Var komin út í sjoppu (í huganum)

Guðný Lára Gunnarsdóttir.
Guðný Lára Gunnarsdóttir.

„Púkann má ímynda sér á annarri öxl minni en þá er að sjálfsögðu engill á hinni. Svo rífast þeir tveir og ég með! Vá þetta hljómar auðvitað eitthvað skrítið, en ég er nokkuð viss um að flestir kannist við að eiga rökræður við samviskuna sína. Það er bara svo miklu skemmtilegra að setja þetta í einhverskonar myndlíkingu. Það getur meira að segja orðið sprenghlægilegt á tímabilum. Ef við höldum áfram með þessa myndlíkingu þá hefur nú engillinn oftar fengið að ráða þegar kemur að stærri og mikilvægari málefnum en ég hef þó lengi ef ekki alla tíð verið dágóð púkaprinsessa í mér, sérstaklega varðandi hluti sem ég hreinlega taldi skipta minna máli,“ segir Guðný Lára Gunnarsdóttir sem tekur þátt í Lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins í sínum nýjasta pistli:

Þegar haldið er af stað í lífstílsbreytingu, ég tala nú ekki um fyrir framan augum almennings þá vandast málið. Maður vill ekki fyrir nokkra muni vera þekktur fyrir að standa sig illa, hreyfa sig lítið eða vera óvandvirkur varðandi val á fæðutegundum eða í vali á  viðfangsefnum hins daglega lífs. Einbeitingin fer á fullt og allt skal gert fullkomið, svoleiðis er ég bara! Enda hef ég verið ofur dugleg síðustu tvær vikur og sett litla púkann minn til hliðar, ég sagði honum hreinlega bara að hvíla sig og tileinka sér betri lífsstíl með mér. Púkinn hefur átt erfitt síðan og hefur auðvitað reynt aftur og aftur að fá mig til að gera eitthvað sem ég fengi auðvitað massa samviskubit yfir. Púkinn spurði mig til dæmis um helgina: „hvernig væri nú bara að hafa „kósý kvöld“ með börnunum þau mega það, kaupa nammi, dorritos og búa til eðlu?“ Ég slefaði alveg við tilhugsunina, maginn hrópaði á nammi og ég var komin út í sjoppu í huganum. Engillinn var sem betur fer snöggur að grípa inn í þessa óheilbrigðu hugarleikfimi og kom með mun betri hugmynd; poppkorn og kristall klikkar ekki. Ég var sátt! Púkinn aðlagast hægt og rólega og mun að lokum skilja þetta, ég er handviss um það. Hann kannski fer aldrei en mun klárlega breyta hugmyndum sínum með tímanum!

Það sem er svo yndislegt við uppákomur sem þessar er að upplifa sigur þegar maður breytir rétt. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að ég muni aldrei fá mér eðlu eða nammi aftur, en þegar að því kemur þá á ég inni fyrir því. Við spariguggurnar eru svo ótrúlega heppnar að hafa frábæra konu sem einkaþjálfara. Sú kona heitir Lilja Ingvadóttir og stendur þétt við bakið á okkur og peppar mann upp þegar þess þarf. Hún fær matardagbók senda frá mér á hverjum degi, fer yfir hana og bendir á hvað er gott og/eða hvað ég mætti gera betur. Það er alveg ótrúlegt hvað það skiptir miklu máli að skrifa niður samviskusamlega allt sem þú borðar, ég tala nú ekki um ef að einhver á að fara yfir það,  þú klárlega borðar réttar, minna og oftar!  

Í vikunni fékk ég leiðinda pest og þá fór púka og englastríðið á fullt. Er ekki alveg sjálfsagt að leyfa sér eitthvað meira þegar maður á bágt? Púkinn minn var alveg á því að það hlyti að vera, ég og engillinn vorum alls ekki sammála og sögðum púkanum bara að fara að sofa! Í gegnum tíðina hafa einmitt veikindi oft rústað frábærri rútínu hjá mér. Svo þegar fríksleikinn mætir aftur er oftar en ekki alveg ótrúlega erfitt að koma sér af stað aftur. Ég var hörð núna og tók meðvitaða ákvörðun um að ef ég á bágt þá er það bara þannig, nammi og eitthvað óhollt er ekki að fara að laga það.

Ég ætla að enda þetta á svo sannri setningu sem Lilja sagði við mig um daginn eftir að ég hafði verið í púka og englastríði vegna sætinda sem voru á boðstólnum í matarboði sem ég var í  (engillinn vann).  „Láttu ekki skammtíma gleði koma í veg fyrir langtíma vellíðan“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál