Hafa þarmar þínir sjarma?

Þarmar með sjarma eftir Giuliu Enders.
Þarmar með sjarma eftir Giuliu Enders.

„Lykillinn að hamingjuríkara og heilbrigðara lífi býr innra með okkur. Þarmarnir eru ekki síður mikilvægir en heilinn og hjartað – samt veit fólk almennt lítið um starfsemi þeirra. Nú eru vísindamenn hins vegar að átta sig á því að það sem gerist í meltingarveginum getur skipt máli varðandi fjölmarga þætti í lífi okkar, allt frá offitu og ofnæmi til þunglyndis,“ segir í texta um bókina Þarmar hafa sjarma eftir Giuliu Enders.

Giulia Enders, sem stundar doktorsnám í læknisfræði í Frankfurt, er óhrædd við að fara inn á svið þar sem fordómar, feimni og fliss hafa verið ráðandi. Skilaboðin eru skýr: Ef við sinnum meltingarveginum af alúð uppskerum við hamingju og vellíðan. En hvernig förum við að því? Þú kemst að því í þessari stórfróðlegu og skemmtilegu bók sem farið hefur sigurför um heiminn.

Bókin hefur fengið frábærar viðtökur úti í hinum stóra heimi eins og ummælin hér fyrir neðan sýna:

„Enginn hefur skrifað jafn spennandi og skemmtilega um meltinguna.“ Die Stern

„Afar fyndin, blátt áfram og upplýsandi bók.“ taz

„Með ríkulegum húmor og af mikilli ástríðu útskýrir Enders allt sem lesandann langaði og langaði ekki að vita um meltinguna ... bráðskemmtileg bók.“ Publishers Weekly

Hér er kafli úr bókinni:

Anddyrið að meltingarveginum

Það mætti halda að eingöngu endaþarmurinn hafi upp á einhverjar kræsingar að bjóða, þar sem við getum vart slitið okkur frá honum, en hinn endinn eða anddyrið að meltingarleiðslunni okkar lumar nú á ýmsu líka. Við kíkjum jú þangað á hverjum degi þegar við burstum tennurnar en þar með er ekki öll sagan sögð.

Leynistað númer eitt finnur maður með tungunni. Um er að ræða fjóra litla punkta. Tveir þeirra eru staðsettir innan í kinninni við efri tanngóminn, nálægt miðju. Hægt er að finna fyrirsmá bungum, bæði hægra og vinstra megin. Margir halda að þetta sé tilkomið vegna þess að þeir hafi einhvern tímann bitið sig í kinnina en það er ekki rétt – þessar bungur eru á nákvæmlega sama stað í öllum. Hinir punktarnir tveir eru undir tungunni, hægra og vinstra megin við tunguhaftið. Munnvatnið á upptök sín í þessum fjórum punktum.

Punktarnir innan í kinnunum spýta munnvatni ef raunveruleg ástæða er fyrir hendi – eins og til dæmis matur. Munnvatnið streymir hins vegar stöðugt úr götunum tveimur undir tungunni. Ef maður myndi stinga sér inn í þessi göt og synda á móti munnvatnsstraumnum kæmi maður að aðalmunnvatnskirtlunum. Þeir framleiða mesta munnvatnið, eða 0,7 til 1 lítra á dag. Ef þreifað er frá hálsinum í áttina að kjálkanum getur maður fundið fyrir tveimur mjúkum kúlum. Má ég kynna? Þetta eru þeir!

Punktarnir tveir sem staðsettir eru undir tungunni og spýta stöðugt munnvatni, eru ástæða þess að við fáum svo auðveldlega tannstein á neðri framtennurnar en þær liggja svo nálægt þessum punkum. Í munnvatninu eru nefnilega efni sem innihalda kalk og vilja eiginlega bara herða glerung tannanna. En stöðug skothríð getur orðið of mikið af hinu góða, jafnvel fyrir tönn. Litlum sameindum sem sveima um í nágrenninu í mesta sakleysi verður einfaldlega breytt í steina. Vandamálið er ekki tannsteinninn sjálfur heldur það hversu grófur hann er. Bakteríur sem valda tannholdsbólgu eða tannskemmdum eiga mun auðveldara með að festa sig við gróft yfirborð en næstum sléttan glerunginn.

Hvernig komast slík steingervings-kalkefni í munnvatnið? Munnvatn er síað blóð og blóðið er síað í munnvatnskirtlunum. Rauðu blóðkornin eru tekin frá fyrir æðakerfið því við þörfnumst þeirra þar en ekki í munninum. Kalk, hormónar og mótefni fyrir ónæmiskerfið sem í blóðinu er lendir hinsvegar í munnvatninu. Þetta er ástæða þess að munnvatn fólks er mismunandi. Hægt er að taka munnvatnssýni úr fólki til að skoða ákveðna sjúkdóma sem tengjast ónæmiskerfinu eða ákveðin hormón. Þar fyrir utan framleiða munnvatnskirtlarnir sjálfir nokkur efni, til dæmis steingervings-kalkefni en einnig verkjalyf.

Í munnvatninu er efni sem hefur meiri verkjastillandi áhrif en morfín. Það var fyrst uppgötvað árið 2006 og heitir ópíorfín. Að sjálfsögðu framleiðum við það í litlu magni því munnvatnið vill jú ekki hafa okkur uppdópuð. En svona lítið magn hefur samt ótrúlega virkni því munnurinn í okkur er eins og viðkvæmt blóm! Hér eru fleiri taugaendar en á nokkrum öðrum stað í líkamanum. Smá fræ úr jarðarberi getur farið hrikalega í taugarnar á okkur og við finnum strax fyrir hverju sandkorni sem þvælst hefur með salatinu. Smá sár á olnboganum, sem við tökum ekki einu sinni eftir, væri alveg hrikalega sárt í munninum og okkur fyndist það risastórt.

Án náttúrulegrar verkjastillingar í munnvatninu yrði þetta sýnu verra. Þegar við tyggjum þá eykst magn efnisins í munnvatninu og verkir í hálsi eftir að við höfum neytt matar verða minni og lítil sár í munnholinu ekki eins sársaukafull. Það þarf ekki að vera matur – að tyggja tyggjó getur líka fært okkur meira af eigin verkjalyfi. Síðan þetta uppgötvaðist eru meira að segja komnar fram nokkrar rannsóknir sem sýna að ópíorfín hefur virkni gegn þunglyndi. Getur þá huggunarát haft hressandi virkni vegna starfsemi munnvatnskirtlanna? Sársaukaog þunglyndisrannsóknir framtíðarinnar verða að leiða það í ljós.

Munnvatnið verndar ekki aðeins viðkvæmt munnholið fyrir of miklum sársauka, heldur einnig gegn mörgum vondum bakteríum. Prótínið músín er eitt af því sem verndar munnholið en músín er aðaluppistaðan í slími. Þetta prótín skaffar hráefni fyrir hina mestu skemmtun þegar maður sem barn áttar sig áþví að það er hægt að blása sápukúlur með munninum. Músín hylur tennurnar og tannholdið með verndandi músínneti. Við sprautum því úr munnvatnspunktunum á svipaðan hátt og Köngulóarmaðurinn sprautar köngulóarvef úr úlnliðnum. Sýklarnir hanga fastir í netinu áður en þeir geta ráðist gegn okkur. Á meðan þeir eru þarna fastir geta bakteríudrepandi efnin í munnvatninu drepið vondu sýklana.

Það sama á við hér og um ópíorfín: styrkur bakteríudrepandi efnisins er ekkert yfirgengilega mikill. Munnvatnið nær því ekki að losa okkur algjörlega við bakteríur. Við þörfnumst meira að segja fastrar viðveru lítilla vera í munninum. Munnvatnið skolar ekki skaðlausu munnbakteríunum í burtu og þær taka pláss, pláss sem annars kynni að verða yfirtekið af hættulegum sýklum.

Á meðan við sofum framleiðum við lítið sem ekkert munnvatn. Sem betur fer fyrir svefnpurkurnar. Það væri nú frekar óáhugavert að framleiða dagskammtinn, heilan lítra af munnvatni, í svefni. Vegna þess hvað við framleiðum lítið munnvatn í svefni vöknum við með andremmu og stundum verk í hálsi. Átta tíma verkfall hjá munnvatnskirtlunum þýðir bara eitt fyrir örverurnar í munninum: Brjálað partí. Það reynist erfitt að halda freku bakteríunum í skefjum og slímhúðin í munninum og kokinu saknar sjálfvirka úðakerfisins sárlega.

Að bursta tennurnar fyrir svefn og eftir að maður vaknar er þess vegna mjög gáfuleg athöfn. Á kvöldin dregur maður þá úr fjölda baktería í munninum og örverupartíið í munninum um nóttina verður ekki eins vel sótt. Morguninn eftir þrífur maður síðan í burtu jukkið sem safnaðist yfir nóttina. Til allrar hamingju vakna munnvatnskirtlarnir með okkur á morgnana og hefjast strax handa við að framleiða! Við losnum svo endanlega við örverurnar þegar við borðum fyrsta rúnnstykkið okkar eða burstum tennurnar því hvort tveggja kemurmunnvatnsflæðinu vel af stað og losar okkur við örverurnar eða flytur þær niður í maga. Magasýrurnar sjá svo um restina.

Sá sem þjáist af andremmu yfir daginn hefur kannski ekki náð að losna við allar illa lyktandi bakteríurnar. Þær slóttugustu fela sig gjarnan undir nýbyggðu músínnetinu og þá er ekki svo auðvelt fyrir bakteríudrepandi munnvatnsefnið að nálgast þær. Þar geta tungusköfur hjálpað og kröftuglega tuggið tyggjó, sem sér til þess að mikið af munnvatni flýtur um og skolar burt þeim sem földu sig í músínvefnum. Ef það hjálpar ekki þá höfum við annan stað sem gæti verið notaður sem felustaður hjá bakteríunum. Við komum að því núna rétt áeftir þegar kynntur verður leynistaður munnsins númer 2.

Þessi staður er algjört undur, maður heldur að maður þekki einhvern og kemst síðan að því að viðkomandi hefur á sér alveg óvænta og skrýtna hlið. Einkaritarinn í Frankfurt með flottu klippinguna skýtur upp kollinum á kvöldin á internetinu sem marðarræktandi. Gítarleikari þungarokkssveitarinnar er mættur við dokkurekkann í garnversluninni en hann prjónar til að slaka á og halda fingrunum liðugum. Það óvæntasta kemur eftir fyrstu kynni – þannig er það með okkar eigin tungu. Þegar maður stingur henni út og kíkir í spegil sér maður hana ekki í heild sinni. Maður gæti spurt sig: Heyrðu, hvernig ætli hún sé þarna fyrir innan? Maður sér jú ekki alveg fyrir endann á henni. En einmitt þar byrjar þessi skrýtna hlið á tungunni,tungurótin.


Hér er landslagið allt öðruvísi og alsett bleikum smáhæðum(kúpum) sem eru eitilvefur tungurótarinnar. Sá sem ekki hefur kröftug uppsöluviðbrögð getur þreifað tunguna varlega með fingrinum. Um leið og maður kemur alveg aftast finnur maður að fyrir neðan fer allt í gang. Verkefni eitilvefs tungurótarinnar er að ritskoða allt sem við gleypum. Til að gera það draga kúpurnar til sín og inn í sig lítil sýnishorn af mat, drykk eðasúrefni. Þar bíður heill her ónæmisfrumna sem býr sig undir að takast á við hið ókunna. Eplabitar ættu að ná í gegn en ef eitthvað truflar hálsinn þá verða þær að grípa strax í taumana. Hvað fingurþreifingarnar geta leitt í ljós skal ósagt en þessi staður tilheyrir forvitnustu vefjum líkamans: Ónæmisvefjunum.

Í ónæmisvefjunum eru nokkrir punktar þar sem hnýsnin rís hæst. Strangt til tekið er hringur ónæmisvefja á mótum munnhols og koks. Þetta svæði er einnig nefnt Waldeyer-hringurinn: undir er eitilvefur tungurótar, hægra og vinstra megin hálskirtlarnir og uppi í efsta hluta koksins (nálægt nefinu og eyrunum) eru separ sem eru gjarnan kallaðir „kirtlar“ í börnum þegar þeir verða of stórir. Sá sem heldur að hann hafi enga hálskirtla lengur, hann hefur kannski ekki alveg rétt fyrir sér. Allir hlutar Waldeyer-kokhringsins eru nefnilega gerðir úr eitilvef sem starfar eins og hálskirtlarnir. Tungukúpurnar, kokþakið og gömlu góðu hálskirtlarnir hafa nefnilega eitt og sama hlutverkið: að rannsaka af óþrjótandi fróðleiksfýsi allt það ókunnuga sem kemur inn og að þjálfa ónæmisfrumur í að verja sig.

Hálskirtlarnir, sem oft eru fjarlægðir, eru stundum ekkert voðalega gáfulegir: þeir forma djúpar rásir (til að stækka yfirborð sitt) þar sem of mörgum framandi fyrirbærum tekst stundum að festa sig og sýkja þá. Tala má um aukaverkun frá allt of fróðleiksfúsum hálskirtlum. Ef hægt er að útiloka að andfýlan stafi frá tungunni eða tönnunum þá er ekki úr vegi að líta til hálskirtlanna – það er ef þeir eru enn til staðar.

Stundum eiga litlir hvítir steinar það til að fela sig hér en lyktin af þeim er hrikaleg! Fólk veit oft ekkert af þessu og berst vikum saman við óþægilega andfýlu eða furðulegt bragðskyn. Tannburstun, notkun munnskols og tunguburstun virðist eiginlega ekkert hjálpa. Einhvern tímann koma steinarnir út af sjálfsdáðum og allt kemst í lag – en maður þarf ekki að bíða eftir því. Með smá lagni getur maður ýtt þessum steinum út og andfýlan hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Besta leiðin til að meta hvort þessi óþægilega lykt sé vegna steinanna er að fara með fingrinum eða með bómullarpinna yfir hálskirtlana. Ef lyktin er vond, er tímabært að fara í steinaleit. Háls-, nefog eyrnalæknar fjarlægja líka svona steina. Það er bæði þægilegra og öruggara að láta fagfólk fjarlægja þá. Hafir þú áhuga á viðbjóðslegum YouTube-vídeóum sem eru á mörkum þess að hægt sé að horfa á þau, getur þú fundið nokkur öfgafull dæmi um slíka steina og aðferðir til að fjarlægja þá. Þessi vídeó eru hins vegar ekki fyrir viðkvæma.

Það eru líka til önnur húsráð til að losa steina úr hálskirtlunum. Sumir skola kverkarnar mörgum sinnum á dag með saltvatni, aðrir eru sannfærðir um að ferskt hrátt súrkál úr heilsubúðinni sé málið og enn aðrir halda því fram að það að sneiða hjá mjólkurafurðum komi algerlega í veg fyrir steinana. Ekkert þessara húsráða er vísindalega sannað. Hins vegar er búið að rannsaka betur hvenær fjarlægja má hálskirtlana. Svarið er: best er að gera það eftir sjö ára aldurinn.

Á þessum aldri höfum við jú þegar séð allt það sem mikilvægt er, allavega hafa ónæmisfrumurnar gert það: við höfum kynnst algjörlega framandi heimi, verið knúsuð af mömmu, verið úti í garði eða úti í móa, komið við dýr, fengið hverja kvefpestina á fætur annarri og umgengist fjölda ókunnugs fólks í skólanum. Þar með er þetta komið. Þá má segja að ónæmiskerfið sé búið að læra nóg og sé útskrifað og geti nú gengið til daglegra starfa það sem eftir er ævinnar.

Fram til sjö ára aldurs eru hálskirtlarnir ennþá mikilvæg þjálfunarstöð. Uppbygging ónæmiskerfisins er ekki bara mikilvæg þegar kemur að kvefi. Hún skiptir einnig miklu máli þegar kemur að heilbrigði hjartans eða því hversu þung við erum. Sá sem fer í hálskirtlatöku fyrir sjö ára aldur á það á hættu að verða of þungur. Hvers vegna þetta er tilfellið, er læknum ennþá hulin ráðgáta. Samspil ónæmiskerfisins og þyngdar fólks er hins vegar mun oftar rannsakað nú en áður. Þessi hálskirtlaþyngingar-áhrif geta hentað börnum sem eru undir kjörþyngd. Þau færast þá nær kjörþyngd með þeirri þyngdaraukningu sem þá getur orðið. Í öllum öðrum tilvikum er foreldrum ráðlagt að passa vel upp á mataræði barna sem fara í hálskirtlatöku.

Sá sem ákveður að láta taka hálskirtla barns fyrir sjö ára aldurinn þarf að hafa til þess góðar og gildar ástæður. Ef kirtlarnir eru til dæmis svo stórir að þeir trufla svefn og andardrátt, þá skipta hálskirtlaþyngingar-áhrifin ekki máli. Það er raunar heillandi að ónæmiskerfið okkar skuli vera svona hneigt til að gæta heilsu okkar. En svona skaðar það meira en það hjálpar. Oft geta læknar gert leysigeislaaðgerð og náð þannig eingöngu þeim hluta sem er að valda vandkvæðum og þurfa ekki að fjarlægja hálskirtlana í heild sinni strax. Þessu er öðruvísi farið með sýkingar sem eru stöðugar. Þá geta ónæmisfrumurnar okkar aldrei slakað á og það er ekki gott fyrir þær til lengdar. Hvort sem maður er fjögurra, sjö eða fimmtíu ára gamall þá geta ofurviðkvæm ónæmiskerfi grætt á því að hálskirtlarnir séu fjarlægðir.

Sem dæmi má nefna fólk sem þjáist af húðsjúkdómnum sóríasis sem er tilkominn vegna of mikils álags á ónæmiskerfið og lýsir sér með sýkingu í húðinni og kláða (byrjar oft á höfði) eða verkjum í liðamótum. Þar fyrir utan þjást óvenjulega margir sóríasissjúklingar vegna verkja í hálsi. Möguleg ástæða fyrir þessu gæti verið bakteríur sem geta falið sig í hálskirtlunum og truflað ónæmiskerfið. Í rúm 30 ár hafa læknar greint frá tilfellum þar sem dregur úr húðsjúkdómum eðaþeir hreinlega læknast við það að hálskirtlarnir eru fjarlægðir. Þess vegna rannsökuðu vísindamenn frá Íslandi og Bandaríkjunum þetta samspil betur árið 2012. Þeir skiptu 29 sóríasissjúklingum, sem voru gjarnir á að fá verki í hálsinn, í tvo hópa. Úr öðrum hópnum voru hálskirtlarnir fjarlægðir en hinum ekki. Hjá 13 af þeim 15 sem hálskirtlarnir voru teknir úr var greinilegt að sjúkdómurinn lagaðist að því er virðist til frambúðar. Hjá hinum, sem enn höfðu sína hálskirtla, voru varla neinar breytingar merkjanlegar. Sama á við um gigtarsjúklinga en í dag er hægt að fjarlægja hálskirtlana úr þeim ef grunur leikur á að veikindin megi rekja til þeirra.

Með hálskirtla eða ekki – með hvoru tveggja eru góð og gild rök. Sá sem verður að láta fjarlægja kirtlana snemma á lífsleiðinni þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ónæmiskerfið tapi allri mikilvægri þekkingu munnsins! Til þess að varðveita hana eru jú sem betur fer eitilvefur tungurótarinnar og kokþakið sem eru ennþá á sínum stað. Sá sem er enn með hálskirtlana þarf heldur ekki að hafa miklar áhyggjur af bakteríum í felum: Rásirnar í hálskirtlum margra eru einfaldlega ekki svo djúpar og þess vegna skapast engin vandamál vegna þeirra. Eitilvefur tungurótarinnar og tilheyrandi stöðvar eru í raun aldrei felustaðir fyrir sýkla. Þær eru öðruvísi upp byggðar og hafa kirtla sem hreinsa sig sjálfir með reglulegu millibili.

Á hverri sekúndu gerist ýmislegt í munninum í okkur: Munnvatnspunktarnir skjóta músínnetum, hreinsa tennur okkar og vernda okkur fyrir of mikilli viðkvæmni. Kokhringurinn okkar er á verði gagnvart óþekktum ögnum og undirbýr ónæmisherinn sinn fyrir þær. Við þyrftum ekki á neinu af þessu að halda ef ekki væri framhald á munninum. Hann er fordyri veraldar þar sem hið óþekkta verður hluti af manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál