Lyfti hálfu tonni og fór létt með það

Arnhildur Anna Árnadóttir.
Arnhildur Anna Árnadóttir. Ljósmynd/Facebook
Arnhildur Anna Árnadóttir lyfti rúmlega hálfu tonni á Bikarmóti í kraftlyftingum sem fram fór á Akureyri um helgina. Þetta rúmlega hálfa tonn færði henni Íslandsmeistaratitil í greininni. Arnhildur Anna tók sig til og lyfti 200 kg í hnébeygju. Þegar hún er spurð að því hvernig hún hafi farið að þessu er fátt um svör. 
„Ég bara veit það ekki alveg. Maður allavega uppsker eins og maður sáir,“ segir Arnhildur Anna sem hefur stundað kraftlyftingar af fullum krafti síðustu ár undir stjórn Ingimundar Björgvinssonar einkaþjálfara í World Class á Seltjarnarnesi.
Á bikarmótinu var keppt í búnaði en búnaðurinn getur bætt við allt að 30% í styrk ef búnaðurinn er notaður rétt. 
„Í fullum útbúnaði lyfti ég hálfu tonni og þrettán kílóum samanlagt. 200kg í hnébeygju, 122,5 kg í bekkpressu og 190,5 kg í réttstöðulyftu.“
Arnhildur Anna Árnadóttir lyfti rúmlega hálfu tonni um helgina.
Arnhildur Anna Árnadóttir lyfti rúmlega hálfu tonni um helgina. Ljósmynd/Berserkur
Þegar Arnhildur Anna er spurð að því hvernig æfingar hafi gengið síðustu vikur og hvernig hún hafi undirbúið sig segir hún að það skipti öllu máli að hausinn sé rétt skrúfaður á. 
„Æfingar hafa gengið mjög vel síðustu vikur og hausinn í góðu standi. Hann er nú stór partur af þessu öllu saman. Fyrir mót fer ég í uppkeyrslu til að byggja upp hámarks styrk sem samanstendur af þyngri og færri lyftum heldur en vanalega.“
Hvað ertu að borða vikuna fyrir mót? „Ég sleppi öllu ógeði. Ég borða hreina fæðu eins og dagsdaglega, en daginn fyrir mót hleð ég kolvetnum fyrir komandi átök. Mér finnst gott að borða spaghetti bolognese kvöldið áður til dæmis.“
Hvernig er með þyngdarflokkinn, er erfitt að halda sig innan hans? „Nei, það finnst mér auðvelt! Ég keppi í -72 kg flokki og ef ég borða hollan mat og æfi nóg er ég örugg. Í þessum flokki er ég í minni kjörþyngd og þetta snýst ekki um að borða minna og vera sem léttust. Heldur miklu frekar að borða nóg og vera sterk.“
Hvað færðu út úr því að lyfta svona þungu? „Gleðina yfir því að ná markmiðum mínum og vita að ég geti betur. Maður getur nefnilega alltaf meira. Einnig eru lyftingar góð hugleiðsla og í miðri lyftu er núvitundin algjör. Aðaláskorunin er þó eftir. Ég hef ekki enn unnið pabba minn í sjómann en ég stefni á að bæta mig í þeim málum,“ segir hún og á þá við föður sinn, Árna Hauksson fjárfesti. 
Ef þú værir ekki í kraftlyftingum, í hverju værir þú þá? „Ég væri alveg örugglega búin að láta undan þrýstingi kærasta míns og komin á bólakaf í crossfit.“
Mæðgurnar Borghildur Erlingsdóttir og Arnhildur Anna Árnadóttir.
Mæðgurnar Borghildur Erlingsdóttir og Arnhildur Anna Árnadóttir.
Nú hafið þið mæðgurnar verið að lyfta báðar, finnst fólk það ekkert skrýtið að þú mæðgurnar séuð saman í þessu? „Mér finnst eins og fólk sé farið að venjast því að sjá konur í kraftaíþróttum.“
Nú er desember framundan og jólaundirbúningurinn, er það eitthvað sem þú ekki borðar sem fólk gúffar í sig í desember? „Nei, ég hugsa ekki. Ég er jólakelling sem finnst gaman að borða.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál