Þúsundir einstaklinga slasa sig á hlaupabretti

Hlaupabretti geta verið stórhættuleg ef fólk gætir ekki ýtrustu varkárni …
Hlaupabretti geta verið stórhættuleg ef fólk gætir ekki ýtrustu varkárni á þeim. AFP

Hin 57 ára Yvonne Myers er í hópi þeirra ótal einstaklinga sem hafa slasast illa á hlaupabretti í ræktinni. Myers segir hlaupabrettið sem varð til þess að hún þeyttist af því hafa verið á svo miklum hraða að það leit út fyrir að vera ekki í gangi.

Einn örlagaríkan dag fyrir nokkrum árum hlakkaði Myers til að fara á hlaupabrettið eftir langan vinnudag. Smá skokk eftir vinnu hjálpaði henni að núllstilla sig. En þessi ferð í ræktina endaði ekki vel því þegar Myers steig á brettið þeyttist hún af því. Manneskjan sem hafði notað brettið á undan henni hafði farið af því án þess að slökkva á því. „Andlit mitt var illa farið og ég var með brunasár á handleggjunum. Ég var með stóran skurð á enninu og leit út fyrir að hafa lent í slag,“ segir Myers í viðtali við Daily Mail. Myers var flutt á spítala.

Hönnun hlaupabrettisins ófullnægjandi

Myers er ekki neinn nýgræðingur þegar kemur að hlaupabrettinu. „Ég hef notað hlaupabretti í meira en tíu ár og ég fer í ræktina um fjórum sinnum í viku. En ég hef aldrei orðið vitni að því að einhver skilji hlaupabrettið eftir í gangi.“

Myers er ósátt við hönnun hlaupabrettisins. Hún segir engan öryggishnapp hafa verið á brettinu og ekkert ljós sem gaf til kynna að brettið væri í gangi. „Ég var í sjokki í margar vikur, þetta hefði getað farið verr.“

Um 3.500 einstaklingar slasast á ári í Bretlandi

Samkvæmt bresku samtökunum Royal Society for the Prevention of Accidents eiga um 2.000 slys af völdum hlaupabretta sér stað inni á heimilum fólks og önnur 1.500 á líkamsræktarstöðvum. Slys sem þessi hafa meira að segja valdið dauðsföllum. Hinn 47 ára Dave Goldberg lést í maí á þessu ári þegar hann datt af hlaupabretti í líkamsræktarstöð á hóteli í Mexíkó.

En hvað veldur því að fólk dettur af hlaupabrettum? Að sögn skurðlæknisins Tony Kochhar, sem hefur rannsakað orsakir slysa af völdum hlaupabretta, er sjónvarpinu að hluta til um að kenna. Kochhar segir flest hlaupabretti vera með innbyggðu sjónvarpi og fólk hefur tilhneigingu til að missa einbeitinguna vegna þess. Hann segir einnig að fólk eigi erfitt með að finna jafnvægið aftur er það hrasar vegna þess að brettið heldur áfram að snúast þrátt fyrir að hlauparinn hægi á sér. Kochhar mælir þess vegna með að fólk noti einungis bretti sem eru með ákveðnum neyðarhnappi og setji alla sína einbeitingu í hlaupið.

Yvonne Myers slasaðist illa á hlaupabretti í ræktinni. Hún sagði …
Yvonne Myers slasaðist illa á hlaupabretti í ræktinni. Hún sagði sögu sína í viðtali við Daily Mail. Skjáskot af dailymail.co.uk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál