Lærði að hugleiða undir handleiðslu zen-meistara

Gyða Dröfn hefur lagt stund á hugleiðslu um árabil.
Gyða Dröfn hefur lagt stund á hugleiðslu um árabil. Ljósmynd / Gyða Dröfn Tryggvadóttir

Lýðheilsufræðingurinn Gyða Dröfn Tryggvadóttir starfar sem ráðgjafi hjá Lausninni en hún hefur lengi lagt stund á hugleiðslu. Gyða Dröfn heldur úti námskeiðum í núvitund, þar sem þátttakendum er kennt að kyrra hugann og njóta líðandi stundar. En hvað kom til að Gyða Dröfn fór velta núvitund fyrir sér?

„Ég byrjaði að iðka zen-hugleiðslu fyrir tæpum 20 árum og hef haldið mig við hana þar sem hún er leið til að skilja lífið,“ segir Gyða og bætir við að hún hafi alltaf haft mikinn áhuga á lífsstíl og heilsu.

„Lífið er alls konar og hefur sinn gang þrátt fyrir öll okkar plön, en með því að sjá og meðtaka lífið eins og það er nákvæmlega núna getum við verið betur til staðar í andartakinu og meiri þátttakendur í eigin lífi. Iðkun núvitundar getur haft mjög jákvæð áhrif á það hvernig við hugsum og tökumst á við lífið, bæði í gleði og sorg.“

Eins og áður sagði hefur Gyða Dröfn stundað hugleiðslu um árabil, en hún er nemandi zen-meistarans Jakusho Kwong Roshi.

„Kennarinn minn,  zen-meistarinn Jakusho Kwong Roshi, kom fyrst hingað til lands fyrir 30 árum í gegnum Íslending sem fór á setur hans í Kaliforníu. Í kjölfar komu hans varð til félagið Zen á Íslandi – Nátthagi og hefur Kwong Roshi verið kennari félagsins til þessa dags. Hann hefur komið nánast árlega til að leiðbeina okkur og ég hef farið reglulega til Kaliforníu til hugleiðsluiðkunar undir hans handleiðslu. Við hjónin höfum tvisvar sinnum farið og dvalið í 6 mánuði í senn,“ segir Gyða og bætir við að það sé líklega eitt það besta sem hún hafi gert í lífinu.“

Gyða segist njóta þess að slaka á í íslenskri náttúru.
Gyða segist njóta þess að slaka á í íslenskri náttúru. Ljósmynd / Gyða Dröfn Tryggvadóttir

Hvað er núvitund?

Hugtakið núvitund hefur verið á allra vörum undanfarið, en hvað merkir það?

„Núvitund er að vera til staðar í andartakinu, meðvituð um það sem er að gerast hér og nú,“ segir Gyða. „Iðkun núvitundar er leið til að tengjast okkar eigin lífi með því að taka eftir á annan hátt en við erum vön. Að vera til staðar án þess að reyna að stýra hugsunum okkar, að horfast í augu við okkur sjálf á heiðarlegan og einlægan hátt. Iðkun núvitundar getur breytt því algjörlega hvernig við bregðumst við því sem á vegi okkar verður. Á meðan við erum að vinna að verkefnum dagsins er hugurinn á fleygiferð, en við áttum okkur ekki á því af því við gefum honum ekki mikinn gaum, stöldrum ekki við og fylgjumst með hvað er í gangi. Og ef það kemur dauð stund þá erum við komin í símann, tölvuna eða sjónvarpið,“ bætir Gyða við.

Að sögn Gyðu Drafnar er deginum ljósara að streita hefur mikil áhrif á líf nútímafólks, en hún segir margvísleg heilsufarsvandamál megi rekja til langvarandi streitu.

„Það er mín tilfinning að áhugi fólks fari vaxandi á að læra hugleiðslu. Það er mjög margt sem við getum gert til að minnka neikvæð áhrif streitu, en það krefst þess þó af okkur að við leggjum rækt við það. Hugrækt er á vissan hátt hægt að líkja við líkamsrækt. Við byggjum ekki upp vöðva nema með því að þjálfa þá, og það sama á við um hugann.“

En hvað gerir Gyða Dröfn sjálf þegar hún þarf að kyrra hugann og slaka á?

 „Hugleiðslan er í mínum huga besta aðferðin til þess að kyrra hugann. Með því að sitja reglulega í þögn, stutta stund í einu, og fylgjast með hugsunum okkar eins og áhorfandi, án þess að dæma það sem fram fer, gefst okkur tækifæri til að þekkja hugsanir okkar og tengjast lífi okkar betur. Við beinum athyglinni að andardrættinum og um leið og hugurinn hvarflar og við tökum eftir því þá færum við athyglina aftur á andardráttinn. Með því að beina athyglinni inn á við og leyfa hugsunum að koma og fara án þess að grípa þær á lofti og leyfa þeim að ráða för, þá byrjar hugurinn smám saman að róast og verður skýrari,“ segir Gyða og bætir við að það komi henni enn á óvart hvað hugurinn er virkur án hennar vitundar. „Mér finnst stundum allt vera með kyrrum kjörum en um leið og ég sest niður og byrja að hugleiða átta ég mig á að hugurinn er úti um víðan völl.“

„Mín uppáhaldsleið til slökunar er góður göngutúr í íslenskri náttúru. Ég geng á hverjum degi og það er svo dásamlegt að þurfa hvergi að leita langt hér á landi til þess að njóta fallegrar náttúru sem endurnærir sál og líkama. Ég fer mikið í sund og eyði góðum tíma í heitu pottunum því mér finnst vatnið róandi og það hefur þá eiginleika að skola burt streitunni. Til þess að kyrra hugann er nauðsynlegt að gefa honum gaum og sjá hvað hann er að bauka þegar við erum upptekin í öðru. Við getum meira að segja verið upptekin við að slaka á án þess að taka eftir því hversu virkur hugurinn er,“ segir Gyða Dröfn að endingu.

Frekari upplýsingar um núvitundarnámskeiðið „Lífið er núna“ má finna hér, en næsta námskeið fer fram 23. ágúst næstkomandi.

Gyða Dröfn nýtur þess að stunda útivist, meðal annars að …
Gyða Dröfn nýtur þess að stunda útivist, meðal annars að fara í fjallgöngur. Ljósmynd / Gyða Dröfn Tryggvadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál