Var greind með B-vítamínskort, ekki MS

Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir tók þátt í heilsuferðalagi Smartlands Mörtu Maríu …
Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir tók þátt í heilsuferðalagi Smartlands Mörtu Maríu og Hreyfingar.

Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir tók þátt í heilsuferðalagi Smartlands Mörtu Maríu og Hreyfingar. Hún greindist með MS-sjúkdóminn í fyrra og segir alla sólarsöguna á vef Heilsuhringsins. Sigrún Lóa finnur lítið fyrir einkennum MS-sjúkdómsis eftir að hún byrjaði að hreyfa sig, hvíldi sykurinn og fór að vanda valið þegar kom að mataræðinu:

„Ég hef ekki gengið heil til skógar frá árinu 2011. Ég var of þung, þyngst 103 kg, og með verki um allan líkamann. Ég var búin að reyna alla heimsins kúra til að létta mig og var komin með miklar bólgur í liði og doða niður í fætur. Tilfinningin yfir rifbeinin var eins og það væri föst brynja utan um mig miðja. Dagarnir byrjuðu á íbúfeni til að komast í gang. Ég svaf illa, var þung í skapi og alltaf með verki, var líka alltaf þreytt og illa fyrirkölluð.

Ég var búin að leita til heimilislæknis margoft, sem loks um mitt ár 2012 sendi mig í myndatöku vegna gruns um brjósklos. Ekkert kom í ljós í þeim myndatökum sem benti til þess að svo væri. Vegna mikilla verkja leitaði ég til gigtarlæknis að beiðni heimilislæknisins. Það tók gigtarlækni innan við fimm mínútur að greina mig með vefjagigt og við tók inntaka gabapentinlyfja og fleiri lyfja sem áttu að bæta ástand mitt. Mér leið illa á lyfjunum og fannst ég ekki vera ég sjálf, fannst ég stíga ölduna allan daginn og var ómöguleg. Svefninn var að vísu betri því að ég fékk líka svefnlyf. En þá tók sig upp mikil settaugabólga og ég þurfti að fá sterasprautur til að komast fram úr rúminu.

Á þessum tíma gekk ég í gegn um helvíti. Líkaminn í algjörri rúst og mér fannst ég orðin virkilega gömul og lúin. Það ástand varði til áramóta 2013-2014. Þá hætti ég að taka áðurnefnd lyf, því mig grunaði að ég væri ekki með vefjagigt. Fannst ég vera hálfgerður aumingi en reyndi samt að keyra mig áfram. Beit bara á jaxlinn þraukaði daginn og það féll ekki dagur úr vinnu hjá mér á þessu tímabili. En ég var alveg búin á því þegar heim kom.

Mér fannst þetta ekki geta gengið svona til lengdar þannig að ég leitaði aftur til heimilislæknisins. Eftir þrjár heimsóknir til hans og inntöku vöðvaslakandi lyfja og gigtarlyfja var ég komin á ystu nöf og var algjörlega að gefast uppÞá yppti læknirinn öxlum og sagði: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ Þá var mér allri lokið.

Ég var farin að segja við sjálfa mig að ég væri bara ekki í lagi og orðin veik á geði. Enginn vissi hvað amaði að mér, blóðprufur komu vel út og læknar voru ráðþrota og það var litið á mig sem einhverja vænisjúka konu.

Í janúar 2014 sá ég auglýsingu frá MFM-samtökunum um árangursríkt námskeið til að sporna við matarfíkn og  ég skráði mig á námskeið. Þá bættist við enn eitt örþrifaráðið til að eignast betra líf. Ég fór að líta á mig sem matarfíkil. Tók út allan sykur og borðaði eingöngu það sem var ráðlagt og gekk með vigt á mér og vigtaði allt sem ég setti ofan í mig. Þetta námskeið var algjör sjálfsskoðun, mikil áhersla var lögð á að leita til fortíðar að vanda matarfíknarinnar og skoða sig sjálfan gaumgæfilega. Ég sá mig alveg sem sykurfíkil því ég gat hámað í mig sælgæti eins og enginn væri morgundagurinn.

Mér fór að líða betur en samt sem áður alltaf með doða og verki. Eftir þriggja mánaða úthald á sykurlausu fæði MFM hafði ég misst 11 kg en ég var samt alltaf með doða í útlimum. Var hætt að finna fyrir tánum og algjörlega tilfinningalaus frá tám upp að lífbeini, auk þessarar föstu „brynju“ um mig miðja. Var farin að fá sjóntruflanir og úthald mitt orðið mjög lélegt.

Ég fór aftur til heimilislæknis sem fann ekkert að mér en fannst taugaviðbrögð (reflexar) í fótum grunsamleg og datt helst hug að ég væri ólétt 47 ára gömul konan. En svo var nú ekki. Hann gat ekkert fyrir mig gert og sagði að ef ég lagaðist ekki þyrfti ég bara að leita á bráðavakt LSH. Þarna voru komin þrjú ár í endalausri leit hjá mér að því hvað plagaði mig og engar lausnir nema hin og þessi lyf sem gerðu mig bara veikari.

Um páskana 2014 vaknaði ég með skert jafnvægisskyn, gat ekki gengið niður tröppur vegna svima og með ofurnæmi í fótunum. Fæturnir voru mikið bólgnir og ekki mátti koma við mig, þá var eins og það væri verið að kreista mig. Versta tilfinningin var sú að það var eins og neglurnar á tánum á mér væru að springa af. Á þeim tímapunkti keyrði maðurinn minn mig á bráðamóttöku LSH. Þar var ég tekin í skoðun og að lokum lögð inn.

Greining læknisins var: „B-vítamínskortur vegna fæðisins.“ Já, hugsaði ég, búin að vera að borða mikið grænt grænmeti, passa að borða rétt, vigta allt. Mér var hálfgert úthúðað af læknunum sem skoðuðu mig út af þessu vali mínu að sleppa sykri og vigta ofan í mig matinn: „Já, svona tilfelli væru nefnilega að koma fyrir 2-3 sinnum á ári þar sem fólk væri að taka mataræðið í gegn og gengi svona hart að sér.“

Ég var niðurbrotin. Hugsaði mjög illa til MFM-miðstöðvarinnar og þeirra fræða sem þeir höfðu innprentað mér. Ég var höfð að háði og spotti á spítalanum, það var troðið í mig slátri og kartöflum, ristuðu brauði með sultu og ég fékk B-vítamín í æð og töflur og sprautur í fjóra daga. Læknar komu og sýndu mig nemum og alltaf var sökin mín. „Rangt mataræði sem olli B-vítamínskorti.“

En læknarnir höfðu ekkert í höndunum sem sannaði mál þeirra því ekki var hægt að mæla B-vítamín á Íslandi, það þurfti að senda út og bíða í þrjár vikur eftir niðurstöðum. Ég var sett í taugaleiðnipróf og allt virtist í stakasta lagi og var útskrifuð á fjórða degi og átti að fara í sjúkraþjálfun. Svo yrði haft samband við mig þegar tími losnaði í MRI-skönnun því nú átti aftur að skoða hvort brjósklos væri að angra mig. Ég var ekkert betri eftir meðferðina á spítalanum og þremur mánuðum seinna hafði ég samband við LSH. Þá var læknirinn sem útskrifaði mig hættur og farinn að vinna erlendis.

Mér var allri lokið, enginn vissi hver var með mitt mál. Nú fór ég að kvarta og kveina við fjölskyldumeðlimi. Frænka mannsins míns, sem er læknir í Svíþjóð, var stödd hér á landi og kíkti á mig eina kvöldstund. Hún ákvað strax að nýta sín sambönd og hafa samband við heila- og taugalækni og reyna að fá hann til að hitta mig. Eftir tvo daga var ég komin til hans í viðtal og við tók rannsókn í MRI-skanna. Hryggurinn var skannaður og athugað með brjósklos. Ekkert kom í ljós þar og ég var send í aðra skönnun til að skoða allt miðtaugakerfið og gá hvort æxli eða annar ófögnuður væri að plaga mig.

Eftir tvo daga var lausnin fundin, læknirinn kallaði mig til sín og sagði mér góðar fréttir; að ég væri ekki með æxli. Hins vegar benti allt til þess að ég væri með MS-sjúkdóminn. Samkvæmt myndum af heila voru hvítar skellur, sem myndast við niðurbrot á myelini, sjáanlegar og hann vísaði mér á góðan lækni á taugadeild til frekari rannsókna. Við tóku læknaheimsóknir og alls konar próf – taugarit, sjóntaugapróf og fleira sem átti að kanna til þaula. Þarna var komið fram í október og miklar líkur á því að um MS-sjúkdóminn væri að ræða.

Eftir mænuástungu í lok október kom lokaúrskurður; ég væri með MS. Að vísu MS á fyrsta stigi en stigin eru þrjú. Fyrsta stig er vægt og miðað við hversu gömul ég var orðin var það gefið til kynna að eflaust hefði ég verið í mörg ár með MS en bara keyrt mig áfram. Þannig að þegar ég var lögð inn á LHS var ég EKKI með B-vítamínskort heldur í slæmu MS-kasti. Ég var beðin afsökunar á hvernig hafði verið komið fram við mig af þeim læknum sem skoðuðu mig.

Ég var svo glöð á þessu tímabili, vissi loksins hvað var að plaga mig og gat fengið lyf sem áttu að halda þessu í skefjum. Við tók fimm daga steragjöf beint í æð og svo í kjölfarið avonexsprautur einu sinni í viku og ég ákvað að gera gott úr þessu öllu saman.

Í febrúar rakst ég svo á frétt á Smartlandi Mörtu Maríu um heilsuferðalag Smartlands og Hreyfingar. Um var að ræða lífsstílsbreytingu og maður gat sótt um þátttöku í þessari lífsstílsbreytingu. Eingöngu yrðu fimm konur valdar. Ég sendi inn umsókn og var mjög hrein og bein í öllum mínum svörum, en lét engan vita að ég væri með MS-sjúkdóminn. Ég var kölluð í viðtal og valin ein af þessum fimm sem áttu að hefja þetta ferðalag. Ég var í skýjunum, þarna var tækifæri til að koma öllu á réttan kjöl. Um var að ræða 10 vikna prógramm með næringarfræðingi og þjálfara hjá Hreyfingu og við þurftum að blogga um lífsstílsbreytinguna og vera svolítið fyrir utan okkar þægindahring, því að einnig var fjallað um þetta allt á mbl.is á Smartlandi.

Á okkur var sett pressa um að verða sykurlausar og tók ég þeirri áskorun enda farið í þann pakka áður. Þarna byrjaði líf mitt loks að breytast til batnaðar. Ég tók mataræðið í gegn, fékk góða hreyfingu 4-6 sinnum í viku í umsjón frábærra þjálfara hjá Hreyfingu og svo var styrkur frá stelpunum sem voru með mér í þessu. Næringarfræðingur fylgdist með okkur og kílóin fóru að hrynja. Eftir þrjár vikur áttaði ég mig á því að ég var allt önnur í skrokknum. Hafði þá einnig tekið út alla sterkju, borðaði ekki kartöflur, hrísgrjón né brauð og var einnig að taka út hveiti.

Ég fann enn meiri batamun eftir að ég fékk gæðavítamín hjá Heilsuhúsinu frá Solary. Næringarfræðingur Heilsuhússins setti þau sérstaklega saman fyrir mig vegna MS-sjúkdómsins. Það eru: B-vítamín, D-vítamín, salmonoil (olía sem er rík að omega 3, 6 og 9), ibuactin (það dregur úr bólgum í líkamanum) og kóensím Q10.

Nú er ég algjörlega hætt að finna fyrir doða í fótum, tilfinning í tám er komin aftur, ég sef eins og ungbarn og ég er eðlilega þreytt eftir góða líkamsrækt. Ég hlusta á líkamann og ég passa algjörlega upp á mataræðið. Enginn sykur, engin aukefni og hrein fæða, engar unnar kjötvörur. Nú eru 13 kg horfin og vöðvamassi hefur aukist til muna. Jafnvægið komið aftur og mér líður stórkostlega. Þetta segir okkur að maturinn sem við setjum ofan í okkur getur svo sannarlega gert gæfumuninn. Hreyfing er núna í algjörum forgangi hjá mér. Ég fer í lyftingar, pilates, zumba, dansfitness, hot jóga og þetta er yndislegt líf.

Þetta er orðinn minn lífsstíll, ég styrkist með hverjum degi en ég efast samt um að ég sleppi lyfjunum mínum. Ég er of hrædd við það að fá kast, því við það að fá MS-kast getur maður lent aftur á byrjunarreit,“ segir Sigrún Lóa.

Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir.
Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál