Bráðhollt að vera í yfirþyngd

Svo virðist vera sem yfirþyngd sé alls ekki svo slæm.
Svo virðist vera sem yfirþyngd sé alls ekki svo slæm. mbl.is

Fyrir rétt rúmum áratug leiddu rannsóknir í ljós að ákveðnum hópi fólks sem þjáðist af langvinnum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, farnaðist betur en öðrum. Niðurstöðurnar hefðu átt að vera gleðiefni, en ollu vísindamönnum þess í stað heilabrotum. Það sem sameinaði þennan hóp var nefnilega fita. Vefmiðillinn Quartz greindi frá þessu.

Carl Lavie, sérfræðingur í hjartalækningum, var fyrstur manna til að lýsa „offitu þversögninni“ líkt og hún hefur verið kölluð, en það tók hann meira en ár að finna tímarit sem vildi birta niðurstöður hans.

Síðan þá hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á nákvæmlega sömu niðurstöður og Lavie komst að, en það virðist vera að svolítil yfirþyngd geti varið fólk gegn ýmsum kvillum, svo sem lungnabólgu, heilablóðfalli, krabbameini, of háum blóðþrýstingi og öðrum hjartasjúkdómum.

Vísindamönnum sem reynt hafa að afsanna kenninguna, eða gert tilraun til að sýna fram á að hún byggi á röngum gögnum, hefur hingað til ekki tekist ætlunarverk sitt. Þrátt fyrir að vísindamenn séu almennt ekki á sama máli um um hvaða þýðingu þversögnin hefur þræta mun færri fyrir hana í dag.

Nýjasta og líklega viðamesta rannsóknin sem styður „offitu þversögnina“ var framkvæmd af farsóttarfræðingnum Katherine Flegal. Hún skoðaði gögn úr hundruðum rannsókna þar sem dánartíðni var sett í samhengi við BMI stuðul sjúklinga. Flegel komst að því að dánartíðni sjúklinga var lægst hjá þeim sem voru í svolítilli yfirþyngd, en rannsóknin náði yfir 3 milljónir manns.

Fólk af öllum stærðum og gerðum þróar með sér hjartasjúkdóma, þó að yfirþyngd auki líkurnar á þeim upp að vissu marki. Þeir sem á annað borð fá hjartasjúkdóma og eru svolítið þéttholda virðast betur í stakk búnir að takast á við veikindin heldur en þeir sem eru í kjörþyngd, eða þjást af mikilli offitu.

Ef þversögnin er raunverulega til staðar er þá einhver ástæða fyrir fólk til að létta sig? Er í raun og veru vit í því að reyna að tálga af sér aukakílóin? Vísindamenn eru ekki sammála, en Paul McAuley sem starfar við Winston-Salem State-háskólann í Bandaríkjunum bendir á að lífsstíll hefur mun meira að segja um langlífi fólks heldur en holdafar.

Linda Bacon, prófessor í næringarfræði við USFC, bendir einnig á að fólk einblíni of mikið á þyngd í staðinn fyrir heilbrigði. Vænlegra til árangurs sé að temja sér holla siði, borða hollt fæði og hreyfa sig reglulega í stað þess að vera sífellt að reyna að ná fyrirfram ákveðinni þyngd.

Hugsanlega er þversögnin beinlínis fólgin í því sem við erum vön að skilgreina sem kjörþyngd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál