá þessu. Kannski langar þig að vera fyrst til segja ákveðnum einstaklingum frá þessu. Ef Facebook er rétti vettvangurinn þá skaltu segja frá þessu þar ef þú ert hrædd um að aðrir verði fyrri til. 

9. Fáðu stuðning 

Flestir í kringum þig eru boðnir og búnir til að rétta fram hjálparhönd. Þú skalt þiggja hjálpina þegar það hentar þér. Segðu hvað þú vilt aðstoð með, hvort sem það er barnapössun, að fara út með hundinn, elda mat. Það er mjög gott að hafa nokkra einstaklinga í kringum sig sem hægt er að stóla á og svo eru alltaf sorgarhópar sem hægt er að leita til. Sumir hafa gengið í gegnum það sama og þú. Svo kemur tíminn eftir jarðarförina þegar þögnin hellist yfir þig og þú finnur virkilega fyrir sorginni. Þá er rétt að grípa í hjálparhönd. 

10. Haltu í rútínuna

Farðu á fætur, klæddu þig og gerðu nokkra einfalda hluti á hverjum degi, eitthvað sem heldur þér aðeins á jörðinni. Stundum getur það gefið mikinn styrk að ná tökum á allra minnstu athöfnum og það hjálpar þér fram á veginn. 

Sumt er alveg eðlilegt í sorgarferli og allur tilfinningaskalinn getur …
Sumt er alveg eðlilegt í sorgarferli og allur tilfinningaskalinn getur brotist fram. mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál