Sjokk að sjá söluna á sykruðu gosi

Sirrý Svöludóttir, vöruflokksstjóri Krónunnar.
Sirrý Svöludóttir, vöruflokksstjóri Krónunnar. mbl

Viðskiptavinir Krónunnar hafa líklega rekið augun í það að búið er að fjarlægja allt sælgæti af kössum verslunarinnar. Sirrý Svöludóttir, vöruflokksstjóri Krónunnar, segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að fjarlægja allt sælgæti af kassasvæði Krónunnar því það sé í takt við þá vegferð sem fyrirtækið er á. Það er að segja að bæta aðgengi viðskiptavina að vörum í hollari kantinum. Sirrý starfaði áður sem markaðsstjóri Yggdrasils og kemur beint úr heilsugeiranum inn í hinn nýlenduvörubransann. 

„Við kassasvæðin eru nú alls kyns „grab to go“-vörur sem eru án viðbætts sykurs. Þetta eru einfaldlega ýmiss konar næringar- og/eða hrábarir, ávaxtaskvísur, ávaxta- og grænmetisþeytingar, lífrænir gosdrykkir án viðbætts sykurs og hnetu-og fræblöndur og fleira í þeim dúr. Eitthvað fyrir alla,“ segir Sirrý.

Sirrý segir að það að skipta sælgætinu út fyrir hollari kost hafi gefist mjög vel. 

„Við tókum þetta skref á vormánuðum og höfum nýlokið við að breyta kassasvæðum í öllum okkar 17 verslunum, en nýjasta verslun okkar í Flatahrauni Hafnarfirði opnaði í byrjun júlí,“ segir hún.

Spurð að því hverju hún haldi að þetta skili segir hún að þetta hafi nú þegar skilað mun jákvæðari upplifun fyrir kúnnana.

„Viðskiptavinir hafa verið duglegir að lýsa yfir ánægju sinni yfir þessu framtaki. Viðskiptavinir okkar kunna einfaldlega að meta að sælgæti sé ekki otað framan í þá við kassasvæðin sem minnkar áreitið og þá togstreitu sem margir verða fyrir þegar þeir stoppa stutta stund í biðröð og sjá að einu kostirnir í kringum þá er sælgæti stútfullt af sykri.“

Upp á síðkastið hefur verslunin staðið fyrir miklum breytingum á verslununum. 

„Við erum fyrst og fremst að stórauka úrval lífrænna og hollustuvara hvort sem er í ferskvöru eða í annarri matvöru og það kallar á endurskipulagningu í verslunum okkar svo það endurspegli okkar sýn á hvernig matvöruverslun eigi að vera. Þú sérð til dæmis kolsýrt vatn á undan sykruðu gosi, hnetubar hjá nammibar, sælgætislaus kassasvæði, jurtamjólk í stórauknu plássi, heilsuvörur fremst í flæði ásamt flennistóru og metnaðarfullu grænmets- og ávaxtatorgi. Með þessu erum við að sýna fram á að það er hægt að gera allt þetta en samt vera lágvöruverðsverslun svo þú þurfir ekki að fara á 10 staði til að klára að versla í matinn.“

Nú hefur þú góða yfirsýn yfir innkaup fólksins í landinu. Er eitthvað sem kemur þér á óvart í innkaupum fólks?

„Það var svolítið menningarsjokk fyrir mig að koma úr lífræna heilsugeiranum og yfir í smásöluna og sjá með berum augum hversu mikil sala er í sykruðu gosi og sælgæti. Við vitum að fólk hefur áhuga á að minnka sykurneyslu sína og það er ákveðið leiðarljós í okkar vegferð – að kynna, framstilla og gefa hollari kostum það pláss sem þeir eiga skilið án þess að það sé á kostnað sælgætis og sykraðra gosdrykkja sem sannarlega fást enn þá í Krónunni og finna svo að viðskiptavinir okkar kunna vel að meta það.“

Ætti fólk að vera að kaupa eitthvað annað inn? „Að mínu mati ætti fólk að hætta að berja sig niður og læra að njóta lífsins. Allir heilsumelirnir detta reglulega í nammiskálina, en það sem skiptir máli er að vera meðvitaður neytandi, kunna á hvaða matur er raunverulega hreinn og hvað er hollusta í dulbúningi og njóta svo meðalhófsins, sem ég vona að verði bara hið næsta æði!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál