Dorrit vill banna fullunninn sykur

Dorrit Moussaieff.
Dorrit Moussaieff.

„Ég var á Foodloose-ráðstefnunni síðastliðinn fimmtudaginn. Forsetafrúin Dorrit Moussaieff opnaði hana og setti fram þá ósk sína að Ísland yrði fyrsta ríkið í heimi til að banna innflutning á fullunnum sykri. Þegar hún minntist fyrst á þessa ósk sína, í fyrra að mig minnir, fannst mér frekar fráleitt að hún gæti orðið að veruleika, en þegar ég horfði í kringum mig í Hörpu og sá áhuga fólks, örlaði fyrir smá möguleika á að þetta gæti orðið að veruleika. Spurningin er bara hvenær?

Á ráðstefninni var heilmikið fjallað um sykur og það hversu miklum skaða hann veldur í líkama okkar. Í fyrirlestri Dr. Assem Malhotra kom fram að hann teldi sykur valda fleiri dauðsföllum, en kyrrseta, reykingar og áfengisneysla samanlagt, sem eru auðvitað sláandi staðreyndir. Auk þess benti hann á að sykur væri ekki næringarefni, svo við þyrftum ekkert á honum að halda,“ segir Guðrún Bergmann í sínum nýjasta pistli: 

Í fyrirlestri dr. Axels F. Sigurðssonar hjartasérfræðings kom fram að þegar Landspítalinn var opnaður voru sjúklingar þar almennt með smitsjúkdóma, en í dag eru það nánast einvörðungu lífsstílssjúkdómar, þar sem sykur á m.a. stórann hlut að máli.

SYKURNEYSLA BARA EYKST OG EYKST


Á síðustu öld urðu miklar breytingar á mataræði fólks í þróuðu löndunum, en segja má að þær hafi þó orðið mestar eftir síðustu heimsstyrjöld. Talið er að fyrir um hundrað árum hafi sykurneysla á mann verið í kringum 10 kg á ári og þá aðallega í formi flókins sykurs, sem kemur beint úr ávöxtum, grænmeti, rótarávöxtum, kornmeti og öðru þess háttar. Ýmsar tölur benda til að hún sé nú rúmlega 50 kg á ári og þá aðallega í formi hvíts sykurs, sem er gersneyddur öllum vítamínum. Þar sem hvítur sykur er svo fínunninn að hann er án allra vítamína og bætiefna, eyðast vítamín og steinefni, eins og magnesíum og sink, úr líkamanum við neyslu hans, til dæmis úr beinunum. Neysla á hvítum sykri veldur líkamanum að auki ýmiss konar öðru áreiti og telst einn helsti heilsuskaðvaldurinn í dag.

DULARHEITI SYKURS


Sykur er okkur ekki nauðsynlegur, en honum hefur verið bætt í ótal fæðutegundir til að auka löngun fólks í þær. Í venjulegum stórmarkaði eru á milli ellefu og tólf þúsund vörutegundir. Aðeins örfáar þeirra innihalda EKKI sykur. Þegar lesið er á matvælaumbúðir er vert að gæta þess að sykur er falinn í matvælum undir ýmsum heitum. Það er sykur í fæðunni ef eitthvert af eftirfarandi orðum kemur fyrir í innihaldslýsingu innfluttra fæðutegunda:


          Sucrose                                  Dextrose
          Dextrine                                 Fructose
          Maltose                                  Invert sugar
          Corn sugar                               High fructose corn syrup
          Corn sweetener                           Natural sweetener
          Honey                                    Molasses
          Cane syrup                               Galactose
          Beet sugar                               Maple syrup

Þrátt fyrir mismunandi heiti eiga öll þessi innihaldsefni, og reyndar fleiri til, eitt sameiginlegt. Þau eru öll SYKUR. Framleiðendum er skylt, víða um heim, að telja upp innihaldsefni í hlutfalli við magn þeirra í fæðunni og fyrst á að telja það sem mest er af og svo koll af kolli. Sé eitthvert þessara orða framarlega í innihaldslýsingunni er nánast víst að töluvert magn af viðkomandi sætuefni er í fæðunni. Margir framleiðendur nota auk þess fleiri en eitt sætuefni í sömu vörutegund og villa þannig um fyrir neytandanum, sem þekkir ekki heitin.

Ég grúskaði aðeins og leitaði á vefnum og fann á síðu dr. Malhotra tilvitnun í heimildarmynd sem heitir THAT SUGAR FILM. Hún veitir sláandi upplýsingar um sykurinnihald matvæla sem við teljum almennt að séu heilsusamlegar.

Heimildir: Úr bókinni CANDIDA SVEPPASÝKING eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu Bergmann.

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál