Ekkjan iðkar kundalini í stofunni heima

„Sú hræðilega egypska uppfinning að sitja á stól fer mjög …
„Sú hræðilega egypska uppfinning að sitja á stól fer mjög illa með okkur og það sama gildir um að standa upprétt því hvort tveggja þjappar mænunni saman og skapar bakveiki."

„Hinn vestræni maður er sjúkur í líkamanum og líkamsmenning hvíta mannsins hörmuleg,“ segir Þórunn Erlu Valdimarsdóttir rithöfundur en sjálf hreyfir hún sig fimm sinnum í viku. Stundar kundalini-jóga og dansar afró í Kramhúsinu. 

„Leikfimihefð hvíta mannsins er byggð á líkamsþjálfun sem tengist hermennsku og miðaði að því að ala upp hermenn. Í fyrstu leikfimitímunum sem kenndir voru í MR um miðja 19. öld voru strákarnir látnir halda á byssum. Við erum afkomendur hirðingja sem lögðu menningu Miðjarðarhafs í rúst og síðan frusu kropparnir af ótta við líkamann vegna kynbælinga kristninnar. Lúterskar mjaðmir okkar eru ansi stífar, á meðan hvert smábarn sem fæðist hefur það í sér að dilla bossa og dúa. Hvíti maðurinn er sárlega frosinn líkamlega sem sést til dæmis á því hve eróbik er spastísk og allt sem heitir íþróttasprikl mónótónískt. Svo fylgja þessu meiðsl og álag á líkamann,“ segir Þórunn sposk.

Í Kramhúsinu í 25 ár

„Sú hræðilega egypska uppfinning að sitja á stól fer mjög illa með okkur og það sama gildir um að standa upprétt því hvort tveggja þjappar mænunni saman og skapar bakveiki. Þegar venjuleg hvít manneskja fer að stunda í alvöru teygjur stækkar hún um tvo sentimetra, er teygist á brjóskinu milli hryggjarliðanna. Þriðja heims fólk var ekki svona, það sat á hækjum sér og lengdi þar með hrygginn og gerði frískan,“ segir Þórunn sem greindist sjálf með veikt bak fyrir mörgum árum og hóf þá leikfimi í Kramhúsinu. 

„Tveir neðstu hryggjarliðir mínir kölkuðu saman, ég fann fyrir því þegar ég fæddi fyrri son minn 27 ára og þegar ég var 35 ára var ég orðin fárveik í baki. Þetta var gæfa í dulbúningi því ég neyddist til að byrja að hugsa um líkamann. Ég átti að fara í sjúkraþjálfun en fór í staðinn í Kramhúsið og þar er stunduð næm alþjóðleg hreyfilist sem byggist á því að hlusta á líkamann. Bakið varð smám saman sem nýtt,“ segir Þórunn sem hefur nú stundað dans í Kramhúsinu í 25 ár. 

Fer í Bónus til að hitta félagana

„Fylgifiskur hvíta mannsins er bakveiki og nú er allur heimurinn byrjaður að taka upp ljóta siði frá hvíta manninum svo sem stóla og ljót föt. Íþróttagalla og jakkaföt. Það væri nú munur að fara niður í bæ og sjá Kínverjana í silkinu sínu eða Indverja í indverskum fötum. Þá væri maður ekki svona svekktur út í þessa túrista,“ segir Þórunn sem hefur um árabil búið í miðborginni og þekkir ekki lengur kunnugleg andlit þegar hún gengur í um miðborgina. 

„Maður sér engan sem maður þekkir lengur. Þegar maður lítur upp þá horfir maður bara í stressuð andlit túristanna. Nú fer maður í Bónus til að hitta félagana og það er meðal annars líka út af þessu sem mér finnst Kramhúsið svo stórkostlegt, það er félagsmiðstöð miðborgarbúa,“ segir Þórunn en Kramhúsið hefur frá upphafi verið á sama staðnum á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis. 

Sorglegt hve margir láta líkamann fúna

Þórunn hefur mikla trú á austurlenskum líkamsæfingum hvort sem þær eru ættaðar frá Afríku, Kína, Japan eða Indlandi. Þær byggjast á þúsalda reynslu menningarþjóða, á meðan forfeður vorir voru fjallamenn og hirðingjar.

„Ég skil alveg útrás keppninnar og kappið sem fylgir testosteróninu í hefðbundinni íþróttaiðkun og það má æsa konur upp í þetta líka. Fórnirnar eru bara miklar,“ segir Þórunn.

„Vandamálið er meiðslin sem fylgja þessu. Margir láta nægja að horfa á boltann og halda að hreyfing sé bara fyrir suma. Sorglegt er að sjá hve margir láta líkamann fúna og fylgifiskur er stirt geð og allskyns kvillar. Fólk sem er með góða teygju slasast varla í hálku, það bara tekur mjúka sveigju og heldur velli. Ef þú rennur til á svelli stirður og jafnvægislaus detturðu og meiðir þig en ef maður er með mjúkan líkama þá sveigir maður sig á móti fallinu,“ segir hún. 

Ekkjan gerir jóga í stofunni heima hjá sér

Eins og fyrr segir stundar Þórunn líkamsæfingar fimm sinnum í viku. Hún fer þrisvar í viku í Kramhúsið að dansa afró en síðan hún varð ekkja um áramótin koma vinkonur hennar í heimsókn tvö síðdegi í viku og þær gera kundalini-jóga inni í stofu en kundalini er ævafornt jógakerfi frá Indlandi. Það eykur gleði og jafnvægi.

„Þvagleki er óspennandi fylgikvilli eftir breytingaaldur hjá mörgum kerlingum, sérstaklega eftir erfiðar fæðingar,“ segir Þórunn. 

„Kundalini-jóga styrkir þvagvöðvana, fæðingarvöðvana, rassvöðvana og allt svæðið þarna í kring. Það er garanteruð leið í dýpstu líkamsvisku að iðka líkamsæfingar af þessu tagi,“ segir hún og bætir að lokum við að hægt og rólega sé þó að síast inn í menningu okkar meiri líkamsviska og skárri líkamsmenning.

„Mér þætti gaman að sjá tölfræði um íþróttaslys og bakveiki og hvað það kostar heilbrigðiskerfið og hvíta manninn að rækta ekki alla vöðva líkamans og læra að hlusta á hann. Við erum með haus, jú, en við erum fyrst og fremst skrokkur. Hamingjan er með frískan haus, búk og hala,“ segir afródansarinn, sagnfræðingurinn, ekkjan, rithöfundurinn og miðborgarinn Þórunn Erlu Valdimarsdóttir að lokum. 

Þórunn stillir sér upp með einstökum hætti en þarna er …
Þórunn stillir sér upp með einstökum hætti en þarna er hún í skriðjöklaferð með vinum sínum.
„Lúterskar mjaðmir okkar eru ansi stífar, á meðan hvert smábarn …
„Lúterskar mjaðmir okkar eru ansi stífar, á meðan hvert smábarn sem fæðist hefur það í sér að dilla bossa og dúa.“
Hér stekkur miðaldra konan hæð sína eins og Gunnar sjálfur …
Hér stekkur miðaldra konan hæð sína eins og Gunnar sjálfur á Hlíðarenda. Í fullum herklæðum rithöfundarins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál